Meðganga og fæðing

Grafík: Sóley Ylja A. Bartsch

Þýðing: Þórunn Halldórsdóttir

Þegar ég var unglingur man ég eftir að hafa sagt vinum mínum að einn daginn myndi ég eignast stóra fjölskyldu. Núna, eftir að hafa eignast tvö börn, get ég sagt með fullri vissu að fjölskyldan er orðin alveg nógu stór. Ekki vegna þess að mér líki illa við börn, heldur vegna áhrifanna sem það að eiga börn hefur haft á mig. Blákaldur sannleikurinn er nefnilega sá að ég var alls ekki búin undir þær breytingar sem það að verða barnshafandi, vera barnshafandi, fæða og ná mér eftir fæðingu áttu eftir að hafa í för með sér. Mig langar til að deila reynslu minni af þessum breytingum og þeim mörgu nýju hlutum sem ég hef lært hingað til á þessari vegferð.

Fyrir þungun

Ófrjósemi er eitthvað sem ég hafði ekki einu sinni velt fyrir mér áður en ég fór að reyna að eignast mitt fyrsta barn snemma á þrítugsaldri. Mánuðirnir liðu með hverju neikvæðu óléttuprófinu á eftir öðru. Í skólanum, í herferðum gegn unglingaþungun, hafði okkur alltaf verið kennt að þunganir gætu átt sér stað frá fyrsta skiptinu sem óvarið kynlíf er stundað. Þetta var endurtekið svo oft að staðreyndin var orðin rótgróin í huga mér. Óvarið kynlíf leiðir til tafarlausrar þungunar. Það var hvorki neitt í námi okkar í skólanum né heima sem leiddi líkum að því að hið gagnstæða gæti nokkurn tímann reynst satt. Ég bókaði svo tíma hjá lækni á heilsugæslustöðinni minni eftir að hafa gert það eðlilegasta, en að sama skapi órökréttasta, í stöðunni, leita til Google vegna ótta míns um að vera ófrjósöm. Eftir nokkuð langt samtal við lækninn man ég bara eitt, að það getur tekið meira en heilt ár fyrir heilbrigt par að geta barn og að það sé fullkomlega eðlilegt. Ég var fegin að fá þessa fullvissu frá henni og eftir nokkrar blóðprufur og ráðleggingar um vítamín sendi hún mig heim. Niðurstöður blóðprufanna voru góðar og ég virtist ekki vera með nein undirliggjandi heilsufarsvandamál. Læknirinn sendi mig svo til kvensjúkdómalæknis í ómskoðun af grindarholi, sem kom líka vel út. Ég átta mig á því núna, eftir tvær meðgöngur, að ég vissi ekkert um líkamann minn þá. Ég vissi ekkert um egglos eða tíðahringinn minn. Spurningar um væntanlegar barneignir frá nærumhverfi mínu urðu til þess að ég fann fyrir þrýstingi til þess að verða ólétt. Þessar gríðarlega dimmu og skaðlegu hugsanir stafa af áralöngum kerfisbundnum þrýstingi sem settur er á konur og gefur þeim þau skilaboð að þeim megi bara líða eins og þær séu heilar (e. complete) ef þær eru mæður. Það hefur reynst mér mikil ánægja að aflæra þessar hugmyndir og mér fannst þungu fargi af mér létt þegar ég var að reyna að eignast mitt annað barn. Það var samspil réttra vítamína og þess að vita hvenær egglos átti sér stað sem hjálpaði mér mikið að verða barnshafandi í fyrsta skiptið. Ég er ekki að segja að þetta sé svona auðvelt fyrir öll og ég geri mér fullkomlega grein fyrir því hvað ég var heppin að eiga ekki í neinum raunverulegum erfiðleikum með að eignast barn.

