Spyrðu hagsmunafulltrúa SHÍ: Jessý Jónsdóttir svarar spurningum stúdenta

Mynd: Sara Þöll Finnbogadóttir

Hagsmunafulltrúi SHÍ er kjörinn á skiptafundi Stúdentaráðs. Hagsmunafulltrúi er stúdentum innan handar og stendur vörð um hagsmuni og málstað stúdenta við skólann. 

Hvenær byrjaðir þú að brenna fyrir hagsmunamálum?

Ég sat í nemendaráði í grunnskóla og lét til mín taka þar og lagði þar með grunninn að mínum hagsmunabaráttu-ferli, ef svo má að orði komast! Í háskólanum tók ég fyrst þátt í hagsmunabaráttu stúdenta árið 2018 og sat svo í Stúdentaráði og sviðsráði. Ég var líka virk í nemendafélaginu mínu og fólst í því viss hagsmunagæsla, t.d. að sitja námsbrautarfundi og láta mig námið varða almennt. Ég hef alltaf verið gagnrýnin á umhverfi mitt og látið í mér heyra þegar ég kem auga á eitthvað sem ég tel misrétti. 

Kennarinn minn hefur ekki skilað af sér einkunn á réttum tíma. Hvað geri ég?

Þá geturðu sent póst á kennara námskeiðsins og vitnað í 60. gr. reglna háskólans, „Prófverkefni og mat úrlausna“ en þar stendur skýrt: „Einkunnir skulu birtar í síðasta lagi tveimur vikum eftir hvert próf, en þremur vikum eftir hvert próf á próftímabili í desember“. 

Hvað finnst þér skemmtilegast í starfinu? En leiðinlegast?

Mér finnst langskemmtilegast að aðstoða stúdenta við að leita réttar síns og finna flöt á málum þeirra í samvinnu við kennara, deildir eða svið. Oft nægir að senda póst og inna eftir svörum og gera grein fyrir málstað stúdentsins sem á í hlut - mín upplifun er sú að flestir kennarar vilja finna málum góðan farveg og vilja gera vel. Mér finnst líka ótrúlega skemmtilegt að finna fyrir trausti til mín og hef líka gaman af því að kynnast fólkinu sem á í hlut og leysa úr málunum saman. Mér finnst í raun blessunarlega ekkert leiðinlegt við starfið en það getur verið erfitt að greiða úr aðstæðum sem eru einstakar eða persónulegar og þegar mikið er í húfi fyrir stúdentinn. Þá er auðvitað mikið undir og oft þarf að hafa hraðar hendur, en til þess er ég hér! Ekkert mál er of lítið til að leita til mín með, og ekkert mál of stórt til að leysa úr. 

Ég er ósátt með einkunn. Getur þú hjálpað með það?

Hér langar mig líka að benda á reglur skólans, en t.d. er hægt að óska eftir óháðum prófdómara (sjá grein nr. 59) ef stúdent hefur fallið á prófi og jafnframt, skv. sömu grein, á stúdent ávallt rétt á „mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar“. Ef stúdent þykir á sér brotið er hægt að skjóta málinu formlega til deildarforseta og við tekur þá formlegt ferli sem m.a. getur falið í sér að háskólaráð taki málið fyrir. Flest mál er þó hægt að leysa án þess að fara með þau þangað, en það er ekkert mál að gera svo ef til þess kemur!

HáskólinnRitstjórn