Rotnandi sælustundir: Þegar hatur nær fótfestu á björtum stöðum

Þýðing: Victoria Bakshina

Óþægindi leiða af sér skort á góðmennsku. Fólk bregst illa við aðstæðum þar sem hvatarnir á bak við þær eru óljósir, og þetta er enn sannara þegar kemur að hugtökum sem hrófla við trúgirni fólks. „Bestu“ hryllingsmiðlarnir, hvort sem það eru kvikmyndir eins og American Psycho, eða tölvuleikir eins og Silent Hill 2 eða Omori, sýna fram á að nískasti og djúpstæðasti óttinn leynist undir yfirborði ánægju eða rétt handan við hið mögulega. Kannski stafar þessi ótti af hamingju í bland við undarlega birtingarmynd verndarhyggju, þar sem við tengjum æ dýpra við það sem við skynjum sem „okkur“ og gefum okkur með óljósum rökum að aðrir séu siðferðislega óæðri,  „hinir“. Hatur og umburðarleysi grasserast á margan hátt, en gömlu höfuðsyndirnar, sjö talsins, eru ágætis mælikvarði til þess að gera grein fyrir þeim mismunandi þáttum sem leiða til öfgahyggju:

  • Losti, sem er ef til vill minnst augljósa erfðasyndin sem tengist öfgum, er þó oft drifkrafturinn að baki útlendingahatri - hægt er að finna lifandi dæmi þess í löndum þar sem ríkir mikil andúð í garð hjónabands þar sem aðilar eru með ólíkan trúarlegan bakgrunn 

  • Græðgi er tilfinning sem drífur áfram þröngsýnar hugmyndir um hvað sé best fyrir samfélagið

  • Ágirnd tengist þránni í meira en það sem myndi nægja öllum: „Verst að þetta fólk er hér, við gætum átt svo miklu meira án þeirra“ 

  • Leti raungerist í hugleysi „góða fólksins“ sem getur greint rétt frá röngu en skortir getuna eða drifkraftinn til þess að grípa til aðgerða

  • Reiði er ríkjandi aflið sem knýr hina „fáu útvöldu“ til aðgerða sem þjóna þeirra eigin grundvallarhvötum sem sagðar eru vera „til almannaheilla“

  • Öfund er náskyldur frændi græðgi og ágirndar hvað varðar öfgafullar aðgerðir, hér verða engar tilvísanir taldar fram til að bera saman við „betra samfélag“

  • Hroki er forveri flestra ofangreindra erfðasynda, og sú sem er erfiðust viðureignar, því hroki er fullvissan um að eigin gjörðir þjóni samfélaginu 

Með þetta í huga er engin ofangreindra erfðasynda boðberi öfgahyggjunnar upp á eigin spýtur - það eru fyrst og fremst fáfræði og ótti sem stuðla að öfgum, eðlisgallar sem alltaf er hægt að fyrirgefa en við ættum aldrei að gleyma. Að halda því fram að fáfræði og ótti séu „ekkert til að skammast sín fyrir“ eða að það sé „fullkomlega skiljanlegt“ að vera annaðhvort fáfróð eða óttaslegin manneskja, í besta falli ábyrgðarlaus og eftirlát, eða í versta falli (eins og margir stjórnmálamenn og stjórnendur eru) ábyrgir fyrir því að ala vísvitandi á ótta almennings.

 

Við skulum ekki vera ómyrk í máli, fyrir hönd fólksins sem brotið er á og skortir mannréttindi þrátt fyrir að búa, starfa við og virða lög samfélagsins - fyrir þeim er þögn jafn slæm og fordæming. Heimurinn hefur löngum verið baðaður í blóði og átökum, og viðbrögðin í kjölfarið eiga það til að velta á því hversu nálægt fórnarlömbin standa okkur, hvort þau tilheyra „okkur“. Þetta kann að hljóma eins og svartsýnt sjónarmið, en það er mikilvægt að muna að einu skrímslin sem fyrirfinnast eru mennsk. Allar brottvísanir, allir dómar og allir glæpir, þó hugmyndinni um hlutleysi sé haldið á lofti, velta á vali einnar manneskju, eða viðbrögðum fárra.

