Nýtt áskriftarkort í Þjóðleikhúsið: „of gott til að vera satt!‟
EFTIR MÖGUR ÁR í Covid-faraldrinum er starfsemi Þjóðleikhússins aftur komin í fullan gang.
Í September fór þjóðleikhúsið af stað með byltingarkennt áskriftarkort fyrir ungmenni á aldrinum 15 til 25 ára, sem stúdentar við Háskóla Íslands ættu að kynna sér sem fyrst. Nýja árskortið kostar aðeins 1.450 krónur á mánuði, gildir í 10 mánuði og veitir ótakmarkaðan aðgang að öllum sýningum og fólk getur komið eins oft og hver og einn vill.
Áskrifandinn þarf ekki að ákveða fyrir fram hvaða leiksýningar hann ætlar að sækja heldur er miðinn bókaður samdægurs. „Þetta er eiginlega of gott til að vera satt, en samt satt,‟ segir Magnús Geir leikhússtjóri í viðtali við fréttamann Stúdentablaðsins, sem heimsótti leikhúsið og ræddi við tvo unga og efnilega leikara við Þjóðleikhúsið, þau Ebbu Katrínu Finnsdóttur og Sigurbjart Sturlu Atlason, ásamt Magnúsi Geir.
Leikhúsið hvergi eins vinsælt og á Íslandi
„Við sem vinnum í leikhúsinu á Íslandi erum ótrúlega heppin,‟ segir Magnús Geir, „vegna þess að Íslendingar elska leikhúsið og hafa alltaf gert það. Það eru fá ef nokkur lönd í heiminum þar sem leikhússókn er svona almenn. Meira og minna allir fara einhvern tímann í leikhúsið, á meðan í flestum öðrum löndum er þetta kannski bara frekar lítil elíta innan samfélagsins sem sækir leikhúsið.‟
„Þetta breytir leikhúsinu mjög mikið, því við erum að tala við breiðan hóp og fyrir þetta erum við þakklát. Fyrir vikið getum við kannski haft meiri áhrif en aðrir láta sig dreyma um og það er einmitt það sem við þráum, við sem vinnum í leikhúsinu, að segja sögur sem skipta máli, hreyfa við einhverri umræðu og spyrja einhverjar spurningar.‟
„Ég held að leikhúsið hafi sjaldan verið mikilvægara en núna. Með tilkomu snjallsímans erum við alltaf í okkar eigin heimi, rýnum í símann og erum ein með einhverju tæki, en leikhúsið er einn af þeim fáum stöðum sem eftir er þar sem við erum öll sammála um að við leggjum símann frá okkur og erum bara á staðnum að upplifa eitthvað einstakt öll saman.‟
Gefur streymisveitunum langt nef
Eftir tilkomu streymisveitna á borð við Netflix hefur samkeppnin um athygli orðið meiri. Bíóhúsin hafa fundið fyrir því og oft þurft að draga saman seglin, en Magnús telur að sú samkeppni þurfi ekki endilega að skaða leikhúsið ef rétt er haldið á spilunum. „Þetta kallar á að við hugsum: hvað er sérstakt við leikhúsið? Hvað höfum við sem streymisveiturnar hafa ekki? Við höfum það að vera saman, það er einhver orka falin í því sem við getum unnið með.‟
„Stundum hefur leikhúsið reynt að apa eftir bíói eða sjónvarpi, en það er kannski ekki staðurinn sem við eigum að vera á í dag, heldur þurfum við frekar að einbeita okkur að því sem gerir leikhúsið sérstakt. Og þegar vel tekst til þá upplifa áhorfendur þetta: að það er eitthvað magnað sem er að gerast akkúrat núna hérna sem ég myndi aldrei upplifa heima, fyrir framan sjónvarpið eða skjáinn.‟
Opið kort fyrir ungmenni á gjafaverði
Áskriftarkort hafa lengi verið í boði í Þjóðleikhúsinu en nýja opna kortið er með allt öðru sniði og mun hagkvæmara fyrir ungmenni.
