Rótlaus: Leit að sjálfsmynd í heimi hnattvæðingar
Þýðing: Stefaniya Ogurtsova
Ein af vandræðalegri spurningum sem fólk spyr mig er: „Hvaðan ert þú?” Þetta virðist frekar einfalt, bara sakleysislegt rabb sem fylgir því að hitta nýtt fólk, en ég fer örlítið hjá mér. Ég verð að viðurkenna að það er nógu vandræðalegt að vera Rússi þessa dagana, en það verður ekki auðveldara þegar ég þarf að útskýra á hvaða hátt ég sé ekki beinlínis Rússi.
Sjálfsmynd sem byggir á uppruna
Af hverju finnst mér ég ekki vera mikill Rússi? Sökum þess að ég hef búið erlendis alla mína ævi hef ég einfaldlega ekki fengið sömu reynslu af raunverulegum aðstæðum rússneska lífsins og þeir Rússar sem hafa ætíð dvalið í heimalandinu. Til eru milljónir hópupplifana sem ég hef ekki fengið að upplifa sem skapa annars tengingu milli Rússanna heima fyrir. Til er nýlegur slangur sem ég hef ekki tileinkað mér, brandarar og sögur sem ég fatta ekki því þau krefjast djúps skilnings á daglegu rússnesku lífi, og svo framvegis.
Burt séð frá því er ég ekki Rússi vegna þess að ég missti fyrir löngu trúna á hugtökunum upphaf og rætur. Á einhverjum tímapunkti gat ég einfaldlega ekki lengur haldið uppi því yfirbragði að mér finnist að sjálfsmyndir eiga að byggja á uppruna. Hvað með það að ég fæddist í tilteknu landi og var alin upp af foreldrum með tiltekið ríkisfang? Ég gat ekki lítið fram hjá því að slík sjálfsmynd grundvallast á tilviljunum einum.
Í leit að „sannri” sjálfsmynd
Samt sem áður virðist hugtakið um rætur standa mjög nærri hjarta sums fólks og því upplifir það mikla þörf fyrir að halda sig við hugmyndina um mikilvægi eigin róta. En af hverju stafar þessi áhugi samtímafólks? Að tilheyra einhverjum hópi eða samfélagi hefur líklegast ekki krafist svo mikillar sjálfsmeðvitundar fyrr í sögunni. Eftirfarandi umfjöllun er tilraun mín til þess að kynna hugmyndir heimspekingsins Slavoj Zizek sem birtast í grein hans „Multiculturalism, or, the Cultural Logic of Multinational Capitalism” í því skyni að reyna að varpa ljósi á fyrrgreint fyrirbæri.
Þessi heltekni á rótum kann að vera viðbragð við því að hafa tapað rótum sem slíkum. Hugtakið um rætur er afturvirkt, það er að segja, þessi hugmynd verður til sem afleiðing af útbreiðslu hnattræns fjármagns. Í raun og veru er það fjármagnið sem mótar mest sjálfsmynd okkar í samtímanum, en þessi staðreynd er of gróf fyrir flesta að horfast í augu við og því neyðumst við til að hunsa hana með því að taka þátt í stanslausri leit að „sannri” sjálfsmynd. Slíkt fyrirkomulag hentar þeim sem standa að baki hnattrænu fjarmagni enda er fjármagnið tilbúið að leggja undir sig alla ólíka menningarheima en fagnar á sama tíma fjölbreytileikanum.
Ófjölbreyttar rætur
Forvitin um það hvar almenn netumræða sé stödd varðandi rætur, gúgla ég leitarorðin „going back to one’s roots”. Á fyrstu blaðsíðu leitarvefsins eru flestar niðurstöður að fást við að skilgreina þetta hugtak. Í sjöundu niðurstöðu birtist grein undir nafninu „Three reasons why getting back to your roots isn’t what you think it is”. Greinin, sem er eftir notandann dczook á miðlinum medium.com, fjallar um neikvæðar hliðar þess að vera heltekin af rótum. Dczook segir: „Nýlega átti ég samtal við filippseyskan-bandarískan mann sem var á leiði út til Filippseyja og hann hlakkaði mikið til. Maðurinn hafði áhyggjur vegna þess að, samkvæmt honum, var hann orðinn of „bandarískur” og þurfti því að tengjast rótum sínum aftur, að snúa aftur heim — þrátt fyrir því að hafa fæðst í Bandaríkjunum — til þess að hreinsa eigið sjálf af Bandarískum áhrifum og rækta frekar hið filippseyska í sér. ….með öðrum orðum fannst honum dvöl sín á menningarlega fjölbreyttum stað hafa mengað sjálfið sem var að öðru leyti upprunalegt og flekklaust.”
Dczook heldur áfram: „Þú finnur ekki þjóðarmorð eða átök tengd þjóðerni í sögunni sem var ekki hluti af tilraunum manna til að að hæla rótum sínum eða setja rætur sínar í sérstöðu. Þar sem kynþáttafordómar, aðskilnaðarstefna eða þrældómur eiga sér stað munt þú einnig finna þessháttar orðræðu.” Til stuðnings vísa ég í dæmi frá Zizek þar sem orðræða menningarfjölhyggju var notuð til að réttlæta aðskilnaðarstefnu í Suður Afríku, en varðveisla einstakrar menningar svarta fólksins var gefin sem ástæða fyrir áframhaldandi aðskilnaði.
Að vera mennsk
Eins og við sjáum með núverandi stríði í Evrópu, ógna átök á grundvelli uppruna tilvist okkar allra. Mögulega hefur Zizek rétt fyrir sér þegar hann fullyrðir að óaðfinnanleg gildi — eins og hugsjónir Upplýsingarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag — eru bestar til þess fallnar að mynda nýtt hugtak um hið algilda.
Sumir vilja halda því fram að hugsjónir Upplýsingarstefnunnar varði einungis Evrópska menningu, en hver er ástæðan fyrir því að talið er að frelsi, jafnrétti og bræðralag voru uppgötvuð í Evrópu? Það eru fordómar í sjálfu sér ef litið er á áhrifin sem Nýi heimurinn hafði á evrópska umræðu á sínum tíma í aðdraganda Upplýsingunni. (Sjá nánar um áhrif utan-Evrópumenningar á Upplýsinguna í bók David Graeber og David Wengrow The Dawn of Humanity.)
Hvað varðar algildi frelsis, jafnréttis og bræðralags bendir Zizek á að haítíska byltingin var byggð á hugsjónum Upplýsingarinnar, en í henni var barist fyrir frelsi plantekruþræla og kröfu þeirra til sjálfsákvörðunar. Byltingin leiddi loks til stofnunar svarta lýðveldisins Haítí og er því dæmi um að hugsjónir Upplýsingarinnar hafa frelsandi möguleika utan Evrópu.
Annars vegar er mögulegt að óaðfinnanleg gildiséu okkar besta tól til að varðveita það sem einstakt er í okkur öllum, en ákallið til að snúa sér að rótum skapar hinsvegar greiða leið til frekari upprætinga þar sem fleiri lífsviðurværi á heimsvísu verða þurrkuð út sökum hnattræns fjármagns.
Ég hef persónulega lítil not fyrir hugtakið rætur enda hef ég dvalið í þremur ólíkum löndum í þremur heimsálfum, tala þrjú tungumál og hef ekki neina afmarkaða hugmynd hvað varðar eigin sjálfsmynd. Ég er samruni margra sjálfsmyndaþátta, blanda af smáatriðum, sem í heild veita mér skilning á því hvað er að vera mennskur.