Kennir læknanemum bókmenntafræði: Guðrún Steinþórsdóttir ræðir um vensl bókmennta og læknavísinda

Mynd: Guðrún Steinþórsdóttir

Geta læknar nýtt sér bókmenntafræði í starfi sínu? Guðrún Steinþórsdóttir, nýdoktor í bókmenntum, hefur undanfarin misseri kennt læknanemum að nota bókmenntafræði í samskiptum sínum við skjólstæðinga. Doktorsritgerð hennar, Raunveruleiki hugans er ævintýri: Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur kom út á bókarformi hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi fyrir jólin og þar skoðar Guðrún ímyndunarafl persóna, einkaheima, ímyndaða vini, samlíðan og valdabaráttu auk þess sem tilfinningaviðbrögð lesenda eru rannsökuð. Stúdentablaðið settist niður með Guðrúnu til að ræða doktorsritgerðina, kennsluna í læknadeildinni og vensl þessa tveggja greina - bókmenntafræði og læknisfræði -, sem við fyrstu sín virðast kannski ekki augljós.

Afhverju valdirðu þessa nálgun á verk Vigdísar Grímsdóttur?

Í verkum sínum hefur Vigdís lagt sig fram við að rannsaka innaníu persóna sinna, eða hvernig það er að vera manneskja, með því að skoða til dæmis hvernig fólk nýtir ímyndunaraflið og sköpunarhæfnina til að takast á við veruleikann sem það býr í, hvernig það hegðar sér í félagslegum samskiptum og hvort það hafi samlíðan hvert með öðru. Þá hefur hún einnig skrifað mikið um vald og valdaleysi og í því skyni tekið fyrir allskonar forvitnileg sálfræðileg efni. Vegna efnistaka bóka Vigdísar hentaði mjög vel að nýta hugræn fræði í greiningu á þeim. Hugræn fræði er yfirheiti yfir ólíkar fræðigreinar eins og sálfræði, bókmenntafræði og taugafræði sem eiga það sameiginlegt að nýtast til þess að skilja manneskjuna aðeins betur og hvernig hún virkar. Það gagnaðist mér því mjög vel að nýta ýmsar sálfræðilegar kenningar til að rannsaka persónur Vigdísar og skilja betur hugsanir þeirra, ímyndunarafl, gjörðir og líðan. En ég hafði ekki aðeins áhuga á að skoða tilfinningalíf persóna heldur einnig lesenda, hvað gerist þegar við lesum skáldskap, hvaða tilfinningar vakna og hvers vegna; og eins höfum við samlíðan með persónum eða ekki. 

Við lestur gleymum við stundum stað og stund og dettum inn í söguheiminn og samsömum okkur jafnvel persónum þannig að við finnum allt í einu það sama og þær finna; upplifum sem sagt samlíðan með þeim. Við grátum kannski yfir örlögum persóna eða gleðjumst þegar vel gengur. Ég tel að stór hluti lestraránægjunnar sé einmitt þessi hæfni okkar að flytjast inn í ólíka söguheima og finna til samlíðunar með persónum því þegar það gerist njótum við virkilega lestursins. 

Þú hefur verið að kenna þetta svolítið í læknadeildinni, það er kannski ekki það fyrsta sem kemur í huga fólks þegar það hugsar um læknanám að bókmenntafræðingur kenni kúrsa?

Nei, það er einmitt kannski svolítið óvænt. En þegar betur er að gáð eiga bókmenntafræðingar og læknar ýmislegt sameiginlegt. Í báðum tilvikum eru bókmenntafræðingar og læknar að vinna við að greina frásagnir eða túlka orð annarra. Stundum er ekki allt sagt beint út og þá þarf að lesa á milli línanna til að öðlast betri skilning á frásögninni. Eins og bókmenntafræðingar þurfa læknar að vera vakandi fyrir því hvernig einstaklingar tjá sig til dæmis hvernig þeir lýsa verkjum sínum, hvaða líkingar þeir nota og hvað þær merkja og eins hvort þeir noti tiltekin tilfinningaorð sem vert er að staldra við og ræða nánar. Læknar þurfa sem sagt að vera flinkir í að greina undirtexta frásagna sjúklinga sinna og það geta þeir lært til dæmis með því að þjálfa sig í frásagnarfræði. 

Bókmenntalestur getur einnig verið gagnlegur fyrir læknanema því í gegnum lestur skáldskapar er hægt að læra ýmislegt. Þar getum við fengið að lesa um tilfinningalíf persóna og upplifun þess af veruleikanum. Við lestur kynnumst við persónum hraðar en fólki í raunveruleikanum því oft fáum við aðgang að hugsunum þeirra og fáum að vita hvernig þeim líður, hvað þær hugsa og hvernig þær bregðast við í vissum aðstæðum. Í krafti samlíðunar og samsömunar með persónum má líka segja að lesendur fái tækifæri til að lenda í allskonar aðstæðum og takast á við ýmis vandamál en þannig geta þeir sankað að sér ákveðinni reynslu án þess þó að upplifa hana bókstaflega sjálfir. Læknar og læknanemar geta til dæmis lesið skáldskap um hvernig sjúklingar kunna að bregðast við ákveðnum sjúkdómum eða hvernig þeir lýsa sársauka sínum, en þess slags texta hef ég einmitt notað þegar ég kenni læknanemum. 

