Bókmenntahorn ritstjórnar: Fjórar bækur til að taka með í fríið
Myndir: forlagid.is og amazon.co.uk
Íslenskar bækur:
Ef förinni er heitið á Þingvelli er Blóðberg eftir Þóru Karítas Árnadóttur tilvalin lesning. Þóra skrifar um Þórdísi Halldórsdóttur, fyrstu konuna sem drekkt var í Drekkingarhyl, og tekst prýðisvel til. Það er ekki margt vitað um Þórdísi en Þóra nýtir sér kirkjubækur og dómsskjöl til að draga upp skáldlega mynd af lífi konunnar, hugsunum hennar og draumum allt frá barnsaldri til síðustu stundar. Bókin er stutt, 174 síður, og því tilvalin fyrir þau sem vilja kynna sér samfélagsskipan 17. aldar með skáldlegu ívafi og lítilli fyrirhöfn.
Ef stefnan er hins vegar tekin vestur á firði eða norður í land eru bækur Kristínar Marju Baldursdóttir um myndlistarkonuna Karitas, Karitas án titils og Óreiða á striga tilvaldir ferðafélagar. Bækurnar segja frá staðfastriungri konu í upphafi 20. aldar og þrautagöngu hennar í gegnum lífið. Listinni, ástinni og náttúrunni. Bækurnar fengu verðskuldaða athygli á sínum tíma og ættu að henta flestum þeim sem kunna að meta góð skrif og bitastæðar persónur.
Erlendar bækur:
Titill Sumarbókarinnar eftir Tove Jansson segir allt sem segja þarf. Þessi skáldsaga Múmínálfa-höfundarins er ljúf, sólrík og sumarleg og kjörin í félagsskapur á pallinum eftir vinnu, ströndinni á Tenerife og allt þess á milli. Bókin er eins konar millistig skáldsögu og smásagnasafns og segir frá lítilli fjölskyldu og lífi þeirra á smárri finnskri eyju. Tove kemur mani alltaf í gott skap en fær man jafnframt til að hugsa. Aðdáendur Múmínálfanna ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum.
Sumar í stórborg, ástir, missir, fjárhagslegir örðuleikar og sköpunarmátturinn, um þetta fjallar hin stórskemmtilega skáldsaga Writers & Lovers eftir Lily King. Þar segir frá ungri skáldkonu, Casey, snjallri en sársaukafullri sögupersónu á tímamótum í lífi sínu. Langir dagar æskunnar eru senn á enda og sérhver þáttur í lífi hennar í kreppu um leið og hún fellur fyrir tveimur ólíkum mönnum á sama tíma. Hér er á ferð hugljúf og fyndin skáldsaga sem togar í hjartastrengina, fullkomin í sumarfríið.