Íslensk sjálfsmynd í Breiðholti

IMG_2633.jpg

Á dögunum skellti ritstjóri Stúdentablaðsins sér á listasýninguna Íslensk sjálfsmynd sem haldin var í húsakynnum Nýlistasafnsins í Breiðholti. Sýningin er lokaverkefni tveggja meistaranema, Bertu Drafnar Ómarsdóttur og Þórdísar Jóhönnu Lareau í sýningarstjórnaráfanga við Háskóla Íslands. 


Bíltúr í Breiðholt

IMG_2640.jpg

Ég varð þeirrar lukku aðhljótandi að snapa mér far á sýninguna með nýkjörnum formanni Nýlistasafnsins, Sunnu Ástþórsdóttur. Við lögðum af stað frá Marshallshúsinu en tókum smá krók og sóttum Birki Karlsson, safneignarfulltrúa Nýlistasafnsins. Ég var því í gífurlega góðum félagsskap á leiðinni á sýninguna en á leiðinni sögðu þau mér aðeins frá sögu Nýlistasafnsins.

IMG_2651.jpg

Safneign Nýlistasafnsins, sem er einnig þekkt sem Nýló, er einstök á Íslandi þar sem það er stórt safn sem inniheldur einungis verk sem safninu hafa verið gefin. Það var eitt sinnar tegundar í langan tíma eða allt þar til Safnasafnið á Akureyri opnaði 1995. Sunna sagði mér að hópur listamanna hafi stofnað Nýlistasafnið árið 1978 en það er listamannarekið safn sem hefur það markmið að varðveita og sýna samtímalist auk þess sem því er ætlað að vera vettvangur fyrir tilraunir og alþjóðlega umræðu um myndlist. „Opinber söfn á þessum tíma voru ekki að safna verkum eftir samtímalistamenn,“ segir Sunna og bætir við að Nýló hafi verið stofnað til þess að bæta í þetta gat sem vantaði í listasöguna. Bæði Sunna og Birkir minntust þó á Níels, sem var í hópi listamannana, en hann var „primus motor safnsins,“ eins og Birkir komst svo vel að orði. 

Við nálguðumst Völvufell í Breiðholti, þar sem safneign Nýlistasafnsins er til húsa og þar sem sýningin beið okkar. Birkir sagði mér að safneign Nýlistasafnsins teldi um 2400 verk en þau hafa komið frá listamönnum, fulltrúum, söfnurum og einstaklingum sem tengjast safninu. Á sýningunni mátti finna fjögur verk eftir fjóra íslenska listamenn. Ég spurði sýningarstýrurnar út í val þeirra á verkum úr svona gífurlega stóru safni: „Rannsóknarvinnan fór að miklu leyti fram á Sarpi, þar sem við leituðum að verkum. Starfsmaður Nýlistasafnsins sýndi okkur svo þau verk sem okkur leist vel á og þá tókum við lokaákvörðun. Verkin tvö sem koma ekki frá safninu komu bara einhvernveginn til okkar þegar hugmyndin var hálfunnin og það var engin spurning um hvort við ættum að para þau við verkin frá Nýló sem við höfðum í huga,“ sögðu Berta og Þórdís.


4 verk eftir 4 íslenska listamenn

IMG_2634.jpg

Þegar gengið er inn í sýningarrýmið blasir við svarthvítt myndbandsverk þar sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir (1980- ) þylur upp ljóð sitt, Fjallkonan. Hún er allar konur, hún er Hallgerður langbrók, Vigdís í félagsskap karla, Bríet Bjarnhéðinsdóttir að berjast fyrir því að stelpur fái að æfa sund, hún er Reykjavíkurdóttir, brotaþoli í drekkingarhyl, Tyrkjagudda, tussa, bredda, drusla og líka samstaða og styrkur. Í lok ljóðsins biðlar ljómælandi til þeirra sem hlusta að hafa hátt um kjaftæði, karlrembublæti og ásakanir um stelpupussulæti. Ljóðið birtist fyrst árið 2017 á vef Stundarinnar í upplestri Þórdísar. Í lok myndbands birtast myllumerkin #kosningar2017 og #höfumhátt. Síðara myllumerkið var notað í baráttu við kynferðisofbeldi, en með því vildi fólk krefjast breytinga í samfélaginu og gagnrýna íslensk stjórnvöld m.a. fyrir að hafa veitt Róberti Árna Hreiðarssyni, sem breytti nafni sínu í Róbert Downey, uppreist æru. Krafist var ábyrgðar og að skömmin yrði færð af þolendum yfir á gerendur. 

