„Stoner is the New Black“: viðtal við Volcanova
Þýðing: Birgitta Björg Guðmarsdóttir
Um daginn var ég að hengja upp þvott og velti því fyrir mér um hvað ég ætti að skrifa næst, fyrir einmitt þetta blað. Ég vissi að ég vildi skrifa um tónlist þar sem covid-er-alveg-að-ljúka áhrifin virtust hafa sleppt tónlistarmönnum úr viðjum heimatónleikanna. Fyrst langaði mig að skrifa um íslensku þungarokkssenuna, þess vegna heitir greinin það sem hún heitir. Svo kom út úr þvottavélinni skýr birtingarmynd þess sem ég þyrfti að gera, og ég stóð með hana í höndunum. Á stuttermabolnum var mynd af töffarabeinagrind sem brimaði yfir strönd þakta bjórdósum. Myndin var af kápu plötunnar Radical Waves, sem er sú fyrsta sem íslenska dóphausarokkbandið Volcanova sendir frá sér. Pöddurokk (e. Stoner rock) einkennist af eins konar sýrurokki og psychedelichljóðum, en þrátt fyrir nafngiftina er tónlistarstefnan ekki undirflokkur rokks (e. rock) heldur þungarokks (e. heavy metal). Pöddu- forskeytið vísar þá ekki til skordýra heldur til hægra takttegunda og dómsdagstónblæs, innblásna af hljómsveitinni Black Sabbath og á ef til vill heldur meira skylt við að vera pöddufreðinn.
En nóg um það. Krísan sem ég hafði verið í var þar með leyst á núlleinni. Ég ákvað að hafa strax samband við Volcanova sem samþykkti viðtal fyrir Stúdentablaðið. Í þessari grein fáið þið að kynnast hljómsveitinni í gegnum Þorstein Árnason (Steina), bassaleikara hljómsveitarinnar og söngvara
Hverjir standa að baki Volcanovu?
Við erum þrír strákar frá ólíkum landshlutum. Samúel (gítar og söngur) er úr Mosó, Dagur (slagverk og söngur) er frá Dalvík og ég sjálfur (bassi og söngur) kem frá austasta bæ landsins, Neskaupstað. Ég fór að spila á gítar þegar ég var í kringum 12 ára gamall en skipti yfir á bassa þegar ég var 15, og um það leyti fór ég að spila með fyrstu hljómsveitinni minni. Við spiluðum aðallega asnalegar ábreiður og ég spilaði þannig með alls konar böndum næstu árin eftir það - ég segi að það hafi verið besti skólinn, að læra allar þessar popp-ábreiður. En svo seinna fór ég að hafa meiri áhuga á að spila þungarokk. Og eftir að hafa búið í heimabænum í 25 ár var tími til kominn að ég færði mig um set. Ég flutti til Akureyrar árið 2013 og kláraði BA í sálfræði frá HA 2016. Síðan flutti ég til Reykjavíkur 2017, aðallega til að spila tónlist og hafa gaman. Þá endaði ég í Volcanovu auk þess sem ég stofnaði nýtt band sem heitir Rock Paper Sisters.
Hvenær og hvernig var hljómsveitin stofnuð?
Það var Samúel sem stofnaði bandið árið 2014, með vini sínum Ögmundi Kárasyni sem spilaði á trommur. Þeir bættu við sig bassaleikara (Herði Lúðvíkssyni) seinna og þegar þeir hættu árið 2017 komu ég og Dagur inn. Við Samúel þekktumst ekki þá, en ég hafði heyrt góða hluti um Volcanovu og Samúel vissi að ég væri að flytja til Reykjavíkur. Ég þekkti Dag nú þegar frá því að ég bjó á Akureyri og við vorum í hljómsveitum þar (Churchhouse Creepers og ONI) svo ég var ekki lengi að segja já við Samúel þegar hann bauð mér að spila á trommur.
Hvaðan kemur nafnið?
Sko, Volcanova þýðir einfaldlega „nýtt eldfjall“, en sagan af því hvernig nafnið kom til er skemmtileg. Samúel og fyrrverandi trommara hljómsveitarinnar datt nafnið í hug þegar þeir voru saman í jarðfræði að læra um skerið okkar góða.
Hvaðan dragið þið innblástur fyrir tónlistina?
Þegar Samúel stofnaði bandið var hann mjög hrifinn af Mastodon og öðrum Pöddurokkböndum, og auðvitað öllum rokkhljómsveitirnar frá áttunda áratugnum, þá sérstaklega Black Sabbath. Innblásturinn kom mikið þaðan og kemur í raun enn. Við höfum mjög fjölbreyttan tónlistarsmekk og höfum þar að auki allir mismunandi tónlistarbakgrunn, svo við verðum fyrir áhrifum af tónlistarstefnum öðrum en pöddurokki og eyðimerkurrokki (e. desert rock). Til dæmis hlustar Dagur á 70’s fönk og Neil Young, en Samúel hlustar á Mastodon, Kraftwerk og Spice Girls. Ég hlusta aðallega á Jack White og Bjartmar Guðlaugsson.
