Grasrót og garðar

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir

Ef þú röltir niður í bæ, gengur meðfram Hallgrímskirkju og tekur stefnuna niður á Vitastíg rekstu kannski á gult hús innan hvíts grindverks. Þar fyrir innan má sjá garð og í honum nokkur hjól sem eru á mismunandi stigum lagfæringar. Þetta er Andrými. Ef þú ákveður að fara inn verðurðu beðið um að fara úr skónum og einhver mun bjóða þér kaffibolla. Þér á hægri hönd er kassi með nafnspjöldum og nælum með mismunandi persónufornöfnum. 

Hægra megin inn af anddyrinu er Andspyrna, bókasafn anarkistans, en þar má finna hillu eftir hillu af bókum um sögu, heimspeki og skáldsögur. Vinstra megin er eldhúsið og ef þú gengur lengra inn finnur þú stórt vinnurými með skrifborðum og stólum. Hurð þar inni leiðir að fríbúðinni, en þar má finna fataslár og á borðum þar eru teppi. Yfir hurðinni er spjald sem býður fólki að taka það sem það vill og undir því boði hefur einhver teiknað hjarta. 

Þegar komið er inn í húsið má sjá tvo stiga beint af augum, annar leiðir upp og hinn niður. Stiginn niður leiðir þig í kjallarann þar sem ræktaðar eru plöntur og gert er við hjól á hjólaverkstæðinu. Stiginn upp leiðir þig á efstu hæðina þar sem má finna aðalskrifstofuna, fundarherbergi og leiksvæði fyrir börn. Um gjörvallt húsið hanga pride fánar úr þaksperrum og plaköt og tilkynningar prýða veggina. Sum hver fræða lesandann um hvað samþykki er og önnur um ýmsa stuðningshópa og viðburði. Allt þetta kemur saman í eina heild sem segir: öll eru velkomin, sama hver þau eru. 

Aðdragandi og saga

Rýmið er rekið af hópi fólks sem hefur áhuga á grasrótinni. Þau fengu húsið í sína umsjá árið 2018 en höfðu fyrir það verið virk á ýmsum stöðum. Hópurinn hóf starfsemi sína 2016 í eldhúsi í heimahúsi. „[Einn meðlimur] var með opið hús einu sinni í viku fyrir fólk sem vildi elda og borða saman,“ útskýrir Christina Milcher, ein af skipuleggjendum Andrýmis. „Það var sérstaklega opið fyrir innflytjendur og flóttafólk sem leið til þess að opna á samskipti og koma þeim meira inn í samfélagið.“ Fólk nýtti þessa eldhúshittinga til þess að skipuleggja viðburði. Svo kom að því að þau þyrftu stærra og aðgengilegra rými en eldhús í heimahúsi. Tímabundið voru þau í leyfisleysi í tómu skrifstofurými JL hússins á Hringbraut, þ.e.a.s. áður en því var breytt í farfuglaheimili. Árið 2017 fluttu þau í miðbæinn og störfuðu frá efstu hæðinni í Iðnó. „Þá vorum við bara með opið einu sinni eða tvisvar í viku því við deildum rýminu,“ segir Christina.  

Árið 2018 tóku þau eftir því að gamli leikskólinn á Vitastíg stóð auður. Þá höfðu þau samband við borgina. „Við vorum ekki komin með formlegan samning við borgina þegar við fluttum fyrst inn,“ segir Christina, en það tók næstum heilt ár að fá borgarstjórnina til að samþykkja beiðni þeirra um að fá að leigja rýmið. „Þegar verkefnið var komið í framkvæmd, orðið nokkuð farsælt og margir viðburðir í gangi var orðið erfitt fyrir þau að segja: „nei, þið verðið að flytja út“.“

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir


Það sem þetta snýst um

Andrými er róttækt félagsrými fyrir öll þau sem vilja skipuleggja. Þar eru nokkrar viðmiðunarreglur en þær eru viljandi hafðar óljósar til þess að bjóða sem flest velkomin. „Þetta er fyrir öll sem vilja halda eða skipuleggja viðburði [fyrir auknu jafnrétti og frelsi], það getur verið hvað sem er,“ segir Christina. „Það er mikilvægt að viðburðirnir séu ekki hagnaðardrifnir, og þess vegna leyfum við ekki viðburði sem selt er inn á.“ Auk þess styðja samtökin enga stjórnmálaflokka. „En að öðru leyti er þetta eins og hvað annað.“

Markmið Andrýmis er að útvega aðstöðu fyrir grasrótarhópa og frjáls félagasamtök til þess að skipuleggja og halda viðburði. Þetta er opið og vinalegt rými fyrir þau sem eiga ekki í önnur hús að venda, þá sérstaklega flóttafólk.

Andrými vinnur að samtvinnun (e. intersectionality) og aðstoðar í baráttunni gegn alls kyns kúgun. Í grunninn vinna samtökin gegn firringu með því að byggja upp samfélag og menningu. Samtökin eru fjármögnuð með framlögum og fjáröflunum sem tengjast viðburðum þeirra.

Samstaða með jaðarsettum hópum

Hópurinn leggur áherslu á að sýna kúguðum og jaðarsettum hópum samstöðu, sem útskýrir nafnspjöldin. „Við erum að prófa að hafa nafnspjöld með fornöfnum,“ segir Christina og bendir á eitt slíkt á peysunni sinni.

„Flest er á ensku hérna,“ segir hún. „Vegna þess að margir skipuleggjendanna eru innflytjendur.“ Andrými er bæði rekið af innflytjendum og Íslendingum. „Við höldum líka marga viðburði til stuðnings fólki á flótta, þannig að þetta er fyrir jaðarsetta fólk samfélagsins.“ „Hópar fólks á flótta hafa einnig nýtt sér húsið til þess að skipuleggja. Til dæmis hjálpaði þeim að hafa stað til þess að fá sér kaffi og tala um næstu skref í mótmælum árið 2019.“


Á meðan fólk á flótta skipulagði gáfu aðrir hópar teppi, kaffi og lyf til þess að sigrast á kuldanum og veikindum sem honum fylgdu. „Fólk vissi að það gat gefið Andrými slíkt og því yrði komið til fólks á flótta eða farið með á mótmælin. Það er mjög gagnlegt að hafa heimastöð fyrir hverskyns  skipulagningu.“



Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Smiðjur og viðburðir

Auk annarra viðburða er Andrými með hjólaverkstæði og ókeypis vörumarkað. Hjólaverkstæðið er opið á mánudögum, en það var hannað með það í huga að kenna fólki að gera við hjólin sín. „Hugmyndin er sú að einhver sem kann að laga hjól kenni öðrum að laga hjól. Og það fólk kennir svo öðru fólki og þannig dreifist vitneskjan,“ segir Christina. „Þetta er mjög gagnlegt því að hjólaviðgerðir geta verið mjög dýrar og oft á tíðum þarftu bara eitthvert sérstakt verkfæri til þess að gera einn einfaldan hlut.“

Ókeypis vörumarkaðurinn er opinn daglega frá 18:00-19:30 en þar má fá ókeypis mat á borð við brauð og grænmeti sem sumt kemur úr garðinum. Hópurinn vonast til þess að geta opnað eldhús fólksins, þar sem fólk eldar og borðar saman, aftur í náinni framtíð. 


Ef þú vilt styrkja Andrými getur þú gert það með því að millifæra á þennan reikning
kt.: 421216-0100, 

reikningsnúmer: 0133-26-012275. 

Samtökin taka líka á móti kaffi og tei. Meiri upplýsingar um Andrými má nálgast á vefsíðunni andrymi.org