„Hingað til höfum við verið með tvær leiðir fyrir leikhúsgesti: þeir geta annars vegar keypt sér miða á staka sýningu og hins vegar kort sem gildir fyrir fjórar eða fleiri fyrirframákveðnar sýningar. Þetta er grunnurinn og lifir góðu lífi og er hugsað fyrir alla áhorfendur.‟
„Síðan vitum við að þarna er hópur af ungu fólki þar sem margir hverjir hafa mikinn áhuga á leikhúsi. Þeir hafa líka nægan tíma, eru ekki búnir að hrúga niður börnum og eru laus á kvöldin, geta þess vegna farið oft út og hafa áhuga á því, en vandamálið hjá stórum hluta þessa hóps er bara peningar. Þó að leikhúsið á Íslandi sé ekki dýrt miðað við önnur lönd þá er það samt dýrt miðað við margt annað sem fólk á þessum aldri er að gera, og það stoppar fólk í að fara eins oft og það vill.‟
„Önnur staðreynd er að þessi hópur er kannski ekki jafn spenntur fyrir því að tryggja sér miða á ákveðnar sýningar marga mánuði fram í tímann, vegna þess að lífið gerist hraðar hjá þeim. Fólk vill og getur stokkið til og er kannski orðið vant einhverju öðru neyslumynstri sem byggir meira á áskrift, eins og streymisveiturnar bjóða upp á. Við höfum ákveðið að við viljum opna leikhúsið og gera það aðgengilegra fyrir þennan hóp og útkoman er þetta kort en með því erum við að pressa verðið alveg rosalega langt niður. Þetta er eiginlega of gott til að vera satt, en samt satt. Við höfum fengið góðar viðtökur við þessu korti og ég hef þá tilfinningu að hlutfall yngri leikhúsgesta muni aukast mikið með þessu.‟
Lærði verkfræði við HÍ en lét síðan drauminn rætast
Ebba á auðvelt með að setja sig í spor háskólanema við HÍ enda lærði hún sjálf verkfræði við háskólann áður en hún fór í leiklistarnám. „Verkfræði átti ekki við mig og ástríðan togaði mig í átt að leiklistinni.‟
„Við Bjartur erum bæði fastráðin í eitt ár í senn við Þjóðleikhúsið þannig að við erum alltaf með næg verkefni út árið að minnsta kosti, en margir leikarar eru lausráðnir og þá er töluverð óvissa sem fylgir þessu starfi.‟
„Þetta er svolítið líkt íþróttamennsku. Það er mikil keyrsla. Maður er á fótunum allan daginn sem leikari og maður þarf að halda sér í standi til að geta æft í sex klukkutíma á dag og farið síðan að sýna á kvöldin, stundum allt að fimm klukkutímum í viðbót. Leikhúsið á mann svolítið allan sólarhringinn, alla daga nema á aðfangadag og á sumrin.‟
„Maður er að æfa frá tíu til fjögur alla virka daga og svo er maður að sýna um helgar og stundum á kvöldin á virkum dögum,‟ segir Bjartur. „Síðan byrjar maður að æfa næsta leikrit eftir tvo mánuði. Sumir eru jafnvel að sýna leikrit um leið og þeir eru að æfa það næsta. Þá er maður að æfa frá tíu til þrjú, fær smá hvíld í tvo tíma og svo þarf að mæta aftur klukkan fimm eða sex fyrir sýningu kvöldsins.‟
Ádeila á dómskerfið í formi einleiksverks
Ebba Katrín Finnsdóttir og Sigurbjartur Sturla Atlason eru báðir fastráðnir leikarar við Þjóðleikhúsið. Þau útskrifuðust úr Listaháskóla Íslands á svipuðum tíma og léku saman í Rómeó og Júlíu sem sló rækilega í gegn fyrir nokkrum árum. Nú er Ebba að undirbúa sig fyrir sýninguna Orð gegn orði sem verður frumflutt í nóvember en Sigurbjartur leikur aðalhlutverkið í Ást Fedru. Ebba og Bjartur segja frá þessum verkum í viðtali við Stúdentablaðið.
