Setumótmælin í Dómsmálaráðuneytinu og fyrir framan Alþingi: Viðtal við Elínborgu Hörpu Önundardóttur, Hildi Harðardóttur og Julius Rothlaender.

Blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi við þau Elínborgu Hörpu Önundardóttur, Hildi Harðardóttur og Julius Rothlaender, þátttakendur í starfi No Borders Iceland sem berst fyrir bættum kjörum flóttafólks og hælisleitenda. Elínborg og Hildur voru handteknar í tengslum við setumótmælin í Dómsmálaráðuneytinu sem fóru fram í mars og apríl 2019, og Julius var handtekinn fyrir að taka þátt í mótmælum sem áttu sér stað fyrir framan Alþingi nokkrum vikum fyrr. Alls voru sjö handtekin fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu á mótmælunum tveimur.

Julius Rothlaender Mynd: Aðsend

Julius Rothlaender
Mynd: Aðsend

 „Á fjöldaframleiðslubretti neitana“

Hildur lýsir aðdraganda mótmælanna þannig að hópur fólks á flótta sem bjó á Ásbrú ákváðu að skipuleggja sig og berjast fyrir réttindum sínum. Þau höfðu samband við No Borders til að fá þau í lið með sér og settu fram fimm kröfur: engar fleiri brottvísanir, efnismeðferð fyrir öll, jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, raunhæfur möguleiki á atvinnuleyfi og lokun flóttamannabúðanna á Ásbrú. Um það bil helmingur íbúa á Ásbrú tóku þátt en með hverjum mótmælunum fækkaði smám saman í hópnum, þátttaka virtist hafa slæmar afleiðingar á umsóknir þeirra til hælis hér á landi. Að sögn Elínborgar var viðhorf þeirra sem héldu áfram að mótmæla að þau hefðu engu fleiru að tapa. Mál þeirra „væru á fjöldaframleiðslubretti neitana“. Mótmælendur lögðu persónuleg mál sín til hliðar til þess að berjast fyrir þessu sameiginlega máli. Títt er að ráðherrar segi að ekki sé hægt að taka einstök mál flóttamanna til skoðunar, heldur verði að líta á heildarmyndina. Við mótmælin var stór hópur samankominn sem vildi skoða heildarmyndina með yfirvöldum en kom að lokuðum dyrum.

Aðspurð um ástæðuna fyrir þátttöku hennar í mótmælunum segir Elínborg: „Ég vil ekki búa í heimi þar sem landamæri sem hafa mikil áhrif á fólk eru raunveruleiki og þar sem stjórnvöld og fólk í valdastöðum neitar að taka ábyrgð á hvítri yfirburðahyggju og rasisma. Einnig horfa stjórnvöld ekki í augu við það hvernig kerfið byggist á kúgandi hugmyndafræði og gera fólk á flótta að vandamálinu en ekki sjálf sig.“

 Komu að lokuðum dyrum yfirvalda

Fleiri mótmæli höfðu farið fram áður en mótmælin í Dómsmálaráðuneytinu komu til og tilraunir til þess að reyna að koma þessum kröfum flóttafólks á framfæri höfðu verið margar. Íbúar Ásbrúar höfðu sent tölvupósta og No Borders hafði reynt að boða fundi án árangurs, ásamt því að halda kröfugöngur, pólitíska gjörninga, upplýsingafundi og fjáröflunarfundi. Markmið mótmælanna var að koma á samtali milli ráðherra og flóttamannanna, sem höfðu sett fram kröfur og vildu semja um þær við dómsmálaráðherra. Engin svör við beiðninni um slíkt samtal bárust og upplifun mótmælenda var að yfirvöld kærðu sig lítið um aðstæður, velferð og líðan fólks á flótta. 

Mótmælendur fengu að lokum fund með Áslaugu Örnu, dómsmálaráðherra, en hann fór ekki fram fyrr en í nóvember 2019 og höfðu þá flestir virkustu mótmælendurnir sætt brottvísun. Síðan kröfurnar fimm sem nefndar voru hér að ofan voru gerðar hafa brottvísanir breyst til hins verra og má þar nefna mál albönsku konunnar sem var vísað úr landi þegar hún var komin 36 vikur á leið, þrátt fyrir að hafa vottorð um að ekki þætti ráðlegt að beita brottvísun vegna ástands hennar. Læknir á vegum Útlendingastofnunar hafði skrifað undir vottorð um að hún væri fær um að ferðast, en seinna kom í ljós að sá læknir hafði í raun aldrei hitt konuna og hafði einungis skrifað undir vottorðið að beiðni Útlendingastofnunar. Mótmælin komu ekki af stað neinum breytingum varðandi brottvísanir, enn er notast við Dyflinnarreglugerðina án þess að skoða hana á gagnrýninn hátt. En nokkur samfélagsleg vitundarvakning um brottvísanir og aðstöðu flóttamanna og hælisleitenda fór af stað í kjölfar mótmælanna.

