Hausinn í skýinu
Á Þjóðhátíð 2017 sat Þór Símon, ásamt vini sínum Arnari og Arndísi kærustu hans, í napri ágústgolunni innan um sextán þúsund manns sem biðu eftir Ingó veðurguð til að kveða burt helgina og sumarið í dynjandi samsöng. Þau höfðu fundið ágætan stað hægra megin í brekkunni og höfðu gott útsýni á sviðið sem flökti í ljósum. Til að stytta biðina dróg Arnar upp símann, síðan Arndísi nær sér og kvaddi til Þórs sem sá þau setja sig í stellingar fyrir sjálfu sem skjalfesti augnablikið.
Fjórum árum seinna fékk þessi sjálfa framhaldslíf þegar Þór Símon tók eftir að Svenja, kærasta hans, sat fyrir aftan föruneytið. Fyrsta stund Svenju og Þórs var því fönguð án þess að þau væru þess vör að hún ætti sér stað. Þau áttu ekki eftir að ræða saman fyrr en ári seinna þegar þau byrjuðu að vinna á sömu ferðaskrifstofu og tvö ár liðu í viðbót þar til þau voru komin á fast. En þau eru þarna bæði tvö og það er borðliggjandi staðreynd. Af því á sama tíma og Arnar smellti af sjálfunni sat Svenja og beið í brekkunni með símann við hönd og ákvað að taka mynd af sviðinu til að fanga stemninguna.
Á þeim stafrænu og vel tengdu tímum sem við lifum mætti röklega áætla að tilviljanir á borð við þessa væru á hverfandi hveli. Í hversdagsleikanum liggja nefnilega megnugir útreikningar á bak við þá tækni sem stendur almenningi til boða og gerir slíkt með slíkum hraða og afköstum að það er harla mögulegt fyrir eina manneskju til að skynja allar samverkandi rásir í einu. Sjálfan snertir á þessum prómþeifska frumkrafti með því að gera viðfangsefni að skapara ímyndarinnar. Sá sem er séður er einnig sá sem sér og í virkni sinni verður sjálfan leið til að ígrunda verundina innan hverfullar stundar í nokkurs konar stafrænni núvitund. Sjálfan er þó ekki algjörlega heilandi fyrirbæri - enda eru guðlegar gjafir greiddar með mannlegum raunum. Sjálfan hefur dökka undirhlið en rannsóknir benda til þess að ágeng sjálfu-skoðun leiði til lágs sjálfsmats og hækkandi sjálfvígstíðni meðal ungs fólks sem upplifir sig oft sem skotspón net-trölla.
Á hinu sjálfu-væna Instagrami er að meðaltali 95 milljón myndum hlaðið upp á hverjum einasta degi. Það þýðir að á þeim tíma sem tók þig að lesa þetta hafa bæst í sarpinn í kringum þrettán þúsund nýjar myndir sem myndu auðveldlega tróna yfir Hallgrímskirkju væri þeim raðað í stafla. Það væri ógerlegt fyrir eina manneskju að meðtaka allan þennan ótrúlega fjölda af andlitum og augnablikum.
Þetta myndaflóð virðist þyngdarlaust á alnetinu og ekki hafa áferð en markar gríðarstórt kolefnisspor. Sjálfuna er að finna í gagnaverum sem standa hulin í ómerkilegum iðnaðarhverfum á bak við gaddavírsgirðingar og læstar dyr, óaðgengilegar fyrir utanaðkomandi nema í gegnum algrímið. Það er efniskostnaður á bak við sjálfurnar, skurðir voru grafnir og steypa hrærð til að reisa byggingarnar sem hýsa allar sjálfurnar okkar.
Raunin er sú að þrátt fyrir ósýnileika netsins tilheyrir það hinum náttúrulega heimi. Skýið er ekki að finna uppi á himninum heldur liggur það neðanjarðar í svörtum kössum með blikkandi ljósum, knúið af eðalmálmum sem voru grafnir upp og ljóstraðir með rafmagni til að fá steinana til að hugsa. Það liggur gríðarlegur efniskostnaður á bak við þá stafrænu veröld sem við höfum skapað okkur.
Loftslagsbreytingar eru annað ofurfyrirbæri sem við höfum skapað og gegnumsýrir hvern einasta dag án þess að við séum of vör við að það er að gerast. Í fljótu bragði virðist fátt standa til boða, enda er jafn erfitt að stöðva loftslagsbreytingar og það er að banna sjálfur eða taka netið úr sambandi. Þetta er verkefni er líkt og gagnafjallið, einum of stórt fyrir eina manneskju til að skynja og leysa algjörlega. Vissulega er hægt að fækka sjálfu-tökum, en það er dropi í hafið og ræðst ekki að rót vandans. Netið er ekki gátt að öðrum heimi sem hægt er að flýja til, það lýtur náttúrulögmálum líkt og allt annað sem við höfum skapað. Samfélagsmiðlar miðla því sem samfélagið vill koma til skila og gerir netið að spegilmynd af heimi sem gengur ákaft á auðlindirnar. Sjálfan er hróp úr mannhafinu sem einstaklingurinn gjallar frá sér til að verða ekki gleymdur, en fjarlægist sjálfan sig. Af því flestar sjálfur eru gleymdar, en liggja geymdar.