Kjósendur vilja unga fólkið á þing: Viðtal við Lenyu Rún Taha Karim
Lenya Rún Taha Karim hefur verið í kastljósinu síðustu daga í kjölfar endurtalningar sem fór fram í Norðvesturkjördæmi og breytti niðurstöðu kosninganna sem fóru fram laugardaginn 25. september síðastliðinn. Lenya, sem hefði orðið yngsti þingmaður Íslandssögunnar og fyrsti Kúrdinn á þingi Íslendinga, var ein þeirra fjögurra sem misstu sæti sitt við endurtalninguna. Stúdentablaðið settist niður með Lenyu og ræddi atburði síðustu daga.
Mig langaði aðallega að tala svolítið um síðustu daga, þetta hafa verið mjög ruglandi dagar og ýmislegt hefur gengið á. Hvað var þetta langur tími sem þú varst yngsti þingmaður Íslandssögunnar?
Ég vakna klukkan 10 og þá er ég komin með haug af skilaboðum. Ég held að síðustu niðurstöður talningarinnar hafi komið um hálf tíu og niðurstöður endurtalningarinnar um sexleytið. Þannig þetta voru góðir níu tímar. Níu tímar þar sem ég fékk ekki að meðtaka neitt. Ég vaknaði bara við fullt af símtölum frá fjölmiðlum. Ég hoppaði úr einu viðtali í annað, fór svo á fund með þingflokknum og á þeim fundi var ég látinn vita af endurtalningunni, og að ég væri tæp sem jöfnunarmaður. Ég fékk eiginlega ekkert að vera þingmaður þannig séð. Ekki starfandi að minnsta kosti.
Hvernig leið þér þessa tíma sem þú varst þó inni? Varstu að fara á taugum?
Ég hugsaði bara um allt sem ég þyrfti að gera: Fara á fund með lagadeildinni, segja upp stúdentaíbúðinni minni og námslánunum. Og svo var ég svolítið fljót á mér, ég var farin að leggja línurnar að kjörtímabilinu og næstu vikum af því ætlunin var alltaf að fá inn varamann ef ég kæmist inn þessar fyrstu vikur svo ég gæti klárað námið, því ég á svo lítið eftir. En miðað við viðbrögðin sem ég fékk og öll atkvæðin sem Píratar fengu vegna þess að fólk vildi ungan fulltrúa hugsaði ég að það gengi ekki. Fólk vildi unga manneskju inn á þingið, og það strax! Mig langaði bara að koma beint á næsta Stúdentaráðsfund og heyra hvað þau væru að tala um, svo ég gæti farið með það strax inn á þingið, vera greið leið og brúa bilið milli þingsins og stúdenta.
Síminn þinn er að springa og svo kemur allt í einu í ljós að þú ert ekki lengur með sætið. Manstu hvað var það fyrsta sem þú hugsaðir?
Ég hugsaði mjög mikið: „Andskotinn hafi það. Ég hefði getað gert svo marga góða hluti.“ En ég veit það ekki, ég var ekki í svo miklu sjokki því ég vissi alveg að ég væri ótrúlega tæp sem jöfnunarmaður. En ég var rosalega svekkt, því ég fékk rosalega góð viðbrögð. Og það er ekki af því ég er endilega frábær manneskja, heldur það hvað það vantar mikið ungt fólk inni á þingi. Þetta var líka svo sögulegt dæmi; manneskja af erlendum uppruna sparkaði Brynjari Níelssyni út af þingi. Ég hefði getað talað fyrir svo ótrúlega marga hópa. Og kvennaþingið líka, þetta var svo ótrúlega stór áfangi sem við vorum á ná á einu bretti. Jafnvel þótt að ríkisstjórnin virðist ætla að halda velli. En það voru svo margir stórir áfangar. Svo er ég líka rosalega hrædd um það að þessir hópar sem ég hefði getað talað fyrir muni ekki fá neina áheyrn. Mér finnst það ömurlegt.
Núna vitum auðvitað ekkert hvernig þetta fer og miðað við núverandi stöðu ert þú ekki inni á þingi og kvennaþingið verður ekki veruleiki. Hvernig verður þetta hjá þér með varaþingmennskuna?
Ég er fyrsti varaþingmaður og fer líklegast inn í nóvember í nokkrar vikur. Það hefði bara verið rosalega öflugt að hafa einhvern eins og mig inni á þingi. Og kvennaþingið. Við vorum ekki bara að missa mig útaf þingi heldur líka tvær aðrar rosalega flottar konur. Þetta er bara svo leiðinleg staða.