Hildur Harðardóttir Mynd: Aðsend

Hildur Harðardóttir
Mynd: Aðsend

„Þið getið notað tjáningarfrelsið annars staðar“

Mótmælendur voru handteknir á þeim grundvelli að hafa brotið 19. grein hegningarlaga sem vísar til skyldu til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Engin ógn stóð þó af mótmælendum og mótmæli eru stjórnarskrárvarin, ásamt því að setumótmæli eru viðurkennd af Mannréttindadómstól Evrópu sem hluti af mótmælafrelsi. Dómstólar, sem eiga að standa vörð um jafnrétti og lögmæti, athuguðu ekki hvort fyrirmæli lögreglu væru lögmæt. Í dómsúrskurðum hefur ekki verið tekið tillit til mótmæla- og tjáningarfrelsis heldur er einfaldlega gert ráð fyrir því að fyrirmælum lögreglu hefði ekki verið fylgt.

Aðspurð um hvers vegna lögreglan hafi vegið meira en tjáningarfrelsi segja viðmælendur það vera óljóst hvers vegna 19. grein lögreglulaga er látin trompa stjórnarskrárvarinn rétt til mótmæla og tjáningarfrelsis, sérstaklega þar sem dómstólar færa engin rök fyrir því í úrskurðum sínum. Þá er einungis hægt að geta sér til um ástæðurnar og eins og er hallast þau að því að kerfið noti dómsmál til ögunar á aðgerðasinnum sem þeim finnst „óþæg og/eða truflandi“. 19. greinin er í raun fullkomin leið til þess, enda þarf ekki annað en að hika við að fylgja fyrirmælum lögreglu til þess að hægt sé að handtaka þig og kæra. 19. greinin hefur einnig þann „kost“ að vera mjög óljóst orðuð, þannig hægt er að teygja hana yfir svo gott sem hvað sem er, að sögn þeirra. No Borders hafa undir höndum upptöku frá mótmælum þar sem lögreglumaður skipar mótmælendum að færa sig af almenningsgangstétt og heyrist svo segja: „Þið getið notað tjáningarfrelsið annars staðar.“ 

 Hildur segir þetta viðmót mjög lýsandi fyrir viðbrögð lögreglunnar, og síðar dómskerfisins alls, þegar kemur að baráttu fyrir réttindum fólks á flótta. Stjórnvöld og lögreglan vilja ekki að vakin sé athygli á þeirri óþægilegu staðreynd að kerfið sem þau halda uppi og vinna fyrir byggist á kerfisbundnum rasisma og útlendingaandúð. Fjöldabrottvísanir fólks á flótta og það litla vægi sem rödd þeirra fær þegar það biður stjórnvöld um að á það sé hlustað er ein birtingarmynd þess. Önnur birtingarmynd sem Hildur nefnir er hvernig lögreglan tók mun harkalegar á mótmælum flóttafólks heldur en á öðrum mótmælum. Piparúða og kylfum var til dæmis beitt á mótmælum flóttafólks árið 2019 í fyrsta skipti í 9 ár, eða síðan í janúar 2009 þegar að táragasi var beitt á mótmælum í kjölfar efnahagskreppunnar 2008.

Elínborg Harpa Önundardóttir Mynd: Aðsend

Elínborg Harpa Önundardóttir
Mynd: Aðsend

Einstaklingar í viðkvæmri stöðu glæpavæddir

Dómskerfið virðist því frekar standa með lögreglu í stað þess að dæma í hag mótmælenda. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við HÍ lýsir þessu vel í bók sinni, Kynþáttafordómar í stuttu máli, þar sem kynþáttahugmyndir eru teknar til skoðunar. Þar nefnir hún að fólk sem sækir um alþjóðlega vernd sé oft glæpavætt fyrirfram, þ.e.a.s. tilvist þeirra ein og sér er glæpavædd og það alltaf talið grunsamlegt. Þess vegna er svo auðvelt að taka næsta skref og glæpavæða þau sem standa með þessum „grunsamlegu“ einstaklingum með því að draga úr þeim kjark til samstöðu.

Aðspurð um stöðu ákæranna og hvort þau sjái fyrir endann á málinu segja þau að í rauninni ættu þetta að vera tvö mál. Þrír einstaklingar voru handteknir fyrir framan Alþingi og fimm í Dómsmálaráðuneytinu. Yfirleitt hefur verið réttað yfir fólki saman þegar það er handtekið í sömu mótmælum. Í tilviki þeirra sem voru handtekin á þessum tveimur mótmælum hefur ríkið slitið málin í sundur án útskýringa sem margfaldar málskostnað, bæði fyrir þau ákærðu og fyrir ríkið. Það eykur álag varðandi fjáröflun og flækir umræður. Það veikir einnig samstöðu hópsins sem stendur með þeim ákærðu að þurfa að mæta sjö sinnum í dómsal en ekki tvisvar. 

Einnig er auðveldara að ráðast á einstaklinga heldur en hóp og segjast þau því ekki getað annað en áætlað að þetta sé vísvitandi gert af hálfu ríkisins til að þyngja þeim ferlið. Nú eru tvö ár liðin frá mótmælunum og ákærurnar hafa því hangið yfir þeim allan þann tíma. Búið er að dæma fjögur sek, ein bíður úrskurðar og tvö eiga eftir að fara fyrir dómstóla. 

Nánari upplýsingar um mál einstaklinganna sem kærðir voru má finna á adstandaupp.com þar sem hægt er að styrkja þá fyrir málskostnaði.