Hið krefjandi umhverfi gjörgæsluhjúkrunarfræðinga
Síðan heimsfaraldur skall á hafa gjörgæsluhjúkrunarfræðingar og mikilvægi starfs þeirra verið áberandi í samfélagsumræðu Íslendinga. Fólkið sem við köllum hetjur og framlínuverði hefur staðið vaktina í gegnum COVID-19 af mikilli elju, og tekið á móti þungum afleiðingum faraldursins af festu og fagmennsku. Stúdentablaðið ræddi við þrjá starfandi hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut til að fræðast um einstakt starfsumhverfi þeirra og það sem gerir gjörgæsluhjúkrun frábrugðna annars konar hjúkrun.
EÐLI GJÖRGÆSLUHJÚKRUNAR
Regína Böðvarsdóttir er með meistaragráðu í gjörgæsluhjúkrun og 20 ára reynslu á gjörgæsludeild Hringbrautar. Hún lýsir starfinu sem dýnamísku og faglega krefjandi.
„Gjörgæsludeild er þannig að við tökum við öllum aldurshópum frá þriggja mánaða og alveg upp að tíræðisaldri. Til okkar eru sendir allir bráðveikir einstaklingar af öðrum deildum sem og einstaklingar sem hafa undirgengist stórar aðgerðir og þurfa meira eftirlit. Á öðrum deildum er einn hjúkrunarfræðingur oft með marga sjúklinga, en á gjörgæsludeild sinnum við einungis einum sjúkling alla vaktina.“
Sjúklingar á gjörgæsludeild þarfnast stöðugs eftirlits og meiri meðferðar en sjúklingar á öðrum deildum, og ástand þeirra getur breyst hratt. Starf gjörgæsluhjúkrunarfræðinga snýst því um að vakta ástand þessara einstaklinga, sjá hlutina fyrir áður en þeir gerast og veita fyrirbyggjandi meðferð sem krefst mikillar klínískrar þekkingar.
„Ísland er lítið land og ekki mjög sérhæft, svo við tökum á móti öllu mögulegu og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt þrátt fyrir mikla reynslu. Þetta getur verið mjög gefandi starf, en oft verður það mjög erfitt og þá eru vinnufélagarnir til staðar fyrir mann – það er endalaust hægt að leita í viskubrunn annarra. Mér finnst frábært að vera menntuð í að takast á við jafn flæðandi umhverfi [og gjörgæsludeildin er], það veldur því að mér leiðist aldrei í vinnunni. Maður veit aldrei við hverju má búast þegar maður mætir og hefur sífelld tækifæri til að bæta við sig þekkingu.“
STARF SEM ER Í SENN GEFANDI OG KREFJANDI
Anna Halla Birgisdóttir er með meistaragráðu í gjörgæsluhjúkrun og hefur 7 ára reynslu á gjörgæsludeild Hringbrautar. Auk þess hefur hún reynslu af annarri legudeild Landspítalans og sjúkrahúsi á landsbyggðinni.
„Það sem heillar mig við gjörgæsluhjúkrun er að geta einbeitt mér algjörlega að einum sjúkling og aðstandendum hans, að gefa viðkomandi allt sem ég á. Það gæti hljómað auðveldara að vera með einn sjúkling í stað margra, en þessi eini einstaklingur er afar krefjandi og mikið veikur – þú þarft að vera með augun á honum alla vaktina.“
Anna Halla segir lærdómsríkt að setja sig inn í meðferðir sem eru oft mjög flóknar, þar sem eiga þarf í samskiptum við margar sérgreinar í lækningum og taka þátt í teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks þvert á stéttir. Að vissu leyti segir hún þetta gefa meiri yfirsýn í hjúkrun og heildræna sýn yfir sjúklinginn.
„Það geta verið mörg líffærakerfi sem eru í ólagi hjá sjúklingnum, og maður er í raun að leggja upp meðferð þegar margar meðferðir eru að eiga sér stað samtímis – starf gjörgæsluhjúkrunarfræðings felst því að mörgu leyti í því að vega og meta og forgangsraða, og leggja mat á hvað sé mikilvægast núna og hvað geti beðið.“
Aðspurð hvað sé mest krefjandi við starfið segir Anna Halla að oft sé erfitt að takast á við aðstæður þar sem fólki líður ofboðslega illa.