Hvernig hefur Covid haft áhrif á ykkur?
Fyrsta árið áttum við bókuð gigg erlendis, í Skotlandi og Englandi nánar tiltekið. Við ætluðum líka að koma fram á nokkrum íslenskum tónlistarhátíðum. Við áttum að spila á Eistnaflugi, í heimabæ mínum, og á Secret Solstice. Við vorum heppnir að fá að spila nokkur góð gigg sumarið 2020 auk þess sem við gáfum út fyrstu plötuna okkar í ágúst sama ár.
Við þurftum að fresta útgáfutónleikunum þrisvar eða fjórum sinnum en við náðum loks að halda þá í október í fyrra, þar sem við troðfylltum Gaukinn. Það kvöld var stórfenglegt og við vorum svo hissa að sjá allt fólkið sem mætti, fólk sem við höfðum aldrei séð áður var mætt á tónleika og söng með, það var stórfengleg tilfinning! Við notuðum tímann vel, æfðum og skrifuðum meiri tónlist sem endaði svo á nýju plötunni. Á þessu ári hefðum við verið á okkar fyrsta Evróputúr með vinum okkur úr The Vintage Caravan en þeir þurftu því miður að fresta fram í september/október, það reyndist svo vera til góðs því við gátum bætt nokkrum giggum við á Spáni og í Portúgal. Það var frekar kúl. Frestun tónleika og tekjutap en meiri tími til að einbeita okkur að hljómsveitinni þegar kom að æfingum og lagasmíðum.
Þið gáfuð nýverið út nýja plötu sem heitir Cosmic Bullshit Hvernig gekk það?
Við höfum alltaf átt nokkur lög sem voru næstum jafn gömul og þau sem voru á Radical Waves, svo við fengum þá flugu í höfuðið að gefa út stuttskífu. Við vildum gefa þessi lög út strax svo næsta plata innihéldi bara nýja og ferska tónlist. Þegar við minntumst á það við plötuútgáfuna okkar urðu þau mjög spennt og vildu raunar að við hefðum sex lög á plötunni en ekki tvö eða þrjú eins og við höfðum ætlað okkur fyrst. Við áttum efnið til og urðum spenntir að kýla bara á það.
Upptökuferlið var auðvelt, skemmtilegt, þægilegt og gekk greitt fyrir sig. Við viljum senda kveðju á framleiðanda okkar Helga Durhuus sem framleiddi líka Radical Waves. Við kláruðum þetta á um það bil mánuði (þrjár eða fjórar langar helgar) sem var mun styttra en þegar við tókum upp Radical Waves, því þá vorum við inn og út úr stúdíóinu í níu mánuði eða eitthvað svoleiðis.
Við héldum útgáfufögnuð á Lucky Records daginn eftir útgáfuna. Þar spiluðum við nokkur lög og skemmtum okkur með þeim sem mættu, það var mjög gaman. En við ætlum að halda alvöru útgáfutónleika á Gauknum þann 26. mars með tveimur frábærum böndum, Dopamine Machine og O’Bannion. Við fengum góða dóma fyrir plötuna í erlendum miðlum, þar á meðal í Metal Hammer sem er eitt stærsta þunkarokkstímarit í heimi. Við gætum ekki beðið um meira.
Hvað er næst fyrir Volcanovu?
Fyrir utan útgáfutónleikana eigum við nokkur gigg plönuð á næstu vikum og vonandi fáum við að spila á einhverjum tónlistarhátíðum í sumar. Svo er planaður Evróputúr með The Vintage Caravan í haust þar sem við spilum um tuttugu tónleika í sex til sjö löndum, og við erum mjög spenntir fyrir því. Þetta verður okkar fyrsti stóri Evróputúr og vonandi ekki sá síðasti. Við erum strax byrjaðir að vinna í nýjum lögum fyrir næstu breiðskífu en við getum ekki sagt til um hvenær við förum í upptökur. Annars munum við bara halda áfram að semja tónlist, spila gigg, fara á gigg og helst bara skemmta okkur.
Hefur þú einhverju við að bæta?
Mig langar að þakka þér fyrir tækifærið til að vera partur af Stúdentablaðinu. Mig langaði líka að nýta tækifærið og þakka hverri og einni einustu manneskju sem hefur stutt okkur, keypt plöturnar okkar, mætt á gigg og verið almennt frábær og súper stuðningsrík.
Bónusspurning: Hver er þín uppáhalds nýútgefna plata?
Það er úr mörgu að velja, það er alltaf nýtt stöff að koma út, en það er ein plata sem mér dettur í hug fyrir síðustu tvö árin. Það er sænskt band sem kallast Lowrider sem gaf út sína aðra plötu árið 2020, tuttugu árum eftir sína fyrstu sem var alveg frábær. Þessi plata, sem kallast Refractions, er með þeim bestu sem ég heyrt í langan tíma. Ég elska hljóðheiminn og sérstaklega bassahljóðið. Ég yrði stoltur að geta náð svona sándi. Laglínurnar eru líka ótrúlega grípandi og ég mæli með þessu fyrir alla sem elska rokk með góðu grúvi.