Forréttindi og Geðheilsa: Eitrað Samband
Þýðing: Þórunn Halldórsdóttir
Það þarf ekki mikla rannsóknarvinnu til að komast að því að við lifum í heimi sem er frekar þunglyndur. Þegar þú kynnist þeim aðeins betur mun talsvert af einstaklingum segja þér að þeir þjáist af kvíða, þunglyndi, depurð eða neikvæðum tilfinningum. Margir hafa tilhneigingu til að leita sér aðstoðar hjá fagfólki, eða hafa verið greindir með eina af milljónum geðrænna-, sálrænna- eða persónuleikaraskana sem hafa slæm áhrif á líf þeirra. Af hverju ætli það sé?
Ég hef velt vöngum yfir þessu og, að erfðafræði undanskilinni, hafa þær allar með forréttindi að gera. Góðu fréttirnar eru þær að vegna þess að við höfum meiri vitund um geðheilbrigði og fleiri tæki til að takast betur á við þennan þátt í lífi okkar en áður, eru fleiri einstaklingar farnir að tjá hvernig þeim líður í raun og veru. Í stað þess að byrgja inni tilfinningar sínar, eins og mörg okkar höfum séð foreldra okkar, afa og ömmur gera. Þetta er hluti af þeim forréttindum sem við búum við í dag, sem ég tel að séu sannarlega mikilvæg og ættu að halda áfram að þróast.
Hins vegar, og hér kemur myrkari hluti forréttinda sem fáum finnst gaman að ræða. Fyrsti þátturinn í því er ekki undir okkar yfirráðum, og það er neyslumenning nútímans. Kynslóð okkar hefur meiri frítíma, fjármagn og aðgang að efni en nokkur önnur á undan okkur (að minnsta kosti í svokölluðum „fyrsta heims löndum“). Þetta hefur þróað gríðarstórt neytendaviðhorf sem líklega er upprunnið frá „ameríska draumnum“ og hélt áfram að vaxa þar til það gleypti flesta þætti í lífi okkar.
En hvað hefur þetta með geðheilsu að gera? Meira en man gæti haldið…
Í bók sinni Liquid Love (2003) fjallar félagsfræðingurinn og heimspekingurinn Zygmunt Bauman um hvernig nútíma ástarsambönd hafa áhrif á þessa tegund hugarfars. Kenning hans er í grundvallaratriðum sú að vegna þess að við höfum svo greiðan aðgang að nýjum maka (í gegnum smáforrit) og/eða ótakmarkaðan aðgang að kynferðislegum fantasíum (til dæmis klámi), þá leitar fólk alltaf að einhverju „nýju“ og „spennandi“ í stað þess að vinna í sambandinu sem þeir eru kannski þegar í. Eftir að hveitibrauðsdögunum er lokið og ferskleiki sambandsins er horfinn, ákveða margir að leita að næstu spennu í stað þess að reyna að varðveita það sem þeir hafa þegar.
Ofangreindar aðgerðir gera fólk oft einmana. Það er kaldhæðnislegt að þegar þú hefur svo mikinn aðgang að margvíslegum mökum geturðu auðveldlega hoppað frá einni manneskju til annarrar og endað með því að upplifa þig einsamari en nokkru sinni fyrr. Þess vegna leiða þessi forréttindi til að velja, til einmana fólks sem veit oft ekki hvernig á að komast í gegn um rómantískt samband þegar hlutirnir verða svolítið erfiðir.
Þar að auki höfum við ótakmarkaðan aðgang að klámi, stefnumótahermum og alls kyns fantasíum. Þetta leiðir oft til þess að fólk einangrar sig frá umheiminum og endar í sinni eigin andlegu búbblu.
Ég tel að svona viðhorf séu líka til utan sambanda. Hið hraðvirka samfélag í bland við myndir fullkomnunar sem við sjáum endalaust á netinu, veldur því að mörgum líður eins og þau séu ófullnægð, misskilin og að þeim leiðist. Fyrir hverja félagslega eða andlega þörf sem við höfum getum við bara snúið okkur að snjallsímunum okkar til að leysa það og forðast félagsleg samskipti. Viltu rífast um eitthvað? Í stað þess að finna fólk sem þú getur rætt við um efnið sem þú vilt rífast, geturðu bara gert það á Twitter. Viltu monta þig af fríinu þínu? Þú þarft ekki raunverulega vini lengur, þú getur bara gert það á Instagram. Viltu uppfylla kynferðislega löngun? Engin þörf á að finna fúsan félaga, þú getur bara farið á netið.
Við tökum á þörfum okkar með auðveldum skyndilausnum, fjarri „hinum“ á eigin svæði í þægindum heimilisins. Við þurfum heldur ekki að rífast við neinn vegna þess að við höfum byggt upp sérstaka litla búbblu í öllum miðlum okkar sem inniheldur aðeins það efni sem við erum sammála og þess vegna þarftu í rauninni ekki að reyna að mynda tengsl við fólk sem þú gætir verið örlítið ósammála. Önnur útrás fyrir þá sem elska að rökræða er að hafa miðlana fulla af „skopmyndum“ af fólki sem þeir eru ósammála, það er að segja, róttækt fólk sem er ekki góður málsvari fyrir meðalmanneskju, og rökræðir við það í stað raunverulegs fólks í kringum sig.
Allt þetta elur af sér samfélag geðsjúkdóma. Af þeirri einföldu ástæðu að fólk er einmana og óttast að tala við annað fólk. Við erum orðin mjög viðkvæm fyrir gagnrýni og á sama tíma mjög óörugg því við erum ekki „nógu góð“ miðað við þær fullkomnu myndir sem við sjáum á netinu. Síðast en ekki síst erum við svo vön að fá það sem við viljum eins fljótt og auðið er að við erum búin að missa þolinmæðina. Þess vegna er ég ekki hissa á því að við erum þunglyndari en nokkru sinni fyrr.
Á hinn bóginn, er þetta virkilega svona slæmt? Ég held ekki. Vegna allra þessara forréttinda getur fólk í fyrsta sinn í sögunni verið viðkvæmt. Ég trúi því að við getum notað alla þessa tækni og undur sem mannsheilinn skapar, okkur í hag. Í stað þess að einangra okkur getum við notað allt ofangreint til að tengjast fólki og hjálpa því að verða næmara, sem mun líklega leiða til betra og skilningsríkara samfélags.
Ég trúi því að við getum gert það. Það mun hins vegar krefjast heiðarlegrar glöggvunar á það sem við erum að gera rangt, þolinmæði og vilja til að tengjast í gegnum árekstra við aðra. Það er kominn tími til að við hættum að fela okkur á bak við samfélagsmiðlagerðu búbbluna okkar og förum að takast á við fólkið í kringum okkur.