Heilsumannfræði
Mannfræði er fræðigrein sem rannsakar mannlega hegðun og menningu. Greinin skiptist svo gróflega í félagslega mannfræði annars vegar og líffræðilega mannfræði hins vegar .
Heilsumannfræði er eitt sérsviða innan mannfræði, en þetta svið rannsakar heilsu út frá mannfræðilegu sjónarhorni, það er út frá mannlegri hegðun. Hún skoðar meðal annars líkamlega-, umhverfistengda og menningarlega þætti, með öðrum orðum félagslíf og stéttaskiptingu og áhrif þeirra á líðan fólks og þá sömuleiðis hvernig fólk skynjar heilsu sína og annarra á mismunandi hátt eftir stöðum og samfélagsgerð. Í öllum samfélögum má finna eitthvað ákveðið heilsu- eða lækniskerfi sem hefur það hlutverk að útskýra sjúkdóma, sjúkdómsgreiningar, meðferðarúrræði og viðhorf gagnvart heilsu. Heilsumannfræði skoðar hin fyrrnefndu kerfi og þá kannski sérstaklega samskipti lækna og sjúklinga. Samspil lækniskerfisins, hvernig fólk glímir við heilsukerfið, viðhorfs fólks gagnvart sinni heilsu, og hvernig fólk skynjar heilsu og sjúkdóma eru mikilvæg sjónarhorn innan heilsumannfræði.
Rannsakar áhrif Covid-19 á börn og ungmenni á Íslandi
Eva Hrönn Árelíusd. Jörgensen er doktorsnemi í mannfræði við HÍ. Doktorsrannsókn hennar fjallar um áhrif Covid-19 á börn og ungmenni á Íslandi, bæði þau áhrif sem faraldurinn hefur haft hingað til og hver líkleg áframhaldandi áhrif verði á þennan hóp. Þar sem rannsókn Evu er enn í gangi er ekki hægt að alhæfa neitt um niðurstöður hennar en það má segja með fullri vissu að faraldurinn hefur haft áhrif á geðheilsu og geðheilbrigði hópsins sem og allra aldurshópa. Eva segist hafa tekið eftir því að viðmælendur hennar hafi endurmetið á einhvern hátt sambönd og samskipti á þannig að þau hafi valið hvaða vinasambönd og samskipti þau vildu halda í frekar en önnur. Þar að auki hafi hópurinn gefið sér tíma til þess að vera skapandi, og leitað að félagsskap á netinu út frá áhugamálum sínum. Rannsóknin hefur gefið góða mynd af því hvaða leiðir þessi hópur hefur farið til þess að gera það besta úr hlutunum. Eva hefur tekið sérstaklega eftir hversu mikla þrautseigju má finna innan hópsins.
Í doktorsnáminu hefur hún verið að skrifa grein um stöðu barna í Covid-19 með teymi barnalækna á vegum The International Society for Social Pediatrics & Child Health (ISSOP). Sú samvinna er eitt dæmi um hvernig læknisfræði og heilsumannfræði tengjast, heilsumannfræðingar og læknar gera rannsóknir saman. Í slíkum rannsóknum einblína heilsumannfræðingar á vísindin á bakvið hið félagslega innan lýðheilsu en læknarnir horfa á læknavísindin.
Vettvangsrannsóknir og etnógrafíur
Eftir vettvangsrannsóknir mannfræðinga eru niðurstöður þeirra skrifaðar upp í etnógrafíur. Etnógrafía samanstendur af vettvangslýsingum og niðurstöðum mannfræðirannsókna. Nokkrar etnógrafíur út frá sjónarhorni heilsumannfræði sem Eva mælir með fyrir áhugasama eru The Private Worlds of Dying Children og In the Shadow of Illness eftir Myra Bluebond-Langner, The Illness Narratives eftir Arthur Kleinman og The Body Multiple eftir Annemarie Mol.
The Private Worlds of Dying Children fjallar um börn með krabbamein og þá félagslegu- og menningarlegu þætti sem spila inn í samskipti barnanna, foreldra þeirra og heilbrigðisstarfsfólks og hvernig þessir hópar geta rætt saman um dauðann sem er yfirvofandi. In The Shadow of Illness eftir sama höfund er skoðar börn með langvinna sjúkdóma, fjölskyldur þeirra og þá hvaða áhrif veikindin hafa á systkini í sömu fjölskyldu. Í The Illness Narratives skrifar Arthur Kleinman um það hvernig einstaklingur er skilgreindur sem sjúklingur innan læknakerfisins og svo á hinn bóginn hvernig einstaklingurinn sjálfur skilgreinir sig sem sjúkling. Í bókinni segir Kleinman frá því hversu mikilvægt það er að meðhöndla veikindi ekki bara út frá líffræðilegum þáttum heldur mannlegum líka. The Body Multiple eftir Annemarie Mol skoðar hún hvernig vestræn læknisfræði fjallar um líkamann og sjúkdóma, og samspil læknisfræði og meðferðarúrræða, þ.e. hvernig ákveðnar skoðanir innan læknisfræðinnar gera það að verkum að einhver ákveðinn sjúkdómur er meðhöndlaður á einn hátt en ekki annan.
Heilsumannfræði nær yfir stórt svið og margar fleiri rannsóknir eru til um efnið. Heilsumannfræði teygir anga sína til hefðbundinna lækninga, óhefðbundinna lækninga og allt þar á milli og eins og áður hefur komið fram skoðar hún í stuttu máli samskipti lækna og sjúklinga, og hvernig fólk skynjar sína eigin heilsu.