„Orð gegn orði er einleiksverk sem var fyrst sett upp árið 2019 í Sydney í Ástralíu. Það er skrifað af Suzie Miller sem starfaði lengi sem lögmaður og var verjandi í kynferðisbrotamálum. Samhliða þessu starfi skrifaði hún leikrit og fleira en á endanum féllust henni hendur í lögmannastarfinu. Henni fannst umhverfið ekki vera þolendavænt og átti erfitt með að sjá það breytast þannig að hún ákvað að skrifa þetta leikverk til þess að reyna að ná fram þessum breytingum á lagakerfinu sem henni fannst vera nauðsynlegar. Hún hafði trú á því að leikhúsið gæti breytt heiminum.‟
„Verkið segir frá Telmu sem er ungur lögmaður og verjandi í kynferðisbrotamálum, eins og höfundurinn sjálfur. Hún er algjör keppnishestur, hefur ofurtrú á kerfinu og vinnur sig hratt upp samfélagsstigann. En svo lendir hún sjálf í því að það er brotið á henni og þá sjáum við hana fara í gegnum sama kerfi og hún var að vinna fyrir, nema sem þolandi í stað verjanda, og þá fáum við að velta fyrir okkur báðum hliðum.‟
Alltaf áskorun að útfæra verk fyrir íslenskar aðstæður
„Verkið varð mjög vinsælt í Bandaríkjunum og víðar um heiminn og það merkilegasta er að þetta verk er núna orðið skylduáhorf fyrir dómara á Norður-Írlandi. Það er að segja allir námsmenn sem ætla sér að vinna sem dómarar þurfa að hafa horft á þetta verk sem einhvers konar æfing í samkennd og samsömun.‟
„Það sem við þurfum að gera upp við okkur þegar við flytjum svona verk á Íslandi er það hvort við megum staðfæra verkið og spegla það í íslensku lagaumhverfi eða ekki. Við þurfum að finna einhverja snertifleti við íslenska áhorfendur svo að þeir geti speglað sig í verkinu að einhverju leyti.‟
„Eitt af því sem við erum að velta fyrir okkur núna er kviðdómurinn. Á Íslandi er enginn kviðdómur í dómskerfinu heldur eingöngu dómari og ef við ætlum að staðfæra verkið þá þurfum við að taka þennan kviðdóm út og þá þarf að breyta textanum jafnvel. En það ekki enn búið að skera úr um það.‟
Ögrandi verk sem byggir á grískri goðsögu
Verkið sem Bjartur leikur í, Ást Fedru, er eldra og nokkuð ólíkt því verki sem Ebba er að undirbúa. Það fjallar einnig meðal annars um kynferðisofbeldi en nálgunin er allt önnur.
„Þetta leikrit er samið í Bretlandi á tíunda áratugnum. Það er skrifað á tíma þegar var verið að sýna mikið af nýjum leikritum og þau voru gjarnan mjög beinskeytt og ofbeldiskennd. Þetta var ákveðin stefna þá í Bretlandi og sumt af þessu eldist kannski ekki sérstaklega vel en Ást Fedru hefur elst betur en mörg önnur verk.‟
„Leikritið skrifaði Sarah Kane aðeins tuttugu og fimm ára að aldri. Sagan byggir á grískri goðsögn um drottninguna Fedru sem verður ástfangin af stjúpsyni sínum Hippolítosi. Faðir Hippolítosar er nefnilega ekki heima og allt fer til fjandans.‟
„Það er til forn grískur harmleikur sem fjallar um þessa sömu sögu en er mjög formfast, í ljóðaformi, með kór og þess háttar en leikrit Kane er miklu frjálslegri útfærsla á þessum harmleik og snýr hlutunum svolítið á haus. Það er ekki beinlínis búið að staðfæra söguna. Það er ekki alveg ljóst í leikritinu hvar og hvenær sagan gerist og textinn er á nútímamáli.‟
„Í upphaflegu goðsögninni verður drottningin ástfangin af Hippolítosi vegna þess að gyðjan Afródíta er búin að leggja álög á hana en í þessari útfærslu er sú skýring ekki til staðar, þannig að það stendur svolítið eftir hjá áhorfendanum að ákveða hvað liggur þarna að baki.‟
Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri (mynd: Þjóðleikhúsið)
Uppistand, kabarett og spuni í Þjóðleikhúskjallaranum
Orð gegn orði og Ást Fedru eru aðeins tvær sýningar af mörgum sem standa til boða á þessu leikári, en til viðbótar við hefðbundnar sýningar býður leikhúsið á léttari afþreyingu í leikhúskjallaranum.
„Þar er líka fjölbreytt dagskrá og talsvert önnur áferð á sýningunum,‟ segir Magnús Geir. „Þetta getur verið alls konar: uppistand, kabarett, hádegisleikhús og spuni svo dæmi séu tekin. Þar mætir fólk og situr við borð og er með drykk í hönd og það er aðeins öðruvísi upplifun.‟
Leikárið 2023-24 lofar góðu og stúdentar munu án efa nýta sér þann fjölbreytileika sem Þjóðleikhúsið hefur upp að bjóða.