IMG_2625.jpg

Næsta verk sem grípur augað óneitanlega er skúlptúr með íslenskri kleinu eftir myndlistamanninn Jón Gunnar Árnason (1931-1989) Hann þekkja ef til vill flestir sem listamanninn sem gerði Sólfarið sem byggt var í stærri mynd við Sæbrautina árið 1990. En það er ekki verkið sem stóð á stalli fyrir framan mig í Breiðholtinu. Verkið, sem búið var til árið 1983 er án titils. Meðalþykkur vír stendur upp úr ferköntuðum viðarkubbi og á honum hvílir eitt stykki uppþornuð íslensk kleina sem mig langaði þó mikið að bíta í. Sem betur fer voru mýkri og nýrri kleinur á boðstólum en rýmið sem sýningin var í var áður bakarí og því einstaklega vel við hæfi að bjóða upp á kleinur sem voru steiktar samdægurs í Breiðholtinu.

Mörg þekkjum við frasann „Íslands- Sækjum það heim“ sem kynningarátak í þeim tilgangi að efla ferðalög innanlands. Árið 1997 hefur myndlistamaðurinn Guðmundur R. Lúðvíksson (1954- ) tekið þann frasa og sett yfir fjórar ljósmyndir á striga og gert hann að meiri ádeilu þar sem á verkinu má finna manneskju liggjandi í eigin ælu, hugsanlega vegna áfengisdauða, manneskju liggjandi í götunni og dauða kind og æðafugl. Myndirnar benda til þess að Ísland sé ekkert sérstaklega skemmtilegt land heim að sækja. 

Síðasta verkið er fréttaljósmynd eftir Harald Jónasson, Vopnabræður í Borgartúni, en á henni má sjá „mikilvægt augnablik á filmu, þegar varnarlið Bandaríkjanna ætlaði að meina Degi B. Eggertsyni að mæta á fund á Höfða.“ Dagur kom hjólandi að Höfða, þó sést hann ekki á myndinni heldur tvær skyttur á húsþaki. 

Kaldhæðni, húmor og margræðni sjálfsmyndarinnar

IMG_2642.jpg

Þórdís segir vinnuna hafa verið smá tilviljanakennda „[Berta] sagði ‘Ég elska þetta ljóð og vil hafa það’ og þá fórum við að leita að minnum í því.“ Það leiddi þær í átt að íslensku sjálfsmyndinni. „Þegar við höfðum rætt ákveðna aðferð, sem var að blanda ólíkum verkum saman og mynda ákveðið tengslanet á milli þeirra, fórum við að skoða safneignina hjá Nýló. Þegar við vorum í því ferli, kom flugan. Það mætti því segja að aðferðin í uppsetningunni og verkin sem við vorum að skoða hafi kveikt í hugmyndinni,“ segja Berta og Þórdís brosandi á opnuninni.

Eins og áður kom fram komu tvö af fjórum verkum ekki úr safneign Nýlistasafnsins. Aðspurðar hvað fékk þær til að leita út fyrir safnið sögðu þær að sig hafi langað að „velja verk sem myndu e.t.v. ekki venjulega vera sýnd saman, en eiga það sameiginlegt að fjalla um íslenska sjálfsmynd á einhvern hátt. Verkin áttu að vera ólík, þ.e.a..s í ólíkum miðlum og frá ólíku listafólki, en í skemmtilegri umræðu hvert við annað.“ Á sýningunni mátti sjá myndbandsverk þar sem lesið var upp ljóð, fréttaljósmynd, ljósmyndaverk á striga og skúlptúr í blandaðri tækni úr íslenskri kleinu. Þegar ég spurði þær hvernig verkin tengdust innbyrgðis sögðu þær kaldhæðni og ákveðinn húmor einkenna þau öll og gera það að verum að verkin tali saman á áhugaverðan og hnyttinn hátt. „Margræðni er til staðar í verkum sýningarinnar, en flest þeirra túlka líka alvarleg málefni sem okkur finnst gera samræðuna áhugaverða og opna.“