Ábyrgð á þessum aðgerðum er hverfult fyrirbæri. Það er allt of auðvelt að yppa öxlum því ábyrgð, skuldbindingar og önnur lagamál vernda, verja og vinna að því að tryggja langvarandi tilvist valdamannvirkja, án tillits til þeirra mörgu sem brotna í tannhjólum þeirra. Samkennd er aldrei nóg ef við erum „bundin í báða skó“. Við verðum öll, hvert og eitt einasta, að taka ábyrgð á samfélagshatri og stemma stigu við vexti þess. Hin hliðin á málinu er auðvitað stöðugur straumur upplýsinga og falsfrétta á netinu, lokuð netsamfélög sem spúa hatri, og „opinberir“ aðilar eða stofnanir eins og Twitter (sem stendur frammi fyrir eyðileggingu vegna nýs forstjóra þess, arðræningjans Elon Musk, sem gekk svo langt að enduropna aðgang annars loddara, Donalds Trump) sem gera fólki kleift að gleðjast yfir hvers kyns misupplýstum hvötum gegnsýrðum af kven-og útlendingahatri. Löngunin til þess að vera ánægður með sjálfan sig, án þess að vera í raun og veru góður, er öflugur hvati. Þegar skoðanir verða of öfgakenndar fyrir útbreiddustu fjölmiðlana, spretta upp aðrir valkostir eins og Koo á Indlandi, Truth Social og Parade í Bandaríkjunum. Að fá að hata, að fá að vera illa upplýstur eru samfélagsmein sem varða almannavernd. Það sama á við um fullvissu einstaklingsins um eigin yfirburði og stórmennsku. Það er auðvelt að koma auga á sprungurnar í umburðarlyndu og samþykkjandi yfirborði samfélagsins.Takið eftir og hryllið ykkur yfir gildrunum sem lagðar eru fyrir innflytjendur af okkar eigin Útlendingastofnun, gefið gaum að lengdum afgreiðslutíma sem sundra fjölskyldum þrátt fyrir „betri atvinnuaðstæður“ fyrir hin fáu heppnu sem ekki eru neydd til þess að fara í gegnum þetta ferli. Með niðurlægingunni og þeirri stöðugri vanlíðan sem fylgir því að vera erlendur sérfræðingur í útlöndum, er engin furða að innflytjendur haldi fastar í hugmyndir sínar um heimalandið og „samfélag“, þó að það geti að lokum orðið skaðlegra en nokkuð annað.

Ég er nógu gamall núna til að líta í kringum mig á heiminn og muna eftir því hvernig mér bauð við grimmdarverkunum á meginlandi Afríku, grimmdarverkum alls staðar, og ég er langþreyttur á normalíseringunni sem máir út þessi voðaverk. Bara til þess að verða vitni að endapunktinum, niðurlægingunni sem fylgir smættun flóttafólks niður í „vandamál“ af glæpamönnum, aftur og aftur.

Að fylgjast með þeim sem búa við forréttindi, við fæðingu eða vegna stöðu eða aðstæðna, yppa öxlunum óþægilega og líta í hina áttina, eða það sem verra er - bera smávægileg vandamál sín saman við þeirra sem ganga í gegnum hluti sem eru ofar skilningi flestra, er sjúkt.

Að sjá hvernig restin tekur skarpa hægri beygju og mótar sjálfsmynd sína út frá hugmyndum þjóðernishyggju andspænis voðalegum andstæðingi, á meðan aðgerðum í þágu þjóðar sem venjulega væru ekki liðnar er sópað undir teppið. Það eru engin auðveld svör til staðar.

 

Þar sem frelsi, góðmennska og menntun þrífast, þar getum við vonast eftir betri heimi, en þangað til verðum við að vera vakandi og hefja upp raustina hátt og snjallt hvenær sem mannlegum gildum er ógnað. Við verðum að vera miskunnarlaus í skilgreiningu okkar á mannréttindum, svo réttindi eins nái ekki svo langt að þau brjóti á réttindum annarra. Við getum keppst við að ná takmarkinu um einhvers konar fyrirmyndarland, en við verðum stanslaust að veita myrkrinu aðhald til þess að koma í veg fyrir að hatur fái að grassera - hatur sem þrífst í skúmaskotum og þögn, í ósögðum hugsunum og niðurbældum gjörðum. 

Við verðum að berjast til eilífðarnóns við að draga úr þessum hvötum, innra með okkur og á meðal okkar nánustu.