Uppskriftahorn: Allt á pönnu

Mynd: Snædís Björnsdóttir

Þrátt fyrir að vera meðvituð um slæmar afleiðingar matarsóunar, fyrir jörðina sem og fyrir veskið, getur verið erfitt að nýta allan matinn úr ísskápnum. Hvað getum við gert þegar við reynumst aðeins of metnaðarfull í matarinnkaupunum eða eigum erfiða viku og gleymum að borða? Eða þegar við erum of sjaldan heima til að geta eldað? Eða þegar við vitum einfaldlega ekki hvað við eigum að búa til? Við hjá Stúdentablaðinu þekkjum allar þessar raunir vel og höfum því tekið saman nokkur ráð og eina uppskrift sem hjálpa til að nýta grænmeti sem komið er á síðasta séns. 

  • Leitaðu að réttum uppskriftum: Ef okkur langar að nýta afganga og grænmeti er gott að leita að uppskriftum út frá því sem við eigum nú þegar, í staðinn fyrir að fletta upp rétti og kaupa allt í hann. 

  • Sjóðið úr afskorningum: Í staðinn fyrir að henda því sem við skerum burt af grænmetinu okkar, er hægt að geyma það í frysti og búa til grænmetissoð sem nýtist sósur og súpur. Hýði og stilkar eru gríðarlega næringarrík og því synd að missa af þeim steinefnum. 

  • Geymið rétt: Ef grænmeti og ávextir eru geymdir á réttan hátt er hægt að framlengja líftíma þeirra til muna, til eru ótal leiðbeiningar á netinu um það. 

  • Nýtið gamla tómata: Þegar tómatarnir verða mjúkir er fullkomið að nýta þá í pönnu- eða ofnrétti, búa til súpu eða jafnvel bruschettu. 

  • Frystið ferskar jurtir: Við eigum það mörg til að kaupa ferskar jurtir, nota smá og fylgjast svo með þeim rotna í ísskápnum. Sniðug leið til að geyma þær er að skera niður og frysta. 

  • Varðveitið  grænmeti: Til að framlengja líftímann getum við súrsað, þurrkað eða fryst grænmetið okkar og þannig notið þess mun lengur. 

  • Búið til ídýfur: Oft eiga dósir af baunum til að safnast saman í dökkum skúmaskotum skápanna og gleymast. Góð leið til að nýta þær er að búa til ídýfur, eins konar hummus. Þá er gott að sjóða baunirnar í 3 mínútur og skella svo í ískalt vatn til að stöðva eldunartímann. Þar næst eru þær settar í blandara með smá salti og olíu. Við mælum líka með því að prófa sig áfram með kryddum og öðru grænmeti, eins og rauðrófum eða sólþurrkuðum tómötum. 

Allt á pönnu

Þessa uppskrift er hægt að grípa í þegar matargerðin þarf að vera einföld, fljótleg og ef ekki er mikið til nema gamalt grænmeti. Það er líka mjög auðvelt er að breyta henni og bæta við eftir því sem til er. 

Það þarf ekki að notast við nákvæmar mælingar. Best er að fara eftir eigin höfði en þessi uppskrift gerir ráð fyrir tveimur fullorðnum. 

Hráefni: 

Mynd: Snædís Björnsdóttir

  • 7-10 litlar kartöflur

  • 5 stórar gulrætur 

  • Lúka af sveppum

  • Nokkrir tómatar

  • Hálf agúrka 

  • Pasta að eigin vali

  • Salt, pipar og reykt paprika 

  • Dressing og skraut að eigin vali


Aðferð: 

  1. Skerið allt grænmetið á meðan vatn er soðið fyrir pasta. Gott er að skera kartöflurnar og gulræturnar (það er hægt að bæta við hvaða rótargrænmeti sem er) í litla bita svo þær steikist hraðar.

  2. Sjóðið pasta fyrir tvo, þó með það í huga að það verður ansi mikið af mettandi rótargrænmeti í réttinum. 

  3. Á meðan pastað sýður, steikið rótargrænmetið upp úr feiti að eigin vali, olíu og eða smjörlíki, og kryddið með salti, pipar og reyktri papriku eftir smekk. 

  4. Þegar rótargrænmetið er orðið mjúkt má bæta við sveppunum á pönnuna og smá kryddi og feiti. 

  5. Þegar pastað er tilbúið og grænmetið orðið stökkt má fara að setja á diska. 

    1. Á hvern disk er sett pasta, pönnusteikt grænmeti, agúrkur og tómatar og öllu blandað saman.

    2. Setjið yfir einhvers konar dressingu, það fer eftir því hvað er til á heimilinu en núna notuðum við balsamik edik. 

    3. Að lokum er hægt að bæta við smá bragðbættu skrauti, þá t.d. rifnum osti, hnetum eða fræjum. 

  6. Njótið!