Eurovision: Fyrsta partí sumarsins!
Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir
Eitt af því sem ég elska við Ísland er eftirvæntingin sem heltekur þjóðina þegar Eurovision nálgast. Þegar kemur að tónlistarstefnum hafa framlög Íslands verið mjög fjölbreytt í gegnum árin og ég velti fyrir mér hvort þau endurspegli tónlistarsmekk Íslendinga eða hvað íslensku þjóðinni finnist líklegast að vinni Eurovision. Ég ræddi við Gísla Martein Baldursson, en hann hefur verið þulur Íslendinga í Eurovision í fjöldamörg ár. Hann velti því upp hvort fjölbreytileikinn í íslenskri tónlistarsenu gæti verið ástæðan fyrir þessum ólíku framlögum - að fólk kjósi frekar það sem þau fíla á sviði í Söngvakeppni sjónvarpsins en ekki endilega það sem þau halda að gangi vel í Eurovision.
Áhorf á Eurovision:
Ég er alin upp í Bretlandi og þessi gífurlegi spenningur fyrir Eurovision er ekki eitthvað sem ég hafði upplifað áður. Ekki misskilja mig samt, ég hef alltaf elskað Eurovision, en hér á landi virðist þetta vera landlægur spenningur sem skapar eins konar samfélagskennd. Gísli sagði mér að ríkissjónvörp í Evrópu sjái um að sýna Eurovision og að áhorfið sé ansi hátt, á Norðurlöndunum sé það mest og þá sérstaklega á Íslandi og í Svíþjóð. Ég velti því fyrir mér hvort áhuginn sé sá sami eftir að keppninni lýkur og Gísli minnti mig á að Måneskin hafi orðið mjög vinsæl eftir að þau unnu, þau birtust áspilunarlistumá Spotify um alla Evrópu, og að lög úr keppninni kæmust oft á vinsældarlista á Íslandi eftir keppni (eitthvað sem ég efast um að gerist eins oft í Bretlandi).
Velgengni Eurovision:
Ég velti því fyrir mér hve stórt hlutverk þetta spilar í velgengni Eurovision og af hverju fólk elskar keppnina svona mikið. Ég er algjörlega sammála Gísla um það að fjölbreytnin í lögunum og atriðunum skipti þar sköpum: „mjög skrítin, mjög glaðvær, stundum fyndin (stundum óvart fyndin) atriði sem áhorfendur sjá annars ekki“ og að sú staðreynd að sum laganna eru mjög góð og sum eru mjög léleg gerir þetta að „fyndnu og skemmtilegu sjónvarpsefni“. Það hvað listamennirnir virðast hafa gaman af þessu er eitt af uppáhaldi mínu við Eurovision. Gísli hitti svo sannarlega naglann á höfuðið þegar hann mat það sem svo að fólk taki þessu ekki of alvarlega og að á Íslandi sé þetta oft með fyrstu partýum sumarsins - þetta snúist allt um stemningu.
Ég gat augljóslega ekki kvatt hann þarna því ég þurfti að spyrja Gísla að því hver hann heldur að vinni. Þrátt fyrir að sigurvegarar keppninnar geti oft verið óútreiknanlegir grunar Gísla að framlag Úkraínu, Stefanía, muni hljóta mörg símaatkvæði (þó dómnefndin gæti orðið á báðum áttum). Hann bætti við að Ítalíu og Svíþjóð gæti gengið ansi vel að hans mati. Ef þú last fyrri grein mína tekurðu kannski eftir því að ég er ósammála honum með þetta og ég held að þessi atriði standi ekki jafn mikið upp úr og sum önnur. Þetta er önnur ástæða fyrir því að ég elska Eurovision svona mikið, það er alltaf eitthvað fyrir alla, sama hver tónlistarsmekkurinn er.
Geta samtök á borð við EBU verið ,ópólitísk’?
