Dalslaug: Heimsókn í nýjustu sundlaug landsins

Um miðjan desembermánuð síðastliðinn bárust íslenskum sundelskendum gleðifregnir; ný sundlaug hafði verið opnuð í Úlfarsárdal í Reykjavík. Laugin, sem heitir Dalslaug, var formlega vígð með dýfu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, 11. desember og síðan þá hafa þúsundir sótt laugina heim. Fulltrúi Stúdentablaðsins var einn þeirra en með í för var Hekla, níu ára systir hans, sem leggja átti dóm á hvort laugin væri barnvæn. 

  

Heimsóknin

Laugin er talsvert frá miðju höfuðborgarsvæðisins og greinilegt að hverfið er enn í uppbyggingu en eftir að hafa villst og vafrað um stutta stund, fundum við loksins laugina. Systir mín leit á björtu hliðina og sagði: „Það er bara gott, þá verður færra fólk í lauginni og meira pláss fyrir okkur!“ Það var greinilegt að spenningurinn var í hámarki enda ekki oft sem háskólaneminn bróðir hennar hefur heilt kvöld laust til að eyða með henni. Við fundum þó ekki bílastæði við húsið heldur þurftum við að leggja nær æfingasvæði fótboltadeildar Fram (sem stendur ögn neðar í dalnum) og rölta stuttan spöl að lauginni. Úr því varð „ævintýraganga“ sem sló ekkert á spenninginn. Þegar inn er komið, er á hægri hönd svokallað Hunda-borgarbókasafn þar sem hundum og öðrum greinaunnendum býðst að fá lánaðar trjágreinar og annað sprek. Til vinstri er útibú Borgarbókasafnsins sem þjónar einnig hlutverki skólasafns Dalskóla og hefur því gott úrval barna- og ungmennabóka bæði á íslensku og ensku. Bækurnar eru þó ekki einungis í rýminu vinstra megin við innganginn heldur er fjöldi þeirra einnig á neðri hæð hússins, þar sem klefarnir eru. Ég náði ekki nema að líta rétt örsnöggt inn því Hekla var orðin mjög óþreyjufull og hljóp beint í afgreiðslu sundlaugarinnar með mig í eftirdragi. Síðan hljóp hún rakleiðis inn í klefann og hrópaði yfir öxlina á sér: „Sjáumst í innilauginni!“

Mynd: Fengin af Facebook-síðu Birgisson

Laugin

Í ljós kom að innilaugin var grunn laug ætluð bæði til kennslu og fyrir sundgesti. Fyrstu mínútum sundferðarinnar eyddi ég á floti þar sem Hekla var ekki enn komin ofan í. Þegar hún svo loks lét sjá sig tóku við boltaleikir eins og „kast á milli“, grísinn í miðjunni (sem, furðulegt nokk, virkar ekki með einungis tvo þátttakendur) og „kasta boltanum eins fast og ég get í hausinn á stóra bróa“, með tilheyrandi busli, köllum og kaffæringum.

Boltaleikirnir misstu fljótt skemmtanagildið þegar sú yngri fékk boltann sjálf í höfuðið og þá var kominn tími á að prófa útilaugina. Laugin er 25 metra löng og með 6 sundbrautir en þar sem fámennt var, rétt eins og Hekla hafði spáð fyrir um, höfðum við heila braut út af fyrir okkur. Síðari hluta sundferðarinnar var eytt í útilauginni en Hekla var ekki sátt við að engin rennibraut væri á svæðinu. Þó á að bæta úr því og setja upp sjö metra háa vatnsrennibraut sem mun vafalaust kæta yngri sundlaugagesti sem geta dregið foreldri sín stynjandi og másandi upp í heitu pottunum fyrir „bara eina ferð“.

Pottarnir

Sundferðinni lauk á því að við gengum milli heitu pottanna og prófuðum þá alla, í nafni blaðamennskunnar. Systir mín var mjög sátt við það enda fátt leiðinlegra en að sitja kyrr þegar mögulegt er að hlaupa um og sprikla í vatninu. Hún entist ekki lengi í þessu „pottarölti“ og dró mig aftur í innilaugina fyrir smá boltaleik (hið klassíska „bara einu sinni enn, gerðu það“). Því gafst ekki færi á að skoða gufubaðið en lesendum er velkomið að prófa það sjálf. Síðari boltaleikirnir voru ekki jafn orkufullir og þeir fyrri enda ég orðinn þreyttur eftir að eltast við níu ára orkubolta í tvo klukkutíma en hún virtist ekkert hafa þreyst. Loks fékk hún þó nóg og hljóp upp úr lauginni og inn í klefann á meðan ég drattaðist á eftir henni og sagði henni að passa sig á bleytunni.

Þegar ég var kominn upp úr lauginni gafst mér loksins færi á að skoða bókasafnið, sem er opið til klukkan 22 öll kvöld, almennilega þar sem Hekla þurfti töluvert lengri tíma til að gera sig til. Um leið og hún kom út úr klefanum var þó kominn tími til að koma sér af stað heim því henni hafði verið lofaður ís og allt er gott sem endar vel og allt sem endar vel endar með ís.

Dómur Heklu:

Mér fannst hún bara mjög skemmtileg og þægileg út af því að það er ekki mikið af fólki í henni. Kleinuhringjadótið var skemmtilegasti parturinn en það leiðinlegasta var að, öm, snaginn minn datt úr skápnum mínum [hlær óstjórnlega og missir alveg þráðinn]. Einu sinni var tómatur sem var að labba yfir götu… 

MenningGuest User