Framtíðarforkólfar: Hljómsveitir ungs fólks

Ungt fólk er til alls líklegt. Það gæti boðið sig fram á þing, flutt til Hveragerðis eða jafnvel stofnað hljómsveit. Það er nefnilega þannig að það sem ungt fólk gerir skiptir máli og hefur áhrif á samfélagið allt. Við getum haft áhrif, hvert á sinn hátt. Ef ekki væri fyrir ungt fólk væri engin endurnýjun í listgreinum og því vil ég kynna fyrir ykkur nokkrar hljómsveitir sem hafa verið að gera það gott. Þær koma úr öllum áttum og kenna sig við fjöldann allan af tónlistarstefnum en eiga það sameiginlegt að hafa verið myndaðar af metnaðarfullu ungu fólki.

Mynd: Ástarpungarnir

Ástarpungarnir

Ástarpungarnir voru stofnaðir í kringum þátttöku Menntaskólans á Tröllaskaga í Söngkeppni framhaldsskólanna 2020 en þá voru meðlimir fjórir: Hörður, Júlíus, Mikael og Tryggvi. Eftir frækilegan sigur í keppninni gengu Guðmann og Rodrigo til liðs við sveitina og var hún þá fullskipuð. Hljómsveitin sérhæfir sig í böllum, dansleikjum og þess háttar skemmtunum og flytur þar jafnan ábreiður en hún hefur einnig gefið út tvö lög, Aleinn á nýársdag og Komdu með að dansa. Bæði lögin eiga tvímælalaust heima á stemningsspilunarlistum enda varla hægt að hlusta á þau án þess að dilla sér með. Ábreiður sveitarinnar einkennast af rokkaðri framvindu og brasilísku hljómfalli og er trommaranum, Rodrigo dos Santos Lopes, fyrir það að þakka. Ástarpungarnir stefna að því að halda áfram á sömu braut og gefa út enn fleiri lög.

Meðlimir:

Guðmann Sveinsson - Gítar og söngur

Hörður Ingi Kristjánsson - Hljómborð og söngur

Júlíus Þorvaldsson - Gítar, hljómborð og söngur

Mikael Sigurðsson - Bassi

Rodrigo dos Santos Lopes - Trommur

Tryggvi Þorvaldsson - Söngur og gítar



Inspector Spacetime

Í hugum flestra markaði vorið 2020 upphaf tveggja erfiðra ára Covid-faraldurs, efnahagsþrenginga og almennra leiðinda í samkomubanni. Þó kviknaði á sama tíma vonarglæta: Inspector Spacetime reis hátt á stjörnuhimininn þegar fyrsta lag þeirra, Hvað sem er, kom úr sumarið 2020. Síðan þá hafa þau spilað úti um allt, að eigin sögn, og það þrátt fyrir að hljómsveitin hafi verið stofnuð daginn áður en fyrsta samkomubannið var sett. Hljómfall laganna er mjög hressandi en sjálf mæla þau sérstaklega með lögunum Dansa og Bánsa, Bára og Hvað sem er, sannkölluðum dúndursmellum að mati höfundar. Samkvæmt hefðbundnum flokkum tónlistarstefna myndi tónlist þeirra líklega flokkast sem rafpopp en þau flakka mikið milli stefna með það að markmiði að koma fólki á hreyfingu. Hljómsveitin hlaut Kraumsverðlaunin og Artist of the Year hjá Reykjavík Grapevine í fyrra en þau setja markið hátt og stefna á að troða upp á hálfleikssýningu Ofurskálarinnar (e. Superbowl Halftime Show) innan fárra ára.

Meðlimir:

Egill Gauti Sigurjónsson - „Producer“ og lagahöfundur

Elías Geir Óskarsson - „Singer lady“ og lagahöfundur

Vaka Agnarsdóttir - „Singer man“ og lagahöfundur

 

Mynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Piparkorn

Piparkorn er ein af þessum hljómsveitum sem semur tónlist sem passar við öll tækifæri. Hljómsveitin kennir sig við djass og fönk en hefur einnig samið djassskotna popptónlist, jafnan á íslensku. Samstarfið hófst í Listaskóla Mosfellsbæjar árið 2015 og tók á sig skýrari mynd næstu árin. Árið 2020 gaf Piparkorn út sína fyrstu plötu, sem bar nafnið Kryddlögur, og sigraði Lagasmíðakeppni MÍT og FÍH. Höfundur þessarar greinar, sem jafnan var skipuleggjandi keppninnar, getur vottað fyrir faglega og orkumikla framkomu sveitarinnar og mælir hiklaust með því að lesendur sjái hljómsveitina „live“. Í framhaldi af því gekk söngkonan Emma Eyþórsdóttir til liðs við sveitina og leysti Maríu Gyðu Pétursdóttur af hólmi ásamt því sem bassaleikarinn Viktor Veigarsson og trompetleikarinn Sigurrós Jóhannesdóttir léðu hljómsveitinni hæfileika sína. Árið 2021 varði Piparkorn titilinn í Lagasmíðakeppni MÍT og FÍH og var auk þess kosin Hljómsveit fólksins á Músíktilraunum. Þessa dagana vinnur sveitin í sinni annarri plötu, og stefnt er að útgáfu síðar á árinu, en spilar einnig reglulega á hinum ýmsu tónleikastöðum í miðbænum. Piparkorn hefur mikinn metnað fyrir áframhaldandi tónlistarsmíðum og vísar áhugasömum á samfélagsmiðla sína, @piparkornmusic (Instagram) og Piparkorn (Facebook).