„Við tökum á móti veikasta fólkinu og það er krefjandi að bregðast við og mæta þeirri vanlíðan og þjáningu sem sjúklingar og aðstandendur eru að upplifa. Eins erfitt og þetta starf getur verið er það samt svo gefandi, sérstaklega þegar fyrrum sjúklingar koma í heimsókn á deildina. Það er einstakt að sjá þau komin út í lífið aftur og að finna þakklætið frá þeim og aðstandendum þeirra.“
SJÁLFRÆÐI Í STARFI
Eyrún Catherine Franzdóttir er hjúkrunarfræðingur með 7 ára reynslu á gjörgæsludeild Hringbrautar, fyrst sem hjúkrunarnemi en er nú hjúkrunarfræðingur og vinnur þar samhliða mastersnámi í gjörgæsluhjúkrun við Háskóla Íslands. Hún lýsir gjörgæsluhjúkrun sem einstakri að því leytinu til að hún sé heildrænni en margar aðrar sérgreinar hjúkrunarfræði.
„Við þurfum að kunna á öndunarvélar og alls konar flókin tæki til þess að veita viðeigandi meðferð. Hjúkrunarfræðingar á gjörgæslu ráða miklu og ég finn mikið traust frá starfsfólkinu í kringum mig. Mín hugmynd að meðferð getur verið alveg jafn góð og hugmynd sérfræðilæknis eða hjúkrunarfræðings með meiri reynslu.“
Gjörgæsluhjúkrun er því margþætt og felur í sér tæknilega kunnáttu, forgangsröðun og mikla samskiptahæfni þegar átt er í samskiptum við sjúklinga og aðstandendur í sérstökum og oft erfiðum aðstæðum.
GJÖRGÆSLUHJÚKRUN Á TÍMUM HEIMSFARALDURS
Á tímum COVID-19 faraldurs hefur aukið álag á heilbrigðiskerfið mikið verið rætt. Starfsfólk gjörgæslu er jú ein af þeim starfstéttum sem gjarnan er lýst sem framlínuvörðum, og sér um að veita meðferð við alvarlegum tilfellum kórónuveirunnar. Eyrún segir álagið á deildinni hafa breyst á tímum faraldursins.
„Ég hóf störf sem hjúkrunarfræðingur um einu og hálfu ári fyrir COVID, og tók eftir því að starfið einkenndist meira af hæðum og lægðum, eða ákveðnum álagspunktum áður en faraldurinn skall á. Álagið í COVID hefur verið mun þyngra til lengri tíma séð, fólk er að veikjast lengur og útskrifast af gjörgæslu seinna. Við finnum þetta dálítið, hjúkrunarfræðingarnir, við erum orðin þreytt vegna langvarandi álags.“
Aðspurð hvort henni finnist stjórnvöld hafa gert nóg til að launa gjörgæslustarfsfólki aukið álag í vinnunni segir Eyrún að ýmislegt megi bæta.
„Mér finnst mestu máli skipta að berjast fyrir viðunandi launum hjúkrunarfræðinga almennt. Ég þarf ekki sérstakan hvata eða álagsgreiðslur til að vinna vinnuna mína ef hún er metin að verðleikum til að byrja með. Við höfum öll verið að hlaupa hraðar og leggja meira á okkur í heimsfaraldrinum til að halda hlutunum gangandi, það ætti að launa það jafnóðum með því að mæta okkar launakröfum og greiða okkur í samræmi við það álag sem fylgir þessu starfi, óháð því hvort það sé heimsfaraldur eða ekki.“
Því er ljóst að það góða starf sem er unnið á gjörgæsludeildum mætti gera enn betra með því að auka mönnun til þess að minnka álag, og hækka laun í samræmi við eðli starfsins og þá ábyrgð sem fylgir því. Nefna má að á gjörgæsludeild Hringbrautar eru 10-11 pláss til staðar, en eins og staðan er í dag eru einungis 7 þeirra opin vegna manneklu og skorts á fjármagni.
Það liggur í augum uppi að stjórnmálafólk verður að gera mun betur hvað varðar kjaramál hjúkrunarfræðinga og fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins almennt. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir aukið álag á tímum kórónuveirufaraldursins, eru allir þrír gjörgæsluhjúkrunarfræðingar sammála um að vilja hvergi annarsstaðar vera. Það sem einkennir gjörgæsludeild Hringbrautar og gerir starfið einstakt og spennandi er að þeirra sögn krefjandi aðstæður, öflug teymisvinna, stöðugur vöxtur í starfi og sterk samstaða starfsfólks í síkviku umhverfi.