Hefur þú trú á því að þetta muni snúast við eða heldurðu að öll von sé úti?
Ég í fúlustu alvöru veit það ekki. Þetta ástand er eiginlega orðið þannig að það veit enginn neitt. Svo er ég auðvitað vanhæf til að segja til um það hver sé líklegasta útkoman vegna þess að ég er aðili að málinu. Þess vegna hef ég ekkert verið að tjá mig um þetta því það er alveg sama hvað ég segi; ég er vanhæf. Ég verð að taka tillit til þess
Það gæti líka vel farið þannig að við kjósum hreinlega aftur? Og þetta gæti breytt kosningum til frambúðar.
Einmitt. Ég held líka að þetta muni verða til þess að fólk verði tvístígandi gagnvart lýðræðinu hérna. Ég er svolítið forvitin um það hvernig kjörsókn verði í næstu kosningum. Hún gæti aukist – eða minnkað, það er aldrei að vita. Ég á orðið erfitt með að fylgjast með fréttum og fæ þetta eiginlega bara beint í æð frá þingflokknum. Ég er líka laganemi og finnst þetta mjög áhugavert á þeim grundvelli, en eins og ég sagði er ég í miðju hringiðunnar þannig ég á erfitt með að finna áhugann til þess að fylgjast náið með framvindu mála.
En hvernig hafa síðustu dagar verið? Ertu bara búin að vera heima og bíða og vona eða reyna að halda þér upptekinni og hugsa um eitthvað annað?
Já, ég er búin að vera rosalega mikið bara með Pírötum og mér finnst þetta auðvitað ótrúlega leiðinlegt. En ég hef fengið rosalega mikinn stuðning og það er í rauninni það sem er að halda mér gangandi, allur þessi stuðningur sem ég fékk frá öllum. En mér finnst ég ekki geta látið sjá mig neins staðar. Ég veit ekki alveg af hverju en ég fékk svo ótrúlega mikla umfjöllun bæði hér, í Kúrdistan og á Bretlandi. Og reyndar Rússlandi og Úkraínu, sem ég veit ekki alveg af hverju er. En mig langar bara aðeins að kúpla mig út, einmitt af því fólk er að fara að spyrja mig hvað mér finnist um þetta mál og ég held að það sé bara ekki við hæfi að ég sé að svara því. En óvissan er erfið.
Það hafa auðvitað skapast heilmiklar umræður um kerfið okkar í kjölfar alls sem á undan er gengið.
Já, og ég held að þetta sé ansi skýrt dæmi um það hve mikil þörf er á nýrri stjórnarskrá. Ég var ekkert endilega á stjórnarskrárvagninum í byrjun, sér í lagi vegna þess hve umhverfið í lagadeildinni virðist vera einróma. En núna, sérstaklega út af þessum stjórnskipulega ruglingi, þá þarf að koma með skýrari lög og gera greinarmun í stjórnarskránni á því hvað er lýðræðislegt og hvað ekki.
Og það er líka þessi óvissa, er það nýtt Alþingi sem ákveður hvort það sé réttmætt kjörið?
Það er líklegast þetta nýja Alþingi, og líklegast það sem var kjörið með endurtalningunni. Og þetta er líka rosaleg vanhæfni. Það væri líka vanhæfni ef við sem duttum út með þessu móti ættum að dæma um þetta. Ég myndi örugglega sleppa því að greiða atkvæði ef til þess kæmi. Ég vona bara svo innilega að fólk, og þá sérstaklega ungt fólk, missi ekki trúna á lýðræðinu út af þessu. Að það fari samt að kjósa. Fyrstu niðurstöðurnar sýndu okkur hvað hvert atkvæði skiptir miklu máli. Það munaði 8 atkvæðum á mér og Brynjari eftir fyrstu talninguna. Það er svo mikilvægt að fólk fari og kjósi.
Ég hef líka fulla trú á því, sama hvernig fer, að með nýju þingi muni stúdentar hafa það betra. Það er kominn tími til. Það verður heildarendurskoðun á Menntasjóðnum 2023 og sama hvort ég verð þingmaður eða varaþingmaður, þá ætla ég að reyna að koma þessum breytingum í gegn. Það sem ég lærði í þessari kosningabaráttu er líka það að við erum enn að berjast fyrir sömu hlutunum og Stúdentaráð talaði um fyrir 30 árum: Hækkun frítekjumarksins, hækkun grunnframfærslunnar og fleiri styrkjum. Hvaða kjaftæði er það? Af hverju þurfum við að hafa það svona skítt? Þetta er svo stór ástæða þess að ég fór út í pólitík.