Kartöflur! Kartöflur! Kartöflur!

Kartöflur. Kartöflur? Já, kartöflur. Vera má að þú, kæri lesandi, hafir veigrað þér við að lesa þessa grein vegna umfjöllunarefnisins. Það væru aftur á móti stór mistök. Kartöflur eru nefnilega frábær fyrirbæri. Það er hægt að sjóða þær, stappa eða jafnvel henda þeim í kássu. Hér á landi eru mest ræktaðar fjórar tegundir kartaflna, Gullauga, Premiere, Helga og rauðar.En úti í hinum stóra heimi eru hundruð, ef ekki þúsundir, kartöflutegunda. Fyrir áhugasöm fylgja hér á eftir nokkrar tegundir sem áhugavert væri að prófa, með soðinu eða öðru.

Mynd: highmowingseeds.com

Adirondack Bláar

Adirondack bláar er fyrsta kartöflutegundin í stafrófinu og var fyrst ræktuð af vísindafólki við Cornell-háskóla árið 2003. Adirondack bláar er ljósfjólubláar á litinn en hvítar í miðjunni. Þær fjölga sér ört og vaxa hratt en eru einnig veikar fyrir ýmiskonar sjúkdómum og sveppum sem leggjast á kartöflur. Þess vegna er mælt með því að borða þær hratt eða matreiða svo þær endist sem lengst, til dæmis sem kartöfluflögur. Næst á eftir Adirondack bláum í stafrófinu eru Adirondack rauðar.

Mynd: peipotato.org

Kartöflur Eyju Játvarðar prins

Eins og nafnið gefur til kynna eru kartöflur Eyju Játvarðar prins frá Eyju Játvarðar prins í Kanada. Eyja Játvarðar prins þykir henta sérlega vel til kartöfluræktunar, en ríflega tíu hundraðshlutar vergrar landsframleiðslu fylkisins koma frá kartöfluræktun. Kartöflur Eyju Játvarðar prins mynda svo stóran hluta þeirrar framleiðslu að til er sérstök stofnun sem heldur utan um framleiðslu og sölu þeirra, The Prince Edward Island Potato Board. Sú stofnun sér einnig um að úthluta úrvals útsæði til bænda sem standa sig vel. Vel má vera að þú, kæri lesandi, hafir einhvern tímann smakkað kartöflu Eyju Játvarðar prins þar sem ríflega helmingur framleiðslunnar fer í kartöfluflagna- og fransknagerð, til dæmis hjá McCain og Frito-Lay.

Mynd: wikipedia.org

Blá Kongó

Blá Kongó, einnig kallaðar Kongo, Idaho Bláar eða Blá sænsk, eru ílangar og djúpfjólubláar kartöflur sem eru mjög líkar Salat bláum. Helst er mælst til þess að Blá Kongó-kartöflur séu soðnar þar sem þær eru mjölmeiri en flestar aðrar kartöflutegundir en þær eru einnig ágætis fæða ef þær eru bakaðar eða djúpsteiktar. Uppruni kartaflnanna er ekki þekktur en tegundin var kosin Kartafla Þýskalands árið 2006 og þykja þær sérstakt lostæti í Finnlandi. Þverskurði kartöflunnar hefur verið lýst sem „sláandi“ af Patch Seed Potatoes, breskum kartöflusala.

Mynd: wikipedia.org

Ch‘uñu

Ch‘uñu er kartöfluafurð frá Suður-Ameríku og er helst framleidd í Bólivíu og Perú. Til þess að framleiða Ch‘uñu er smælkishlassi dreift á jörðina og kartöflurnar tæmdar af vatni með því að leyfa þeim að sitja úti í frosti nokkrar nætur í röð. Þannig má frostþurrka kartöflurnar. Því næst er restinni af vatninu í kartöflunum þrýst út með því að traðka, eða dansa, á þeim. Þannig er hýðið einnig fjarlægt. Ch‘uñu er til í tveimur týpum, svartri og hvítri, en sú svarta er búin til með því að sólþurrka kartöflurnar eftir að traðkað hefur verið á þeim. Hvíta týpan er búin til með því að láta kartöflurnar liggja í bleyti í nokkra daga og sólþurrka þær síðan.

Mynd: patchseedpotatoes.co.uk

Hjaltlandseyja svartar

Hjaltlandseyja svartar eru dökkfjólubláar að utan en gullnar að innan. Þær rekja uppruna sinn til Hjaltlandseyja á Viktoríutímanum og þykja henta vel til ræktunar þar sem pláss er lítið. Stilkur plöntunnar getur teygt sig allt að því 2,5 metra upp í loftið en hnýðin sjálf eru minni en flestra annarra tegunda. Í gegnum tíðina hefur tegundin verið matreidd á ýmsa vegu en nú til dags er algengast að hún sé djúpsteikt sem franskar í hinum klassíska breska rétti „fiskur og franskar“.

Mynd: bbcgoodfood.com

Trufflur

Trufflur eru vissulega ekki kartöflutegund en fá að sitja á þessu lista orðsifjanna vegna. Truffla og kartafla eru nefnilega sama orðið. Orðin eru bæði komin úr ítölsku (tartufolo) og bárust inn í íslensku á 18. öld í gegnum þýsku (kartoffel, tartuffel) og dönsku (kartoffel). Sameiginlegt heiti þeirra er tilkomið vegna útlitslegra líkinda. 

Nú þegar þú, kæri lesandi, hefur fræðst um allar þessar dýrindis kartöflur mæli ég með því að þú farir og borðir kartöflur. Þær eru nefnilega svo góðar fyrir sálina, í hóflegum skömmtum að minnsta kosti.