Stelpur í STEM
Skammstöfunin STEM kemur úr ensku og stendur fyrir vísindi (science), tækni (technology), verkfræði (engineering) og stærðfræði (math). Skammstöfunin vísar til náms og starfa í raunvísinda- og tæknigeiranum. Almennt hallar á hlut kvenna í þessum greinum og því þótti mér upplagt að ræða við fjórar konur, eina á hverju sviði, um upplifun þeirra af námi sínu eða vinnu.
Helga Kristín Torfadóttir - S
Hvað ertu að læra?
Ég er í doktorsnámi í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands. Þegar ég var barn elskaði ég risaeðlur og allt tengt náttúrunni en áttaði mig ekki endilega á því að þetta væri einhver starfsgrein sem sameinaði áhugasviðið. Síðan fór ég í MR og kynntist jarðfræðinni fyrst þar og þá small þetta saman hjá mér. Eftir menntaskóla tók ég mér árspásu frá hefðbundnu námi og fór í leiðsögunám og tók meirapróf því að ég vissi að ég vildi enda í jarðfræði og langaði í leiðsögumannaréttindi áður en sá pakki tæki við.
Hvað er skemmtilegast í þessu öllu saman?
Doktorsnámið snýst mikið um að rannsaka, safna sýnum og gögnum og skoða hvað þau segja manni til að fá heildarmynd á því sem maður er að rannsaka. Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar ég uppgötva eitthvað. Ég hef kannski hugmynd um hvað gæti verið í gangi, en það er alltaf gaman þegar gögnin staðfesta þá hugmynd. Það að fá staðfestingu á kenningu sem maður er með og geti sannað það er æðisleg tilfinning.
Hvað er erfiðast í náminu?
Núna er ég komin í doktorsnám og það er í raun allt öðruvísi en að vera í grunn- eða meistaranámi. Umgjörðin kringum námið er mun lauslegri núna svo ég þarf sjálf að hafa frumkvæði til að koma hlutum af stað. Ég er mjög skipulögð og þarf rútínu, en í doktorsnámi ræður þú vinnutímanum og það er oft erfitt ef maður dettur úr rútínu.
Hefur þú fundið fyrir einhverjum áskorunum/hvernig er menningin?
Það var góð stemning í grunnnáminu, hópurinn var samheldinn og skemmtilegur. Hins vegar, eftir því sem líður á námið fækkar fólki og sérstaklega núna í doktornum er ekki mikið af fólki með mér í þessu, ég er ein á mínu sérsviði. Auk þess er eðli námsins að maður vinnur mikið sjálfstætt og einn, sem getur verið einangrandi. En ég er fulltrúi doktorsnema í jarðvísindum og er núna að reyna að keyra í gang þannig að allir doktorsnemarnir hittist.
Hvað er næst á dagskrá?
Nú held ég bara áfram mínu striki í rannsóknum mínum og klára doktorsnámið. Annars tek ég að mér verkefni hér og þar eins og leiðsögn um allt land og jökla eða að vera í tökum á stórum heimildarmyndum eins og til dæmis fyrir BBC Earth og National Geographic. Stærsta hliðarverkefnið mitt eins og er er instagrammið mitt, @geology_with_helga. Ég deili þar skemmtilegum staðreyndum um jarðfræði samhliða ævintýrum mínum.
Lilja Ýr Guðmundsdóttir- T
Hvað ertu að læra/vinna við?
Ég lærði hugbúnaðarverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Núna er ég að vinna hjá Marel og er mikið að forrita og hanna kerfi þar, svona bakendadæmi. Ég hef alltaf haft áhuga á forritun og hönnun tæknilegra hluta. Ég valdi hugbúnaðarverkfræði því þar var mikil áhersla á forritun en líka blanda af einhverju öðru, til dæmis stjórnun og samskipti við viðskiptavini.
Hvað er skemmtilegast?
Mér finnst alltaf skemmtilegast í forritun þegar forritið virkar, það vekur upp svona gleðitilfinningu. Sérstaklega þegar maður er búinn að vera að þráast við einhverja eina villu í marga klukkutíma og svo allt í einu fær maður forritið til að gera það sem það á að gera, ég verð asnalega spennt yfir því. Þetta er það sem heldur mér gangandi og ég hef heyrt að mörg eru sammála mér í þessu.
Hvað er erfiðast í náminu?
Það erfiðasta eru allir strákarnir. Ég er eini kvenforritarinn í minni deild akkúrat núna og það verður smá þreytandi. Það eru ákveðnir hlutir sem við eigum bara ekki sameiginlega, sérstaklega því þeir eru líka allir eldri en ég. Það hjálpar samt alveg að það eru konur utan deildarinnar sem ég sé af og til. Það er gott að hafa fólk sem tengir við mig til að geta rætt við og sem stendur við bakið á mér.
Hefur þú fundið fyrir einhverjum áskorunum/hvernig er menningin?
Aldrei þegar ég var ung, en í háskólanum byrjaði ég að finna aðeins að fólk vildi ekki trúa mér eða hlusta á mig en af því ég hef þennan bakgrunn og veit að ég get þetta hef ég fundið í mér að segja þessu fólki, nei ég get þetta alveg. Í vinnunni finn ég frekar mikið fyrir því að ég er mun yngri en flest fólkið þar. Þá þarf ég leggja meira á mig við að vinna mér inn traust samstarfsfélaga og yfirmanna heldur en þau sem eru eldri og hafa kannski meiri reynslu.
Hvað er næst á dagskrá?
