Skylda samfélagsins að skapa jöfn tækifæri fyrir öll

Sprettur er nýlegt verkefni á vegum Háskóla Íslands, sérsniðið að efnilegum nemendum með innflytjenda- og/eða flóttamannabakgrunn. Ætlunin er að styðja við og hvetja nemendurna til náms og hjálpa þeim að komast í gegnum framhaldsskóla og inn í háskóla. 

Stúdentablaðið ræddi við Nílsínu Larsen Einarsdóttur, verkefnastjóra Spretts, ásamt þátttakendum verkefnisins í sumarveislu þeirra.

Mynd: Mandana Emad

Mikilvægt að skapa fjölbreytt tækifæri

„Verkefnið er í rauninni nokkurs konar menntahraðall fyrir ungmenni á framhaldsskólaaldri,“ segir Nílsína. „Það er afskaplega mikilvægt að við hlúum að öllum og veitum jöfn tækifæri til náms í samfélaginu.“ Ekki megi ætlast til að allir viti hvar eigi að leita eftir tækifærum heldur þurfi að búa til boðleiðir, skapa tækifærin markvisst og hafa þau fjölbreytt. „Við erum að leitast eftir fólki sem vill þiggja þau og taka þátt.“

Verkefnið hefur göngu sína í þriðja sinn í haust og hefur stækkað gríðarlega frá því að það byrjaði. Fyrst hafi verið um 10 mentorar og 10 nemar sem fjölgaði yfir í 30 nema og 15 mentora árið eftir. „Og við erum að stækka enn meira núna. Við verðum 50 til 60 á komandi skólaári,“ segir Nílsína og óskar eftir fleiri mentorum.

Vinna saman að niðurstöðum

„Man sér að tækifærin sem verið er að bjóða upp á í gegnum þetta verkefni eru góð. Fólk vill nýta sér þann stuðning og hvatningu sem er í boði,“ segir hún. Stuðningurinn sem Sprettur býður upp á er þríþættur: námslegur; félagslegur og fjárhagslegur. 

Nemarnir koma aðra hverja viku og hitta mentorana sína þar sem þau hjálpast öll að við að læra saman. „Við erum ekki með formlegar kennslustundir heldur erum við á staðnum og erum reiðubúin að finna lausnir. Stundum erum við nokkur saman að grúska og komast að niðurstöðu.“

Félagslegi stuðningurinn er fólginn í því að nemarnir kynnist innbyrðis sem og öðrum mentorum. Þetta sé gert með því að fara út í samfélagið á menningarlega viðburði líkt og á leiksýningar og fótboltaleiki. Einnig fari þau á kaffihús og hafi það huggulegt. „Bara hittast og vera saman,“ segir Nílsína. Einnig fái allir nemar mánaðarlegar greiðslur fyrir að taka þátt. Þeir mentorar sem taka þátt fá skírteinisviðauka, gjafabréf í Bóksöluna og meðmælabréf. „Það er mikið horft til þess hvort viðkomandi hafi tekið þátt í sjálfboðaliðaverkefnum þegar verið er að sækja um annað nám. Svo þetta getur verið stökkpallur og opnað dyr að öðrum tækifærum.“

Erfitt að fá rými til að vera

Sunneva Líf Albertsdóttir var aðstoðarmaður Spretts síðastliðið vor. Hún byrjaði sem mentor þegar verkefnið fór fyrst af stað árið 2020 og segir nokkuð algengt að mentorar taki þátt lengur en í eitt ár. Verkefnið hefur að mestu verið starfrækt á meðan heimsfaraldur geisaði yfir og segja þær Nílsína að síðasta skólaár hafi verið sérstaklega erfitt. „Vegna samkomutakmarkana, fyrir það fyrsta. Þetta er stór hópur og oft er erfitt að fá rými til að vera. Það voru allir með grímur og samskiptin að vera í kringum fólk breyttust mikið,“ segir Nílsína. „Þetta var bara mjög flókið.“ Tilraunir voru gerðar með formið og heimavinnuaðstoðin var færð yfir á Teams um skeið en öll voru fegin þegar hægt var að hittast á ný. 

Fyrsti neminn til að sækja um háskólanám

Crystal Mae Villados er nemi í Spretti og er fyrsti þátttakandinn til að sækja um háskólanám. Hún hefur búið á Íslandi í rúm tíu ár og frétti af verkefninu í gegnum námsráðgjafa í MH. „Mér fannst þetta hljóma eins og það myndi hjálpa mér mjög mikið,“ segir Crystal. Að hennar sögn hefur verkefnið gagnast henni bæði félagslega og námslega og sótti hún um nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands í haust. 

Mynd: Mandana Emad

Tengingar sem ekki er hægt að kaupa úti í búð

Alltaf er mikið fjör þegar hópurinn kemur saman og hafa dýrmæt vináttubönd myndast í gegnum verkefnið. Hent hefur að einn þátttakandi skipti um framhaldsskóla til að geta verið meira með öðrum þátttakanda. „Þetta er í gegnum einhverja tengingu sem myndaðist hér,“ segir Nílsína. 

Þátttakendur verkefnisins eru öll með fjölbreyttan bakgrunn og margvíslega persónuleika um leið og mörg tungumál hafa verið töluð. „Það er svo gaman að sjá að þegar svo ólíkur hópur, stór, kemur saman verður til eitthvað móment sem man getur ekki búið til, einhverjir töfrar,“ segir Nílsína.