Aðspurðar um hvernig verkin kæmu að sjálfskoðun íslendinga og hvað íslensk sjálfsmynd væri fyrir þeim sögðu þær: „Íslensk sjálfsmynd er í raun ekki eitthvað eitt eða ákveðin skoðun sem við viljum miðla áfram út frá okkar eigin hugmyndum. Hún getur verið í séríslensku fyrirbrigði svo sem að amma bakaði fyrir okkur í gamla daga. Hún getur einnig birst í mynd femínisma, sögu okkar og samskiptum við útlönd ásamt hugmyndum um hvernig við tálgum okkar eigin pól í hólinn og hvernig við erum ólík öðrum þjóðum. Það mætti einnig segja að sýningin varpi upp spurningum um hvort við séum að ofmeta ágæti okkar, en þar kemur inn stríðnin eða húmorinn í verkunum.“

Fyrst af fjórum sýningum

Sýningarstýrurnar voru ánægðar með tækifærið til þess að vinna þetta verkefni. „[Þetta] er allt öðruvísi en maður hefur áður gert,“ segir Berta þegar hún lýsir verkefninu. Þórdís var sammála og sagði að það væri gaman að fá loksins að vinna með fólki. Ég spurði þær stöllur hvað fælist í starfi sýningarstjóra: „Sýningarstjórar sjá um uppsetningar á listasýningum. Þeir útfæra og þróa leiðir til að setja upp sýningu með uppákomum, hljóði og myndum.“

Þær segja áfangann hafa verið mjög gagnlegan en í honum lærðu þær ferlið sem sýningarstjórar fara í gegnum frá a-ö þegar verið er að setja upp sýningu. „Söfn eru ólík og starfið innan þeirra líka. Það var bæði áhugavert og gagnlegt að kynnast aðferðarfræðinni á bak við vinnuna, frá hugmyndavinnu og vinnu með fólkinu á safninu sem við ákváðum að vinna með og listamönnunum sem við ákváðum að taka fyrir. Ferlið getur verið flókið og að mörgu að huga. Stundum gerast hlutirnir hratt og þá er gott að hafa strúktúr og aðferðafræði í leiðarnesti.“

Þessi sýning var gerð í áfanganum Listgagnrýni og sýningarstjórn og er fyrst af fjórum sýningum sem tengjast þessum áfanga. Næstu sýningar eru Óhlutbundinn Veruleiki, Gerðarleg og Til staðar

Sýningin Gerðarleg er afrakstur samstarfs Gerðarsafns og meistaranema við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands þar sem listnemum var boðið að vinna með líf og listrænt starf Gerðar Helgadóttur. Nemarnir rannsökuðu hinar fjölbreyttu hliðar á starfi Gerðar en hlutverk safnins var að veita þeim innsýn inn í safneign Gerðarsafns. Efniviður, viðfangsefni og tækni Gerðar, sem og stofnunin sjálf sem geymir verk hennar varð að lokum að innblæstri fyrir eigin listsköpun nemenda. Sýningarstjórar eru meistaranemar í sýningargerð við Listaháskóla Íslands og í listgagnrýni og sýningarstjórnun við Háskóla Íslands.

Sýningin Óhlutbundinn Veruleiki opnar í sýningarsal Hins íslenska bókmenntafélags, Hagatorgi 1 (jarðhæð Hótel Sögu) föstudaginn 14. maí. Til sýnis verða abstrakt listaverk Valtýs Péturssonar, full af litagleði og óhlutbundnum formum sem endurspegla þann óhlutbundna veruleika sem við búum við og fá okkur til þess að staldra við og sjá listina og litagleðina í kringum okkur. Sýningin stendur í allt sumar.

Eina sýningin sem verður sett upp út á landi, nánar tiltekið á Núpi á Skarðsströnd, er Til staðar sem sýnir verk eftir Katrínu Sigurðardóttir myndlistarmann. Sýningin verður opin skv. samkomulagi, á tímabilinu maí til október. Verkið er innsetning í náttúru Skarðsstrandar.