Fram á við eftir heimsfaraldur

Mynd: Mercedes Mehling

Hið fjölmenna og fjölbreytta háskólasamfélag hefur verið með gjörbreyttu sniði síðustu tvö árin. Fjöldatakmarkanir og heimsfaraldur ollu því að háskólasamfélagið, kennarar jafnt sem nemendur, þurftu að hafa hraðar hendur við að aðlaga námið að síbreytilegum og ófyrirsjáanlegum aðstæðum. Nú í lok faraldurs er lykilatriði að líta til baka á það sem þessar óvenjulegu kringumstæður kenndu okkur, viðhalda þeirri þekkingu sem varð til og gera betur til að stuðla að jafnrétti í námi og starfi.

STAFRÆNIR KENNSLUHÆTTIR 

Háskóli Íslands er staðnámsskóli og hefur verið lengur að taka við sér en aðrir háskólar landsins hvað varðar stafræna kennsluhætti. Þeir kennsluhættir voru brýn nauðsyn á meðan samkomubann ríkti, en nú þegar hlutirnir eru að komast í samt horf er mikilvægt að viðhalda og þróa þá kunnáttu sem fékkst af illri nauðsyn. Upptaka fyrirlestra er ákvörðun hvers kennara fyrir sig, en gagnast svo mörgum nemendum af ólíkum ástæðum - fyrir nemendur með athyglisbrest getur verið afar gagnlegt að rifja upp fyrirlesturinn í hljóði og mynd. Fyrir foreldra í námi geta aðstæður verið alls konar og sveigjanleikinn sem felst í aðgengi að upptökum getur skipt sköpum. Fyrir langveika eða ónæmisbælda nemendur, fyrir nemendur sem eiga erfitt með að komast í tímann í raunheimum vegna ófullnægjandi aðgengis… og svo mætti áfram telja. 

Í lögum um háskóla stendur: "Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi."

Til þess að miðlun þekkingar og færni á háskólastigi sé ekki bundin aðstæðum hvers og eins, er mikilvægt að leggja áherslu á rafrænt aðgengi að námsefni. Með því tryggjum við að háskólanám sé aðgengilegt og að tillit sé tekið til þess að nemendur eru alls konar. Samkvæmt nýrri stefnu Háskólans til ársins 2026, HÍ26, er ætlun háskólans að þróa heildstæðar námsleiðir í fjarnámi á hverju ári, sem er mikilvægt skref í rétta átt, en verkefni til lengri tíma séð ætti að vera að allt nám í Háskóla Íslands sé aðgengilegt öllum hópum samfélagsins. 

GEÐHEILBRIGÐISMÁL

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands býður upp á sálfræðiþjónustu fyrir nemendur þeim að kostnaðarlausu. Það er til fyrirmyndar af hálfu háskólans að bjóða upp á gjaldfrjálsa sálfræðitíma, en eins og staðan er í dag eru einungis fjórir starfandi sálfræðingar í háskólanum, sem eiga að anna eftirspurn meira en fimmtán þúsund nemenda. Biðlistar eru langir og oft er margra vikna, jafnvel mánaða, bið eftir þjónustunni. Tímabilið sem við erum að sigla út úr einkenndist af miklum kvíða og álagi fyrir stóran hóp nemenda, og sýndi okkur að betur má ef duga skal hvað varðar þau geðheilbrigðisúrræði sem eru í boði fyrir stúdenta. Nú er einmitt tíminn til þess að leggja áherslu á að hlúa að andlegri heilsu nemenda og starfsfólks háskólans í lok heimsfaraldurs, með því að auka geðheilbrigðisúrræði innan háskólasamfélagsins, sem og að fjölga sálfræðingum sem starfa við skólann. Nánari upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði er að finna á heimasíðu háskólans, hi.is,  undir Nám → Stuðningur → Náms- og starfsráðgjöf. Við vekjum einnig athygli á því að hægt er að nýta sér þjónustu meistaranema í klínískri sálfræði, en verð fyrir hvern tíma er 1.500 kr.

Sálfræðingar HÍ: salfraedingar@hi.is

Sálfræðiþjónusta meistaranema: Aðgengileg á heimasíðu háskólans, hi.is, undir Háskólinn → Heilbrigðisvísindasvið → Sálfræðideild → Sálfræðiráðgjöf háskólanema

HINSEGINMÁL OG JAFNRÉTTISSTEFNA HÁSKÓLANS

Í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2021 - 2023 er lögð áhersla á að jafnréttisstarf Háskóla Íslands taki mið af breytingum í íslensku samfélagi. Þar að auki kemur fram að starf háskólasamfélagsins í tengslum við aukna fjölbreytni sé mikilvægur liður í þróun lýðræðissamfélags og að mikilvægt sé að háskólinn sé frumkvöðull í þeirri vinnu, meðal annars með því að leitast við að hafa sem fjölbreyttastan hóp starfsfólks og nemenda. 

Ein háværasta krafa frá nemendum háskólans þetta skólaárið hefur verið aukin hinsegin fræðsla og aukin réttindi kynsegin fólks, til dæmis kynhlutlaus baðherbergi í byggingum háskólans. Þessari kröfu hefur hingað til ekki verið mætt, þó hún sé ekki flókin í framkvæmd og þessi litla breyting myndi auka lífsgæði kynsegin nemenda og starfsfólks til muna, auk þess sem kallað hefur verið eftir kynlausum klósettum í töluverðan tíma, án árangurs. Háskólinn verður að gera betur í samtali sínu við nemendur skólans, sérstaklega þegar yfirlýst stefna skólans er að stuðla að fjölbreytni. 

Til þess að koma til móts við hinsegin nemendur og hlúa að fyrrnefndri fjölbreytni, er mikilvægt að regluleg, fagleg fræðsla í hinsegin málum sé kynnt til leiks, þá sérstaklega hvað varðar kennara og starfsfólk í valdastöðu. Menntavísindasvið er án efa leiðandi í aukinni hinseginfræðslu innan veggja háskólans, en árið 2021 undirrituðu Menntavísindasvið og Samtökin ‘78 samstarfssamning til þess að stuðla að aukinni fræðslu og ráðgjöf innan sviðsins tengt kynja-, jafnréttis- og hinseginfræðum. Í samningnum, sem gerður er til þriggja ára, er einnig innifalinn árlegur samráðsfundur með kennurum fagstétta og fræðsla fyrir grunnnema sviðsins um kyntjáningu, -hneigð, -einkenni og kynvitund. Næsta skref er að hin sviðin fjögur fylgi fast á eftir og að jafnréttismál verði sett á oddinn. 

Við viljum vekja athygli á því að hægt er að leita til jafnréttisnefndar Stúdentaráðs eða tveggja jafnréttisfulltrúa HÍ með öll mál er varða jafnrétti. Einnig er hægt að leita til hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs á þriðju hæð Háskólatorgs. Við bendum einnig á að leita til Q-félagsins, félags hinsegin stúdenta, hvað varðar hinsegin málefni.

Jafnréttisnefnd SHÍ: jafnrettisnefndshi@gmail.com

Jafnréttisfulltrúar Háskóla Íslands: jafnretti@hi.is 

Hagsmunafulltrúi SHÍ: hagsmunashi@hi.is 

Q-félagið: queer@queer.is