Jafnrétti og háskólasamfélagið
Í byrjun þessa skólaárs var sjötta jafnréttisáætlun Háskóla Íslands samþykkt af háskólaráði. Sú fyrsta var samþykkt árið 2000, en jafnréttismál hafa orðið æ veigameiri hluti af stefnu Háskóla Íslands á undanförnum árum. Jafnrétti hefur þó verið í umræðunni innan háskólasamfélagsins mun lengur, en áherslur þessa regnhlífarhugtaks, „jafnréttis“, eru í dag talsvert frábrugðnar því sem var þegar háskólinn opnaði dyr sínar árið 1911. Þá þegar var að hefjast undanfari byltingar í jafnréttismálum á Íslandi - því sama ár og skólinn hóf starfsemi sína var fest í lög að konum skyldi veittur óheftur aðgangur að æðri menntun. Þrátt fyrir það voru konur sáralítill hluti af háskólanemum fyrstu áratugi skólans, eða um 5% árið 1931, sem má líklega rekja til þess að fæstar konur höfðu lokið stúdentsprófi þegar þessum lögum var breytt.
Jafnrétti óháð kyni
Aðsókn kvenna að háskólanámi óx þó hægt en stöðugt, og árið 1975 varð sprenging í fjölda kvenkyns stúdenta við Háskóla Íslands þegar hlutfall kvenna fjölgaði úr 24,5% upp í 38,5% af heildarfjölda háskólanema. Þessa aukningu má skýra með því umróti sem átti sér stað í íslensku samfélagi á þeim tíma, en þar má til dæmis nefna stóraukna umræðu um jafnrétti kynjanna og menntun kvenna, nýju kvennahreyfinguna sem var að líta dagsins ljós og allsherjarverkfall íslenskra kvenna þann 24. október 1975, Kvennafrídaginn. Árið 1976 voru fyrstu jafnréttislög Íslands sett, en þau voru samin í þeim tilgangi að stuðla að jöfnum rétti karla og kvenna. Áratug síðar var framkvæmdaáætlun lögð fram á Alþingi um aðgerðir í þágu jafnréttis kynjanna, og jafnréttismál - sem þá einkenndust af baráttunni fyrir jöfnum tækifærum óháð kyni - urðu sífellt stærri hluti af samfélagsumræðunni sem og umræðunni innan stjórnsýslu háskólans.
Innan veggja Háskóla Íslands hafði aðsókn kvenna að æðri menntun stóraukist, en árið 1987 tóku konur fram úr körlum hvað varðar hlutfall háskólanema við Háskóla Íslands og hafa verið í meirihluta nemenda æ síðan. Hins vegar fjölgaði konum í stjórnunarstöðum og stöðum prófessora, lektora og dósenta ekki jafn hratt. Árið 1994 var gerð könnun á starfsaðstæðum og kjörum starfsmanna Háskóla Íslands, sem leiddi í ljós umtalsverðan mun á aðstöðu og kjörum karla og kvenna við Háskóla Íslands. Launamunur reyndist töluverður með tilliti til vinnutíma og starfsaldurs, og prófgráður virtust nýtast körlum betur en konum. Í kjölfar þessara niðurstaðna var jafnréttisnefnd háskólaráðs komið á fót árið 1997. Hún hófst þegar handa við að leggja drög að fyrstu jafnréttisstefnu Háskólans og beita sér í því að brúa bilið á milli réttinda karla og kvenna við nám og störf innan háskólans. Síðan fyrsta áætlunin kom út árið 2000 hefur umræðan, samfélagið og sjálf skilgreining jafnréttis til náms tekið hröðum breytingum.
Alþjóðanemar og háskólinn
Það eru fleiri minnihlutahópar en konur sem hafa stundað nám við Háskóla Íslands frá stofnun hans. Suma þeirra er hægt að koma auga á með því að rýna í Árbækur Háskóla Íslands, en ef flett er í gegnum fyrri hluta síðustu aldar er hægt að reka augun í nöfn örfárra alþjóðanema. Erlendum nemum fjölgaði úr örfáum upp í rúmlega 500 manns í kringum aldamótin, en í dag stunda um 1.500 alþjóðanemar frá meira en 100 löndum nám við skólann. Alþjóðanemar hafa lengi haft orð á því að háskólinn sé að miklu leyti tvískiptur og að háskólasamfélagið og námið sé eingöngu sniðið að íslenskum nemum. Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs árið 2020 lýsti því til að mynda hvernig grunnnám í sálfræði gerði lítið til að koma til móts við þá nema sem ekki hafa full völd á akademískri íslensku. Það er undir hverri deild fyrir sig komið hvort alþjóðanemar fái aðgang að orðabókum í prófum, prófspurningum á ensku eða lengri próftíma. Ljóst er því að styðja þarf mun betur við alþjóðanema og leitast við að sameina háskólasamfélagið í eina heild. Ný jafnréttisáætlun tekur mið af þessum hópi nemenda, meðal annars með því að leggja áherslu á mentorakerfi alþjóðasviðs, þar sem erlendir nemar geta sótt um íslenskan mentor til þess að fá aðstoð við að aðlagast háskólanum og til að hafa aukið aðgengi að upplýsingum. Auk þess er liður í áætluninni er varðar námsmat á ensku.
