Status Quo is God
Aðsend grein. Höfundur er nemandi við Háskóla Íslands.
„Öllu er lokið,“ segir Leðurblökumaðurinn titrandi röddu. Rigning fellur á mölbrotið og hljótt bílastæði í Metrópólis. Vöðvastæltur maður í bláum spandex-galla liggur í grunnri holu og starir ósjáandi upp í himininn. Súperman... er dáinn!
Áhorfendur geispa í kór. Einhver setur af stað skeiðklukku. Fimm mínútum, þremur sekúndum og fjórum hundraðshlutum seinna stoppar klukkan: Súperman er mættur aftur. Vá, nýtt met! Jesús lá heila þrjá daga!
Hversu oft hefur Súperman „dáið“? Hve lengi lá hann síðast undir torfu þar til eitt eða annað orsakaði að hann reis upp frá dauðum eða var sóttur aftur í tímann eða úr öðrum alheimi? Hvað veldur því að hann drepst ekki eins og við hin og lætur þar við liggja? Við vitum öll svarið. Súperman er ekki persóna, ekki lengur. Hann þróast ekki, lærir ekki nýja hluti, fer ekki til sálfræðings. Hann er flatur, sami gaurinn frá upphafi til enda; þægindarammi höfundarins er allur hans alheimur.
Súperman er vörumerki, táknmynd bandarískra siðferðisgilda, menningararfleifð sem hálf plánetan þekkir á augabragði. Hans tilgangur er ekki að segja sögu. Hans tilgangur er að laða fólk að, það borgar til að sjá hann, upplifa fantasíuna. Og af því að fólk borgar þá skilar hann hagnaði. Enginn sem að þeim hagnaði kemur vill rugga bátnum eða breyta vörumerkinu um of. Lesendurnir þekkja Súperman, Clark Kent, með gleraugun og hárlokkinn, en það þarf að halda þeim við efnið. Drepum Súperman, segja höfundarnir, til að vekja athygli. Lífgum hann svo við því enginn vill sjá á eftir honum – og hagnaðinum. Hömrum áfram á þekktum, sundurtuggnum formúlum þess á milli.
Status quo is God.
Hagnaður er það eina sem skiptir máli í vestrænu samfélagi nútímans og peningar eru eina valdið sem getur nokkru breytt. Í þrjátíu ár hefur fólk barist fyrir því að valdhafar geri sér ljóst og hjálpi til við að koma í veg fyrir að plánetan brenni undir fótum okkar. Þúsundir greina, hundruð bóka, kvikmyndir, sjónvarpsseríur, ráðstefnur, og þó reyndi Trump að draga Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum 2017. Stóriðja er of arðsöm og peningar allt of stór hluti af tölfræðilegri typpastærð þjóða til að nokkur í stjórn hafi áhuga á raunverulegum breytingum. Fyrr ráða þeir þann sem býður lægst til að pissa á eldinn.
Vísindin liggja fyrir. Jörðin gæti orðið tvíburi Venusar eftir 1000 ár. Það vitum við og getum sannað með ógrynni upplýsinga. Vandamálið er að hið „rétta“ – það sem ætti að gera...
Skilar. Ekki. Hagnaði.
Það kostar að rétta af kútinn og því vill enginn reyna. Enginn þorir að leggja stóriðjunni línurnar því fólkið þar á peninginn, á stjórnmálamennina, á valdið. Lofum öllu, segja pólitíkusarnir í jakkavasanum, til að vekja athygli. Banna plast, auka endurvinnslu, dæla pening í rannsóknarverkefni. Setjum loforðin svo á hakann, hendum kannski þúsundkalli í háskólann og gefum hjúkrunarfræðingum einnar prósentu launahækkun svo við getum verið hortugir gagnvart kjósendunum okkar. Lofum öllu en gerum ekkert. Ruggum ekki hagnaðarbátnum.
Status quo is God. Amen.
Við búum í samfélagi sem þekkir vel forngrískar spekilínur eins og „samfélagið er gott þegar gamall maður plantar tré hvers skugga hann veit að hann mun aldrei njóta.“ En þótt meðaljóninn reyni að gera börnunum sínum bestan hreiðurrofspakka er nóg um fólk sem er svo sjálfhverft að það grefur upp hvern græðling í eigin skammtímasjónarmiði, í eltingaleik við frægð og ríkidæmi. Það er þetta fólk sem kemst í stjórn, því það er sterkast og fallegast og flottast og á skilið að vera elskað með atkvæðum, á skilið að borða gullkryddaðan síberíutígur með ríka fólkinu, á skilið að borga ekki skatt. Og fólkið sem vildi óska þess að það væri þetta flotta framafólk kýs það með stjörnur í augunum.
Er að furða að fólk sé farið að missa trúna á lýðræðið? Stjórnmálamenn bregðast kjósendum sínum með slíkri reglufestu að kynslóðirnar á leið inn í fullorðinsárin hafa ekki áhuga á því að kjósa. Hverju mun það breyta að kjósa þennan flokk eða hinn þegar kjörnir fulltrúar virðast aðeins vinna í nafni vergrar landsframleiðslu? Fólkið sem engan kýs stendur andspænis flokkstryggðarkjósendunum – á hinum enda skalans. Traust þess er þrotið, það gælir við einræðishugmyndir í eins konar kaldhæðni. Það er sjálfhverfa, bitra fólkið sem plantar ekki trénu því það býst ekki við að börn sín muni fá að sjá það dafna. „Mundu, fólk dó svo þú gætir kosið,“ segja eldri kynslóðirnar við það. „En ef ég styð engan?“ spyr það. „Hvað ef enginn berst fyrir því sem ég tel skipta máli? Hvað ef ég get ekki treyst því sem þeir segja lengur? Auður seðill jafngildir því að mæta ekki á kjörstað. Hvernig þá læt ég skoðun mína í ljós svo fólk heyri og skilji?“
En þannig virkar þetta ekki lengur, ekki frekar en að Súperman sé enn persóna. Lýðræðið hefur verið til staðar of lengi, raunverulegu valdhafarnir eru löngu búnir að átta sig á smugunum í kerfinu sem viðhalda þeirra valdi. Nægt magn peninga gerir menn almáttuga, þess vegna er alltaf þess virði að viðhalda hagnaðinum á kostnað alls annars. Súperman beygir stál með berum höndum og endurlífgast á nokkurra tölublaða fresti. Kvótakóngar, hins vegar, beita peningi til að beygja sjálf lögin og bankamógúlar borga sig upp listann fyrir hjartaígræðslur. Þar sem flestir sjá hraðasekt sjá verðbréfabraskarar reikning fyrir hraðakstursleyfi. Hvaða máli skiptir þú, skattgreiðandi?
Loftslagsbreytingarnar eru einfaldlega veigamesta einkenni deyjandi samfélagsgerðar. Ofurkapítalisminn mun drekkja okkur í blóði og saltvatni og á meðan munu menn kalla eftir meiri stóriðju, frjálsari markaði, minni yfirsjón, svo hagnaðarvísitölupílan haldi áfram að vísa upp, bankareikningarnir haldi áfram að stækka, fólk haldi áfram að kaupa, þar til tölurnar eru merkingarlausar rafhleðsluhreyfingar í reikniverki gagnavers, sem stendur autt utan við þögula stórborg. Allt þar til síðasta díóðan deyr.
Kyrrstaðan blessi okkur öll. Status quo is God.