„Man sér líka að þau leita til mentoranna, oft ekki með nám heldur stundum lenda þau í aðstæðum og þurfa að fá einhvern mikilvægan og notalegan til að tala við,“ bætir hún við. „Þetta eru bara tengingar sem man getur ekki keypt úti í búð og ekki endilega auðvelt að mynda.“

Vill virkja háskólasamfélagið

Verkefnið er í sífelldri þróun og er í raun ákveðinn múrbrjótur inn í háskólasamfélagið á margan hátt. „Gagnvart þessum stóra hópi sem er með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn,“ segir Nílsína. „Við erum að sjá hvar götin liggja innan háskólans. Við erum að búa til alls konar þekkingu sem er ekki endilega til staðar eða í samhengi við hvar þessi göt liggja.“ 

Háskólasamfélagið þarf að horfa inn á við gagnvart þeim nemendum sem nú þegar eru í háskólanum og hafa þennan fjölbreytta bakgrunn. „Það er margt sem við gerum vel nú þegar en það er sömuleiðis margt sem mætti bæta. Við þurfum að virkja bæði háskólasamfélagið og nemendur þess og fá þau með okkur í lið til þess að vinna að breytingum, á viðhorfi og aðgengi að námi,“ segir Nílsína.

„Við fáum alveg jafn mikið út úr þessu og þau“

Hver mentor hefur nokkra nema í sinni umsjá og er gert ráð fyrir að hópurinn hittist reglulega. Stundum taki mentorar sig saman líkt og Hallberg Brynjar Guðmundsson og Hákon Gunnarsson hafa gjarnan gert og fara með nemahópana sína saman í bíó eða sund og jafnvel ræktina. 

Hákon segist ekki hafa vitað hvað hann var að koma sér út í þegar hann sótti um mentorstöðuna. „Hann kom í viðtal til mín og dró svo tvo vini sína með sér,“ segir Sunneva og hlær. Hún heldur gjarnan fyrirlestra fyrir mentorana sem Hákon hefur að sögn lært mikið af og nefnir að málstofa hennar um litablindu sitji eftir. 

„Svo er fínt að fá að umgangast fólk frá öðrum menningarheimum í svona afslöppuðum aðstæðum. Það er ekki búið að stilla þér upp í eitthvað viðtal, mér finnst það mjög flott,“ bætir Hákon við. Hann telur að mentorarnir læri alveg jafn mikið af nemunum sínum og þau af þeim. „Ég myndi segja að þetta sé algjörlega gagnkvæmt, við fáum alveg jafn mikið út úr þessu og þau.“

„Ég mæli með fyrir öll að sækja um,“ skýtur Hallberg inn í.

Ekki bara félagsfræðinemar sem hafa gagn af þessu

„Það er ótrúlega skemmtilegt hvað nemahópurinn er fjölbreyttur og er í alls konar námi og svo hittumst við hér með heimavinnuaðstoðina og það er mjög mikilvægt að mentorarnir komi úr mismunandi og fjölbreyttum brautum,“ segir Sunneva. „Það eru kannski mörg með þá mynd að það séu bara sálfræðinemar, kennaranemar eða einhver í félagsfræði sem hafa gagn af því að taka þátt í svona verkefni. En það er bara alls konar. Það er líka mikilvægt að það séu líka einhver úr verkfræði eða læknisfræði, eða bara hverju sem er. Okkur vantar fyrirmyndir úr öllum áttum.“

Umhyggja og virðing sett í fyrsta sæti

Nílsína segir þau hafa verið heppin með mentora undanfarin ár. „Þetta hefur verið virkilega flottur hópur sem er svo mikið á þessum mannlegu tengslum.“ Einblínt er á persónulega og réttindamiðaða nálgun í Spretti. „Grunnur verkefnisins eru mannréttindi okkar allra með áherslu á réttindi til náms. Með slíkri nálgun fáum við sem manneskjur tækifæri til að efla okkur sjálf, hvernig við komum fram gagnvart okkur sjálfum og öðrum.“

Hallberg hefur unnið með fólki undanfarin sjö ár og var starfið því ekkert nýtt fyrir honum. „Það er búið að þjálfa mann í hugmyndafræði sem heitir gentle teaching þar sem umhyggja og virðing er sett í fyrsta sæti, ég reyni að hafa það í huga þegar ég er mentor.“

Mynd: Mandana Emad
Þáttakendur í Spretti

Ekki bara mikilvægt heldur skylda samfélagsins 

Allir nemar eru í framhaldsskóla þegar þau byrja og er markmið verkefnisins að styðja við þau, hvetja þau áfram, sýna þeim tækifærin og skapa þau. „Vera með þeim í liði í gegnum framhaldsskólann og inn í fyrsta árið í háskólanum,“ segir Nílsína.

„Það er ekki bara mikilvægt fyrir okkur að búa til tækifærin heldur er það skylda okkar sem samfélag að skapa tækifæri fyrir öll,“ heldur hún áfram. „Sama hvaðan þú kemur eða hverrar trúar þú ert. Þess vegna er réttindamiðuð nálgun grunnurinn í öllu sem við gerum. Við notum rosalega mikið mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin.“

Nílsína vonar að fleiri skólar taki upp samskonar verkefni vegna þess að þörf er á því. Samfélagið sé fjölbreyttara en mörg telja.