Nútímakröfur um jafnrétti
Nú hafa tveir minnihlutahópar verið nefndir í umræðunni um jafnrétti, en síðan eru fleiri hópar sem ekki eru til nein gögn um og hafa ekki haft sama aðgang að háskólanámi í gegnum tíðina. Það þarf ekki að gera annað en að virða fyrir sér aðalbyggingu háskólans til þess að verða ljóst að ekki var gert ráð fyrir að hreyfihamlað fólk kæmist þar ferða sinna. Sömu sögu er að segja um fleiri byggingar háskólans, jafnvel þær nýrri - til dæmis má nefna stofur í Veröld, húsi Vigdísar, sem aðgengilegar eru nemendum, en ekki fyrirlesurum í hjólastól. Þó við séum komin mun lengra en við vorum árið 1940, þegar aðalbygging Háskóla Íslands var tekin í notkun, er staðan enn sú að margar byggingar háskólans eru ekki aðgengilegar öllum. Málefni fatlaðs fólks hafa setið á hakanum allt of lengi, en íslensk stjórnvöld eiga til að mynda eftir að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var undirritaður árið 2007 og fullgiltur árið 2016. Með nýrria jafnréttisáætlun Háskóla Íslands hefur Háskólinn einsett sér að bæta aðgengi í og á milli bygginga og gera aðgengisúttektir á öllum byggingum skólans. Auk þess vinnur framkvæmda- og tæknisvið að því að betrumbæta aðgengisskrá á heimasíðu skólans svo hægt sé að nálgast nákvæmar upplýsingar (í formi mynda, hljóðs og texta) um aðgengi hverrar byggingar fyrir sig.
Að lokum er vert að nefna að í nútímaumræðu um jafnrétti kynjanna verður að gera ráð fyrir því fólki sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar, og aðlaga jafnréttisáætlun háskólans að þeirri samfélagsbreytingu. Hluti af nýjustu jafnréttisáætlun háskólans er meðal annars að aðstoða kennara við að tileinka sér kynjaðan fjölbreytileika nútímasamfélags, fjölga kynlausum klósettum við skólann og uppfæra tölfræði háskólans svo hún taki mið af því að kynin séu fleiri en tvö. Nú þegar hefur kerfi háskólans verið uppfært svo hægt sé að skrá kyn sitt sem kynsegin eða annað en karlkyns eða kvenkyns.
Aðgerðir í þágu jafnréttis innan stjórnsýslu háskólans, sem lengi vel snerust aðallega um jafnan rétt karla og kvenna til æðri menntunar, eru því að breytast og þróast í takt við samfélagslegar breytingar. Það er stórt og mikið verkefni að koma til móts við þann fjölbreytta nemendahóp sem sækir nám við Háskóla Íslands, en jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2021-2023 er sannarlega skref í rétta átt.
Heimildir
[1] Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands. (2004). Staða og þróun jafnréttismála 1997-2002. https://www.hi.is/sites/default/files/atli/baeklingar/jafnretti/stada_og_throun_jafnrettismala_1997-2002.pdf
[2] Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands. (2021). Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2021-2023. https://www.hi.is/sites/default/files/sveinng/jafnrettisaaetlun_haskola_islands_-_loka.21.6.21.pdf
[3] Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands. (2018). Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020. https://www.hi.is/sites/default/files/atli/pdf/kynningar/baeklingar/jafnrettisaaetlun_hi_2018-2020.pdf
[4] Háskóli Íslands. (2021). Fjöldi erlendra nemenda frá árinu 2001. https://www.hi.is/sites/default/files/sverrirg/erlendir_nemendur_fra_2001.xlsx
[5] Stjórnartillaga: fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nr. 1637/145. https://www.althingi.is/altext/145/s/1637.html