Uppáhalds Hámumatur: Réttindaskrifstofa SHÍ situr fyrir svörum

Myndir: Sara Þöll Finnbogadóttir

Á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs starfa fjórir kjörnir fulltrúar og þrír faglega ráðnir starfsmenn við að berjast fyrir réttindum stúdenta (og ritstýra handa þeim æðislegum blöðum). Við eyðum öll miklum tíma á háskólasvæðinu en skrifstofan er staðsett beint fyrir ofan Bóksöluna. Það gefur því auga leið að við erum meðal hollustu viðskiptavina Hámu og höfum marga fjöruna sopið í neyslu þess fjölbreytta úrvals sem hún býður upp á. Hér má lesa um það sem stendur upp úr hjá okkur.

Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs

Í morgunmat fæ ég mér oftast hafragrautinn. Hann er hollur og seðjandi og í rauninni frábær leið til að byrja langan dag af hagsmunabaráttu. Með honum drekk ég kaffi, og finnst ægilega gott að tríta mig með cappuccino úr vélinni í Hámu. Ég er mikið fyrir fisk, enda alin upp á Vestfjörðum og verð því alltaf spennt þegar bleikjan eða laxinn er á matseðlinum og hlakka til hádegisverðarins. Þetta á líka við um paprikusúpuna.

Karitas M. Bjarkadóttir, ritstýra Stúdentablaðsins

Frá því að ég hóf nám við háskólann hef ég vanið mig á að byrja daginn á rúnstykki með osti úr Hámu og boozti eða flösku af Froosh. Ég er soddan gikkur og þessi morgunmatur ber þess merki. En rúnstykkin eru alltaf mjúk og nóg af smjöri á þeim, auk þess sem þetta endist mér út daginn. Í hádegismat fæ ég mér oftast þann grænmetisrétt sem er á boðstólum hverju sinni, en ég verð samt alltaf extra svöng á föstudögum þegar það er píta, pulled oumph borgari eða slíkt. Eða þegar það er sveppasúpa.

Vaka Lind Birkisdóttir, framkvæmdastýra

Ég byrja daginn á hafragraut með smá kanilsykri, eða græna booztinu frá Hámu. Hafragrauturinn fer vel með meltinguna og er próteinríkur en græni booztinn er það besta sem ég fæ, ég væri mjög til í uppskriftina því mér hefur ekki tekist að gera hann sjálf. Ég er afar hrifin af fiskinum í hádeginu, sérstaklega með kartöflum, salati og smá sósu, en annars er ég líka dugleg að fara á salatbarinn þegar þannig liggur á mér. Ég er hins vegar alltaf til í góða blómkálssúpu eða sterka og góða súpu fyrir hálsinn og svo er alltaf gott að fá kaffi yfir daginn og eina fílakaramellu með.

Sara Þöll Finnbogadóttir, varaforseti Stúdentaráðs

Það er mikilvægt að borða góðan morgunmat til að byrja daginn vel og ég er komin með skothelda uppskrift til að fá það mesta út úr grænmetisrúnstykkjunum í Hámu með því að bæta á þau eggjum sem ég kaupi sér. Með því þamba ég rauða booztinn og er þá orðin full af orku og tilbúin í verkefni dagsins. Ég kætist alltaf þegar ég sé að tómatsúpan er í pottinum í hádeginu en hún er með því besta sem ég fæ.


Alma Ágústsdóttir, alþjóðafulltrúi

Ég er fyllilega á þeirri skoðun að morgunmatur sé bara matur og það sé enginn matur frekar en annar sem á að borða fyrst á daginn. Ekki það að ég borða oftast fyrstu máltíð dagsins í hádeginu. Ég er mjög hrifin af salatbarnum, og stunda hann grimmt. Oft fæ ég mér líka eina af þeim fjölmörgu vegan-samlokum sem eru í boði í Hámu en ég sé þó mikið eftir soya ciabatta samlokunni, og þetta er formleg beiðni um að hún verði aftur sett á boðstóla.

Jessý Jónsdóttir, hagsmunafulltrúi

Ég er ekki mikið fyrir morgunmat, venjulega fæ ég mér bara kaffi, en ef ég borða yfir höfuð er það rúnstykki með osti og gúrku úr Hámu og rauður Collab. Þetta er góð leið til að byrja daginn, orkumikið og ég get farið hress og kát í hagsmunagæslu hvers dags. Í hádeginu finnst mér æðislega gott að fá mér eina af tveimur súpum dagsins. Ég er mikil áhugakona um súpu almennt, mér finnst sveppasúpa geggjuð og ef ég elda sjálf verður súpa líka oft fyrir valinu.

Vífill Harðarson, lánasjóðsfulltrúi

Ég borða oftast ekki fyrr en eftir klukkan tíu, ég er frekar lystarlaus rétt eftir að ég vakna. Flatkaka með osti verður þó mjög oft fyrir valinu sem fyrsti maturinn sem ég læt ofan í mig með koffíni af hvaða toga sem er, kaffi, hvítum Monster eða Nocco, það sem hendi er næst. Ég geri mér sérstaka ferð í Hámu þó ég sé ekki á háskólasvæðinu þegar Þakkargjörðarmaturinn er, sem er það besta sem ég fæ. Þetta er orðin hefð hjá mér og ég veit nákvæmlega við hverju ég á að búast, þetta klikkar aldrei og ég geng sáttur frá borði.