Lærum að lesa

Grafík: Sóley Ylja A. Bartsch

Sem barn las ég hverja bókinna á fætur annarri en eftir því sem árin liðu tók lífið yfir. Mér gafst lítill tími til þess að njóta lestrarins og smám saman hætti ég alfarið að lesa mér til skemmtunar. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að taka mig saman í andlitinu og finna ánægjuna í lestrinum á ný. Það reyndist hins vegar erfiðara en ég gerði mér grein fyrir. Athyglisgáfa mín var ekki upp á sitt besta og ég hafði lítið þol til að sitja við bók til lengri tíma. Ég fór þess vegna í hálfgert lestrarátak og setti mér ákveðnar reglur og markmið varðandi lesturinn. Þetta leiddi til þess að ég náði mér á strik í lestrinum og á aðeins tveimur árum fór ég úr því að lesa engar bækur á ári upp í nokkra tugi bóka. Hér deili ég með lesendum Stúdentablaðsins þeim ráðum sem komu mér af stað í lestrinum.

Töluleg markmið

Það getur reynst erfitt að byrja að lesa aftur eftir langt tímabil af litlum sem engum lestri. Þá tel ég fátt mikilvægara en að taka lítil skref í upphafi. Þetta á sérstaklega við þegar markmið eru sett. Raunhæf markmið eru betri en háleit markmið. Hafið í huga að það er mun betra að ná markmiði snemma og fara fram úr væntingum en að eiga tíu bækur eftir þegar jólafríið skellur á í desember. 

Hliðarmarkmið 

Markmið sem hægt er að mæla í tölum eru mjög aðgengileg og geta hvatt okkur til dáða. Hins vegar hefur líka reynst mér vel að hafa eins konar hliðarmarkmið í lestrinum. Það gæti þá til dæmis verið að lesa allar bækur sem ákveðinn höfundur hefur gefið út, klára heila bókaseríu eða læra eins mikið og hægt er um ákveðið efni. Þetta þarf ekki að vera heilagt en það að hafa ramma utan um lestrarátakið getur hjálpað þegar erfitt reynist að halda áfram. Ég hef persónulega eytt mörgum klukkustundum í að ráfa stefnulaust um á bókasafninu því ég hef svo mikinn valkvíða. Hliðarmarkmið hafa þá gjarnan skorið niður magn valmöguleika og það hefur ávallt verið mér kærkomið.

Þolæfingar

Lestur snýst fyrst og fremst um þol. Það er ekki sjálfsagt að geta setið klukkutímum saman og blaðað í bók ef þið hafið ekki gert það í mörg ár. Því er mikilvægt að æfa athyglina smátt og smátt. Setjið ykkur lítil vikuleg eða dagleg markmið. Prófið að lesa í að minnsta kosti tíu mínútur á hverju kvöldi fyrsta mánuðinn og athugið hvort þið finnið mun á athyglisgáfunni þegar hann er liðinn. Þá mæli ég einnig með því að lesa stuttar bækur í byrjun. Ekki byrja á að lesa 500+ blaðsíðna doðrant sem var skrifaður á 18. öld ef þið eruð að byrja að lesa aftur eftir lesstíflu. Það boðar fátt annað en vonbrigði.

Lesið skemmtilegar bækur

Það sem er þó mikilvægara en lengd bókarinnar er innihaldið. Þegar þið eruð að byrja að lesa aftur drepur ekkert áhugann og athyglina frekar en að pína sig í gegnum óspennandi bók. Finnið það sem virkar fyrir ykkur. Kannski eru það glæpasögur, rómantískar gamanbókmenntir eða ævisögur? Verið einnig óhrædd við að iðka 50 blaðsíðna regluna: ef bókin er ekki búin að fanga ykkur á fyrstu 50 síðunum þá er í góðu lagi að skila henni og ná sér í nýja bók. Þið skuldið engum að klára bók ef þið viljið það ekki.

Finnið vin

Það er mjög sniðugt að eignast bókavin. Þið þurfið ekki að lesa nákvæmlega sömu bækur á nákvæmlega sama tíma en það er mjög gaman að geta heyrt í einhverjum af og til sem þið getið spjallað við um hitt og þetta tengt bókum. Lestur getur verið  mjög einrænt og persónulegt áhugamál en hann þarf ekki að vera það. Einnig eru til ýmislegir bókaklúbbar sem hægt er að taka þátt í. Kíkið á næsta bókasafn eða fylgist með á Facebook, þið gætuð rekist á skemmtilegan hóp af bókaáhugafólki. 

Prófið að hlusta

Sumar bækur eru torlesnar og þá getur verið sérstaklega erfitt að halda þræði. Mín reynsla er sú að þetta eigi sérstaklega við um klassískar bækur og bókmenntir. Það sem hefur reynst mér vel er að hlusta á slíkar bækur, ýmist meðan ég les eða ekki. Ef þið hafið bjástrað við ákveðna bók lengi og viljið gjarnan klára hana þá gæti þetta hjálpað ykkur. Það að hlusta á bók er jafn mikils virði og að lesa hana, ekki telja ykkur trú um annað.

Bókasöfn

Að lokum vil ég taka smá pláss til að dásama bókasöfn. Þau eru frábær. Þau kosta lítið sem ekki neitt á ári og veita ykkur aðgang að fjöldan allan af allskonar bókum. Auk þess bjóða flest söfn upp á fjölbreytta og skemmtilega viðburði og þjónustu. Ég uppgötvaði það til dæmis á liðnu ári að safnið í mínu nágrenni býður upp á að fá lánuð bökunarform og saumavélar. Ég hvet ykkur innilega til að kynna ykkur þjónustuna á ykkar safni. Þá tek ég fram að bókasafnskort í einu safni á höfuðborgarsvæðinu gildir á öllum öðrum söfnum. Hugsið ykkur allar bækurnar sem bíða ykkar. Nú er um að gera að drífa sig af stað á næsta safn og ná sér í góða bók.