Meðganga

Þannig tókst mér að komast yfir fyrstu hindrun þessa ferðalags. Fyrstu mánuðirnir voru erfiðir, en ég var loksins orðin ólétt. Meðganga er upplifun sem er ekki af þessum heimi. Hún er lærdómsrík, gefandi og einstaklega taugatrekkjandi. Þetta var parturinn sem ég vissi hvað mest um fyrirfram. Ég hafði lesið mér mikið til um hvernig það er að vera ólétt. Ég var því mjög undrandi á því að ég upplifði enga morgunógleði. Ég var líka mjög hissa á því að matarlystin sama og hvarf og ég lifði á seríósi, kjúklinganöggum og karamellu poppkorni. Ég lærði það fljótt að það að missa þvag væri eðlilegt og að grátur, sökum hækkaðs magns hormóna, væri eitthvað sem við þurfum bara að lifa með. Ómskoðunum fylgdu alltaf blendnar tilfinningar. Kvíðinn í mér blossaði upp í kringum skoðanirnar og mínir eigin sjálfsefar hjálpuðu ekki í þessum kringumstæðum. Það var alltaf möguleiki á harmþrungnum fregnum. Aftur á móti voru hjúkrunarfræðingarnir indælustu og hjartahlýjustu konur sem ég hef á ævinni kynnst. Þær byrjuðu aldrei á því að spyrja mig spurninga. Þess í stað báðu þær mig um að leggjast niður og innan nokkurra mínútna fengum við að heyra hjartslátt. Feginleiki streymdi í gegnum mig og kvíðinn seytlaði í burtu með hverjum slætti hjartans sem ég heyrði.

Fæðing

Bæði börnin mín eru fædd á 36. viku meðgöngu, bókstaflega örfáum dögum eftir að ég hafði pakkað niður í spítalatöskurnar í bæði skiptin. Eins sársaukalausar og auðveldar og meðgöngurnar höfðu verið, voru hríðirnar erfiðar. Ég var með hríðir í 27 klukkutíma með fyrra barn. Ég hafði enga hugmynd um hvers ég mætti vænta. Á viku 36 klukkan fjögur á miðvikudagsmorgni í október fann ég fyrir þörf til að fara á klósettið. Þörfin kom aftur um hálftíma síðar. Þarna var ég, á klósettinu á 30 mínútna fresti í tvo klukkutíma. Um sexleytið datt mér í hug að þetta væru kannski samdrættir. Klukkan átta voru tíu mínútur á milli samdrátta. Ég hringdi í sjúkrahúsið og lét þau vita að ég væri komin með samdrætti og fyrst ég var ekki fullgengin buðu þau mér að koma í skoðun. Til að gera langa sögu stutta þá komu samdrættirnir á fjögurra mínútna fresti í tólf tíma þangað til ég var komin í fulla fæðingu næsta dag, í kringum hádegi á fimmtudegi. Eins langar og hríðirnar voru virtist tíminn fljúga frá okkur í fæðingunni og allt í einu hélt ég á þessari litlu manneskju.

Lærðar lexíur

Þessi fyrsta upplifun reyndist ákveðinr lexía og gaf mér ýmsar hugmyndir um hvernig ég vildi gera hlutina öðruvísi í næsta skipti. Þessar hugmyndir held ég að séu frábærar fyrir verðandi mæður að hafa í huga.

  • Það fyrsta sem ég gerði öðruvísi í annað sinn var að taka með mér mjög ítarlegt fæðingarplan.

  • Önnur lexían var að fá einhvern til að aðstoða mig á baðherberginu eftir að hafa fætt. Í fyrra skiptið leið yfir mig og hakan á mér skall í vaskinn, algjörlega ónauðsynleg meiðsli eftir að veranýbúin að fæða barn.

  • Það er fullkomlega í lagi að gera svæðið sem þér er úthlutað eftir fæðingu aðeins heimilislegra. Til dæmis með því að taka með hluti að heiman eins og myndir eða teppi sem sefa þig og róa.

  • Reyndu að vera miklum tíma með barninu þar sem líkamleg sterting á sér stað. Þetta styrkir tengsl foreldris og barns.

Mig langar að enda á því að tala um batatímabilið eftir fæðingu. Reynsla mín af meðgöngu og fæðingu er persónuleg. Að meðaltali fæðast 250 börn á hverri mínútu. Hver einasti einstaklingur á sína eigin upplifun af fæðingunni. Aftur á móti held ég að við getum öll verið sammála um það að foreldrar sem hafa nýlega gengið í gegnum það líkamlega áfall sem það er að fæða þurfi á hvíld og bata að halda. Þau þurfa að eyða tíma með nýfæddu barni sínu til að mynda sterkt og heilbrigt samband við það. Þau þurfa tilfinningalegan og andlegan stuðning. Það er mikilvægt að verja tíma í að elska þig sjálft á batatímabilinu, sem getur enst eins lengi og þú þarft á að halda. Njóttu fyrstu mánaðanna með barninu þínu, því tíminn líður hratt.

SjónarmiðMahdya Malik