Líkt og greining Gísla á hugsanlegu gengi Úkraínu bendir til er keppnin ekki bara glimmer og glans: Eins og flest vita nú þegar hafa stærstu Eurovision-fréttirnar þetta árið verið brottrekstur Rússlands úr keppni. Í yfirlýsingu frá Evrópusamtökum útvarpsstöðva (EBU) kom fram að þrátt fyrir að EBU séu „ópólitísk“ samtök, er þeim „annt um að vernda gildi menningarlegrar keppni sem eflir samtal og skilning…“ og „fagna fjölbreytileika í gegnum tónlist og sameinar Evrópu á einu sviði“.
Að mínu mati er þessi yfirlýsing stútfull af þversögnum, sér í lagi ef við tökum það með í reikninginn að EBU hefur hingað til hunsað stríð og brot á mannréttindalögum eftir hentisemi. Ísrael var ekki bannað að keppa. Þar að auki unnu þau keppnina árið 2018 og héldu hana þar af leiðandi 2019. Framlag Íslendinga var sérstaklega eftirminnilegt það árið, ekki bara fyrir lagið og stílinn, sem var lýst sem „bindiblætispoppi, teknópönki og iðnaðargoth“ og stóð auðveldlega upp úr júrópoppinu, heldur líka fyrir mótmæli sín gagnvart ástandinu í Palestínu þegar lokaatkvæðin voru kynnt. Ísland var í kjölfarið sektað fyrir að brjóta reglur keppninnar um að vera „ópólitísk“. Þetta ár kölluðu mörg sem hliðholl voru Palestínu eftir því að keppnin yrði sniðgengin. Þrátt fyrir að vera greinilega sama sinnis ákvað Hatari að mótmæla á annan hátt og nota vettvanginn sem Eurovision er til að mótmæla aðgerðum Ísraels svo sem flestir sæju. EBU hafði áður orðið fyrir gagnrýni eftir að hafa hunsað mannréttindabrot í Aserbaísjan, hvaðan fréttir bárust af því að fólk hefði verið flutt af heimilum sínum með valdi svo hægt væri að byggja nýja Eurovisionhöll fyrir keppnina árið 2012.
Hvernig skilgreinir EBU eiginlega „pólítiskt“?
EBU refsaði Íslandi fyrir að haga sér á „pólitískan“ hátt og sagði ekki múkk við fréttum um mannréttindabrot í Aserbaísjan nokkrum árum áður. Árið 2018 tók kínversk sjónvarpsstöð upp á því að ritstkoða írska framlagið „Together“ vegna þess að söguþráður textans var um samkynhneigð EBU rifti samningum sínum við stöðina samstundis sem varð til þess að það var ekki hægt að horfa á Eurovision í Kína. Það hlýtur að vera hægt að telja það sem pólitíska aðgerð að banna heilu landi (vissulega af góðum ástæðum) að horfa á keppnina? EBU hefur ekki hikað við að banna lög vegna pólitísks boðskapar; árið 2021 fékk framlag Hvíta-Rússlands ekki að keppa og þegar staðgengillinn var dæmdur alveg jafn pólitískur (og þar af leiðandi ekki viðeigandi) fékk Hvíta-Rússland ekki að taka þátt í keppninni. Aftur á móti fannst mér rúmenska framlagið árið 2015, ,De la capăt’, fullpólitískt. Lagið var gefið út í þeim tilgangi að vekja athygli á börnum sem skilin eru eftir af foreldrum sínum sem flytja erlendis til að vinna. Þessu var leyft að keppa. Ég viðurkenni að ég hef ekki lúslesið keppnisreglurnar, en þarna finnst mér vera ósamræmi.
Einn vina minna í Bretlandi sagði mér að hann fílaði ekki Eurovision því það gerði lítið úr mikilvægum skilaboðum að stilla þeim upp við hliðina á grínatriðum. Boðskapur sem annars ætti að vera eftirminnilegur og alvarlegur yrði að andstæðu sinni. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta, ég meina, ég skil alveg hvað hann átti við, en held líka að sýnileiki og fjölbreytni verði aldrei fullkomin, það eina í stöðunni sé bara að bæta sig. Ég vona að brottrekstur Rússa frá þessari keppni sé skref í rétta átt. Ég get ekki sagt að ég skilji allar ákvarðanir EBU þegar kemur að fjölbreytni, en þrátt fyrir að þau geti bætt sig (mikið) er keppnin tvímælalaust alltaf skemmtileg.