Hótel Covid

Mynd / Hildur Örlygsdóttir

Mynd / Hildur Örlygsdóttir

Ég er með COVID.

Ég sit dofin eftir símtalið frá smitrakningarteyminu, og þau þúsund símtöl og tölvupósta sem fylgdu í kjölfarið. Ég mætti á loftslagsverkfall. Ég snerti örugglega fullt af hlutum á háskólasvæðinu. Ég heimsótti áttræða ömmu mína. Með hverri hugsuninni dofna ég meira upp. 

Ofan á þetta er ég bókstaflega dofin, en einkenni af COVID sem ég hef ekki heyrt um áður er rafmagnaður náladofi sem leiðir frá hjartanu út í handleggi, fótleggi og meira að segja andlitið. Mér er sagt að þetta sé óalgengt en þekkt einkenni.

Ég tek til allt sem ég þarf til að lifa af í tvær vikur, set á mig grímu og ósamstæða vettlinga og geng út úr húsinu mínu þar sem maður í hlífðarbúningi opnar fyrir mig dyr á rækilega plöstuðum sendiferðabíl og skipar mér að fara upp í, en vinsamlegast ekki snerta neitt. Mér líður eins og ég sé skítug. Smituð.

Hallgrímskirkjan, Barónsstígurinn og Bergþórugatan þjóta framhjá mér, umhverfi sem ég þekki eins og lófann á mér – en það lítur öðruvísi út núna, eins og hliðarvídd sem ég er ekki hluti af. Grímulaust fólk gengur frjálst ferða sinna og gjóar sumt augunum á mig því ég er að stara út um gluggann.

Bílstjórinn minn er þögull, og mér finnst andrúmsloftið gefa til kynna að það taki því ekki að spjalla. Hann rýfur þögnina þegar við nálgumst hótelið á Rauðarárstíg, ítrekar að ég megi ekki snerta neitt og að ég eigi ekki að standa upp þó hann opni dyrnar. Ég á að bíða þar til mér er sagt að fara út.

Bifreiðin staðnæmist, og ég mæni út um gluggann á teinréttar aspirnar andspænis hótelinu – ég veit ekki alveg hvers vegna en gulnuð laufin væta í mér augun. Kannski er það vegna þess að ég veit að ég mun missa af haustinu, eða vegna þess hve fallegir litirnir eru, þó ég sjái þá bara í gegnum rúðuna. Ég sný höfðinu í hina áttina til að virða fyrir mér bygginguna og hrekk í kút – í flestum gluggunum er manneskja að halla sér upp að glerinu og stara á mig. Allt smitaða fólkið er að teyga í sig umhverfið, alveg eins og ég.

Aðsend

Mynd / Hildur Örlygsdóttir

Bílstjórinn minn opnar og stendur í dálítilli fjarlægð frá mér og ítrekar að ég megi enn ekki standa upp því það sé verið að undirbúa komu mína. Hann þegir þunnu hljóði og bakkar enn lengra frá mér þegar ég spyr hann hvort verið sé að nýta allt hótelið fyrir COVID-smitaða einstaklinga. „Með þessu áframhaldi stefnir í það,“ segir hann og svo þegjum við meira. Kunnuglegur strákur er öryggisvörður, hann mætir ekki augnaráði mínu en spyr bílstjórann hvað ég heiti og þeir ræða um mig í þriðju persónu í stutta stund.

Loks birtast tvær konur í anddyrinu, klæddar í hlífðarbúning og latexhanska með plastskjöld fyrir andlitinu, og ég fæ loksins að standa upp úr bílnum og ganga inn.

Ég lít um öxl og það síðasta sem ég sé áður en hvítir veggir umlykja mig er hvernig bílstjórinn og öryggisvörðurinn byrgja leiðina að innganginum með tveimur rimlagrindum, sem saman mynda stórt V.