Sérðu ekki að ég sé hinsegin??
Grein: Margrét Björk Daðadóttir
Mynd: Margrét Björk Daðadóttir
Síðan ég var unglingur hef ég hugsað mikið og ítarlega um eigin kynhneigð og í seinni tíð eigið kyn. Þetta hefur alltaf verið stór og mikilvægur hluti af minni sjálfsmynd og ég er mjög stolt af því að tilheyra hinsegin samfélaginu. Ég skilgreini mig sem tvíkynhneigða og tala mikið og opinskátt um það. Ég hrífst að öllum kynjum, en ástæðan fyrir því að ég skilgreini mig sem tvíkynhneigða en ekki pankynhneigða er að ég hrífst ekki að fólki óháð kyni eins og pankynhneigð er oft lýst og því mér finnst tvíkynhneigð eiga betur við um mig. Ég hrífst einmitt að fólki mjög háð kyni og upplifi hrifninguna mjög ólíkt milli kynja.
Ég hef deitað bæði stelpur og stráka og finn mikinn mun þar á. Ég upplifi það sem tvennt ólíkt að deita lesbíska stelpu og óhinsegin strák. Ég sé hvernig standardarnir mínir lækka þegar ég deita stráka, þeir þurfa bara að gera the bare minimum og ég leyfi því að duga. Hins vegar hef ég í gegnum tíðina deitað alveg ótrúlegar stelpur. Ég held að þetta sé vegna þess ég laðast mjög ólíkt að fólki eftir kyni. Ég hrífst frekar rómantískt að stelpum og kynsegin fólki en hrifning mín að strákum er mun frekar kynferðisleg en rómantísk.
Þegar ég var í sambandi með stelpu slapp ég alveg við óumbeðna viðreynslu frá karlmönnum með því að segja bara að ég ætti kærustu. Þess vegna sagði ég fólki gjarnan að ég væri lesbía eftir að því sambandi lauk, ég vildi ekki að menn héldu að þeir mættu reyna við mig. Ég var ekki tilbúin að sleppa þeim fríðindunum sem fylgdu því að vera í sambandi með stelpu. Ég vildi bara láta þá vita að ég væri tvíkynhneigð væri ég spennt fyrir þeim, og þar með hafa stjórn á því hver og hvenær horfa mætti á mig kynferðislega. Vegna þess hve fólk er litað af tvíhyggju samfélagsins vil ég frekar að fólk haldi að ég sé lesbía en að ég sé gagnkynhneigð, vegna þess að þá finnst mér ég hafa meiri stjórn á minni hlutgervingu sem kona, þó að ég myndi helst kjósa að fólk sæi mig alltaf sem tvíkynhneigða. Mér finnst það í raun valdeflandi þegar hinseginleiki minn er meðtekinn, ég gef strákum ekki tækifæri á því að íhuga neitt frekar með mér nema ég gefi því sérstaklega leyfi.
Ég tel mig mjög heppna að vera tvíkynhneigða og myndi ekki vilja breyta því. Mér finnst kynhneigðin mín líka lita kyntjáninguna mína. Ég á stundum erfitt með það þegar menn sjá mig sem konu, nema þegar ég sérstaklega vil það. Mér finnst það vera svo mikilvægur hluti af kyninu mínu að vera hinsegin. Það er einhver smá frelsun frá the male gaze. En ég finn líka að ég upplifi mig öðruvísi eftir því hvort ég vilji að strákar sjái mig eða stelpur og kynsegin fólk, þó að það sé ákveðin þversögn í því. Ég vil frekar vera kvenleg ef ég er skotin í strák en meira kynlaus ef ég er skotin í stelpu eða stálpi.
Mér finnst mjög gaman að ég geti notað útlit og klæðnað til að velja hvaða fólk ég vil laða að mér og hvernig það hrífst að mér, en á sama tíma er það algjör hausverkur. Hvað ef ég fer út úr húsinu í kynhlutlausum eða masculine fötum og rekst svo á sætan strák sem ég vil að sjái mig? Nú þá eða ef ég fer út úr húsinu í kvennlegum fötum og skvísuð á því og sé svo stelpu sem mig langar að fatti að ég sé hinsegin? Ég get ekki verið með auka outfit á mér hvert sem ég fer! Hér skal taka fram að ég er alls ekki að setja samasemmerki milli þess að vera kvenleg kona og að vera gagnkynhneigð, eða að vera masculine kona og hinsegin. Mín upplifun á eigin kyni, kynhneigð og hrifningu helst bara ótrúlega mikið í hendur við kyntjáninguna mína. Ég tengi í raun mína hrifningu að stelpum og kynsegin fólki mun meira við hinseginleika minn en kvenleika minn. Hins vegar tengist mín hrifningu að strákum mun meira kyni mínu, þá vil ég vera stelpa. En það er aðeins ef ég er nú þegar spennt fyrir stráknum, ég vil fá að stjórna því hvenær strákar sjá mig sem konu.
Kynhneigð er bæði mjög persónubundin og persónuleg. Ég er mjög þakklát því að hinsegin samfélagið skapi rými í samfélaginu fyrir fólk til að spá í og skoða eigið kyn og kynhneigð. Þetta er eitthvað sem ég get íhugað og talað um endalaust, enda er þetta stór hluti af minni sjálfsmynd og upplifun af heiminum.