Í kennslunni hef ég líka fjallað um samlíðan, í hverju hún felst og hvernig hægt sé að sýna hana þannig að skjólstæðingar lækna finni fyrir henni. Staðreyndin er nefnilega sú að læknir getur vel haft samlíðan með sjúklingi án þess að sýna hana. Til þess að sjúklingur finni fyrir samlíðuninni getur læknirinn gert ýmislegt, til dæmis beitt virkri hlustun og leyft sjúklingi að tala án þess að grípa fram í fyrir honum, haldið augnsambandi, spurt spurninga jafnt um veikindin og líf viðkomandi, sýnt umhyggju og notað nákvæmar útskýringar sem eru á mannamáli í stað þess að slá um sig með latneskum fræðiorðum. Þá er líka gott að fela sig ekki á bakvið tölvuna og skrifa niður orð sjúklings á meðan hann talar, eða fara í burtu í miðju samtali og skilja sjúklinginn eftir. Þetta eru atriði sem eru kannski frekar borðleggjandi en geta gleymst í amstri dagsins og því gott að minna læknanema á að hafa þau í huga því allt eru þetta þættir sem auðvelt er að tileinka sér. 

Hvernig taka læknanemar því þegar þeim er sagt: „Hér er kominn bókmenntafræðingur sem ætlar að kenna ykkur að skilja sjúklinga betur“?

Bara ótrúlega vel. Þau hafa alltaf verið rosalega jákvæð. Þetta eru mjög flottir nemendur sem eru  alltaf til í umræður um þá bókmenntatexta og kvikmyndabrot sem ég hef nýtt í kennslunni. Ég held að þeim finnist efnið dálítið gagnlegt. Síðustu ár hef ég kennt með Kristínu Sigurðardóttur slysa- og bráðalækni en það hefur líka verið mjög gott að hafa sjónarhorn hennar - læknisins -  með í bókmenntakennslunni. Annars hafa læknarnir sem kenna í samskiptafræðinámskeiðunum, verið mjög jákvæðir og ánægðir með þessa samvinnu. Nú eru að verða komin tíu ár sem bókmenntafræðingar hafa verið að kenna í læknadeildinni. Það voru frumkvöðlarnir og bókmennta prófessorarnir Ásdís Egilsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir sem byrjuðu að kenna þarna en það var eiginlega bara fyrir tilviljun. Bryndís Benediktsdóttir heimilislæknir, prófessor emeritus og kennari í samskiptafræðinni heyrði viðtal við Ásdísi í útvarpinu þar sem hún var að tala um tengsl bókmennta og læknisfræði. Bryndís hafði verið að nota bókmenntir í sinni kennslu en henni leist svo vel á það sem Ásdís hafði fram að færa að hún hringdi í hana og fékk hana til þess að koma og kenna; það gerði Ásdís og tók Dagnýju með. Þannig hófst þetta góða og frjóa samstarf.

Og þetta hefur gengið núna í áratug?

Já, reyndar eru Ásdís og Dagný komnar á eftirlaun svo ég er eini bókmenntafræðingurinn sem kem að samskiptafræðinámskeiðunum núna. En við höfum ekki bara kennt í læknadeildinni heldur höfum við líka tvisvar sinnum verið með námskeið í Íslensku- og menningardeild um læknahugvísindi en þá með Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur prófessor emeritus í bókmenntum. Bergljót er brautryðjandi í hugrænu fræðunum sem tengjast auðvitað læknhugvísindunum sterkum böndum. Í námskeiðunum okkar höfum við fengið lækna í heimsókn þannig að læknar hafa líka kennt í íslenskudeildinni. Með læknunum höfum við einnig haldið málstofur saman bæði á Hugvísindaþingi og á Læknadögum auk þess sem bókmenntafræðingum hefur verið boðið að tala hjá Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar svo samstarfið á milli þessara fræðasviða hefur verið ansi gott og gjöfult. 

Samlíðan

Guðrún nota orðið „samlíðan“ sem þýðingu á hugtakinu empathy. Það er svolítið misjafnt hvernig fólk þýðir empathy, sum nota orðið „samkennd“ sem ég nota yfir compassion en samlíðan merkir að finna það sem annar finnur. Í stuttu máli merkir samlíðan að við einstaklingur getur áttað sig vitsmunalega á því hvað annar einstaklingur hugsar og finnur um leið til þess sama og hann á ákveðnum tímapunkti. Ef einhver er til dæmis kvíðinn er hægt að skilja líðan hans og jafnvel finna kvíðahnút vaxa í eigin maga en þótt einstaklingur kunni að  upplifa og skilja líðan annars þá gerir hann samt greinarmun á sjálfum sér og hinum því hann áttar sig á að hann hefur yfirfært líðan annars á sjálfan sig. 

Læknahugvísindi

Læknahugvísindi eru þverfagleg en þau  sækja  bæði  til  líf-  og  hugvísinda  til  að  skoða  og  skilja  betur  þætti  sem  snúa að sjúklingum og heilbrigðisstarfsmönnum; til dæmis veikindi, sársauka, lækningar, samlíðan, frásagnir og samskipti; með það að leiðarljósi að skilja manneskjuna betur og  auka  eigin  félagslega  færni.  Það  er  rökrétt  að  þeir  sem  stunda  læknahugvísindi sæki  í  skáldaða  texta  um  sjúklinga,  lækna  og  veikindi  því  þar  er  hægt  að  lesa  um tilbúin samskipti, tilfinningalíðan fólks og upplifun sem jafnan er ekki lögð áhersla á  í  fræðilegum  skrifum  um  sama  efni  innan  læknisfræðinnar.