Þetta er reyndar búið núna, en nýlega hélt ég forritunarnámskeið fyrir konur sem höfðu aldrei forritað áður. Markmiðið með námskeiðinu var að hvetja konur til að spreyta sig á forritun á skemmtilegan hátt. Mér fannst það mjög skemmtilegt og vonandi held ég áfram að gera eitthvað svipað í framtíðinni.
Herdís Hanna Yngvadóttir - E
Hvað ertu að læra/vinna við?
Ég er að klára iðnaðarverkfræði hér í Háskóla Íslands. Árið sem ég byrjaði var nýbúið að endurskipuleggja námið alveg frá grunni. Það var áður miklu líkara almennri véla- eða rafmagnsverkfræði en núna er mun meiri áhersla lögð á hluti eins og stjórnun. Svo þetta er ágætlega þverfaglegt nám, dálítið eins og að taka verkfræði með viðskiptafræði.
Hvað er skemmtilegast í þessu öllu saman?
Hópurinn sem er með mér í náminu er mjög góður. Við erum ekki mjög mörg og það er mikið um teymisvinnu í náminu svo við höfum náð að hristast vel saman. Ég hef líka mætt frekar miklum sveigjanleika í námuni hvað varðar námskeiðaval. Mér hefur tekist að púsla saman val- og aukaáföngum við grunnnámið mitt svo ég hef fengið talsverða sérhæfingu í því sem mér finnst áhugaverðast.
Hvað er erfiðast?
Fyrsta árið gekk frekar vel en þá vorum við ennþá að læra svipaða hluti og ég lærði í menntaskóla. Ég rak mig þó á það á öðru og sérstaklega þriðja ári að við erum mikið beðin um að beita því sem við lærum. Þá er ekki nóg að kunna námsefnið utan að eða skilja það. Verkfræði snýst mikið um að leysa vandamál og núna í lok námsins fáum við oft verkefni upp í hendurnar sem hafa ekki endilega ákveðna lausn, við þurfum að búa hana til. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en ég þurfti eiginlega að læra að læra upp á nýtt.
Hefur þú fundið fyrir einhverjum áskorunum á ferlinum?
Ég var fulltrúi í Stúdentaráði Háskólans á öðru árinu mínu en ég tók einmitt við störfum þegar covid fór af stað. Ég fann þá að það vantaði mikið upp á samskipti milli nemenda og starfsfólks háskólans. Við reyndum að miðla áfram hagsmunum stúdenta en mættum oft lokuðum dyrum. Það tók frekar mikið á. Hvað varðar deildina mína sérstaklega þá hef ég aðallega jákvæða hluti að segja. Eins og ég sagði áðan er nemendahópurinn samheldinn og góður. Auk þess er iðnaðarverkfræðin eina verkfræðin með jafnt kynjahlutfall. Það vantar þó stundum upp á viðhorfið hjá eldri karlkyns kennurunum, að mínu mati.
Hvað er næst á dagskrá?
Ég mun útskrifast í vor og síðasta haust sótti ég um meistaranám í útlöndum. Mig langar að halda áfram að læra iðnaðarverkfræði svo ef ég fæ þau svör sem ég vonast eftir þá er nám í útlöndum næst á dagskrá hjá mér.
Svala Sverrisdóttir - M
Hvað ertu að læra/vinna við?
Ég er að læra stærðfræði með áherslu á reiknifræði, sem er eiginlega bara hrein stærðfræði með áherslu á hagnýta stærðfræði. Núna er ég að leggja mikla áherslu á algebru og fléttufræði. Þessa önn er ég í skiptinámi frá HÍ í Berkeley háskólanum í Kaliforníu.
Hvað er skemmtilegast í þessu öllu saman?
Það skemmtilegasta við námið er líklegast félagsskapurinn, að geta hitt fólk sem hefur sama áhuga og ég á náminu. Það er gott að geta spjallað um efnið, ekki bara til þess að geta klárað heimadæmin, heldur líka af áhuga. Mér finnst líka gaman þegar ég loksins næ að skilja eitthvað sem hefur verið að vefjast fyrir mér. Þá skil ég betur af hverju ég legg þetta allt á mig, því það er nóg álag í þessu námi.
Hvað er erfiðast?
Stundum er maður að leggja svo mikið á sig til að skilja eitthvað flókið dæmi eða hugtak og það gengur ekki. Mér finnst það alltaf frekar leiðinlegt. Svo hef ég líka fundið dálítið fyrir impostor syndrome í náminu. Manni líður alltaf eins og maður viti minnst af öllum í kringum sig en síðan spjallar maður við fólk og heyrir að það eru allir nokkurn veginn á sama stað.
Hefur þú fundið fyrir einhverjum áskorunum á ferlinum?
Menningin í náminu getur oft verið góð en hún getur líka oft verið ekki góð. Ég hef til dæmis alveg heyrt frá fólki að stelpur eigi ekki heima í stærðfræði. Stundum er ég að tala við fólk í náminu um heimadæmi eða próf og ég finn að það er ekki endilega tekið mark á því sem ég er að segja. Einhvern tímann var ég til dæmis með hugmynd að lausn við dæmi sem enginn tók mark á en ég ákvað samt að skila henni. Svo daginn eftir hrósaði kennarinn lausninni minni sérstaklega. Ég samt á líka nokkrar sögur um að kennarar trúi því ekki að ég hafi unnið heimadæmin mín alveg sjálf, jafnvel haldið að ég hafi fengið lausnina af netinu.
Hvað er næst á dagskrá?
Ég sótti um framhaldsnám á nokkrum stöðum síðasta haust og hef verið að fá svör. Ég fékk flott svar frá Berkeley sem ég er mjög spennt fyrir og það stefnir allt í það að ég verði hér áfram næstu fimm árin doktorsnámi í stærðfræði.