Meðlimir:

Emma Eyþórsdóttir - Söngur

Magnús Þór Sveinsson - Hljómborð

Gunnar Hinrik Hafsteinsson - Gítar

Sigurrós  Jóhannesdóttir - Trompet og söngur

Ragnar Már Jónsson - Tenór saxófónn

Viktor Veigarsson - Bassi

Þorsteinn Jónsson - Trommur

 

Mynd: Tær

Tær

Tær þróaðist út úr samstarfi hljómsveitarmeðlima í húsbandi Menntaskólans við Hamrahlíð og MH-kórnum en frumkvæðið átti Arvid Ísleifur. Upprunalegt markmið var að taka þátt í Músíktilraunum 2020 en svo fór að þær féllu niður vegna Covid-faraldursins. Því tóku hljómsveitarmeðlimirnir ár í að semja og sníða tónlist sem kom síðan út á fyrstu EP-plötu þeirra, Hreiður, sumarið 2021. Á henni eru, meðal annarra, lögin Hvert sem ég fer, Mistur og Geng.

Tónlist hljómsveitarinnar fellur undir indí og kántrí en sökum hljóðfæraskipaninnar mætti jafnvel kalla stíllinn kammerpopp. Stefnan er sett á fjölbreyttari tónlist í nánustu framtíð en næsta plata er í vinnslu með áætlaðan útgáfudag næsta haust. Hafi fólk áhuga á að heyra nýtt efni frá þeim mæla þau með því að mæta á tónleika hjá þeim, sem eru haldnir reglulega á hinum ýmsu stöðum, þar sem þau eiga mikið af óútgefnu eðalefni sem bíður eyrna hlustenda.

Meðlimir:

Arvid Ísleifur - gítar og söngur

Ásgeir Kjartansson - rafgítar

Dagur Bjarnason - kontrabassi og rafbassi

Sigurrós Jóhannesdóttir - flugelhorn, trompet og söngur

Þórarinn Þeyr Rúnarsson - trommur

Mynd: Forsmán

Forsmán

Forsmán er svartmálmssveit sem tók fyrst til starfa vorið 2019 en hefur starfað með núverandi liðsskipan, sem ekki verður afhjúpuð hér, frá hausti 2019. Tónlist sveitarinnar einkennist af hröðum og þungum svartmálmi í bland við melódískt og proggað þungarokk. Forsmán tók til starfa með það að markmiði að færa íslensku svartmálmssenunni nýjan lit en er einnig í góðu sambandi við alþjóðlegu svartmálmssenunna. Fyrsta þröngskífa sveitarinnar, Dönsum í Logans Ljóma, kom út hjá þýska útgáfufyrirtækinu Ván Records síðasta vor og hlaut góð viðbrögð víðs vegar um heiminn. Framtíðaráætlun sveitarinnar er að halda útrásinni áfram og gefa út plötu í fullri lengd sem vonandi hlýtur jafn góða dóma og sú fyrri.

Ólafur Kram

Ólafur Kram, eða Óli eins og vinir hans kalla sveitina, var stofnuð í nóvember 2018. Tónlist sveitarinnar er óreiðukennd og raddbeitingin flæðandi en hljómsveitarmeðlimir hennar vilja ekki kenna sig við einn tónlistarstíl frekar en annan. Popp, pönk, rokk, jazz, diskó og margt fleira heyrist allt í bland í lögum þeirra. Þau taka sig ekki of alvarlega heldur má finna húmor og/eða kaldhæðni í öllu sem þau gera og þá sérstaklega í textagerðinni. Húmorinn og lífsgleðin sjást vel í lögum eins og Ómægad ég elska þig, Fjárhagslegt öryggi, og Horgemlingur, auk annarra, en von er á nýrri breiðskífu síðsumars eða snemma næsta haust. Á sínum þremur lífsárum hefur Óli komið, séð og sigrað á Músíktilraunum og hlotið verðlaun fyrir textagerð á sömu keppni. Annars hefur sveitin helst komið fram fyrir grasrótina. Helstu markmið sveitarinnar eru að fá „spons” frá Dominos og 105 koffínvatni en einungis tíminn mun leiða í ljós hvort það tekst.

Mynd: Rakel Ýr Stefánsdóttir

Meðlimir:

 Birgitta Björg Guðmarsdóttir - Trompet og söngur

Guðný Margrét Eyjólfs - Bassi og söngur

Eydís Egilsdóttir Kvaran - Gítar og söngur

Iðunn Gígja Kristjánsdóttir - Hljómborð og söngur

Sævar Andri Sigurðarson - Slagverk