Ritver Háskóla Íslands þjónar öllum nemendum skólans
Hvað er Ritver?
Ritver Háskóla Íslands tók til starfa í janúar 2020. Þar áður höfðu verið starfandi Ritver við Menntavísindasvið og Hugvísindasvið en eftir sameiningu þeirra þjónar Ritver öllum nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands.
Þjónusta Ritversins er margvísleg. Við höldum úti vefsíðu með upplýsingum um skrif, heimildanotkun og -frágang, tökum á móti fólki í einstaklingsráðgjöf um texta sem þau eru að vinna með, komum að kennslu í einstaka námskeiðum og höldum stuðnings- og skriftarhópa.
Kjarnastarfsemi Ritvers Háskóla Íslands er einstaklingsráðgjöf með jafningaráðgjafa. Þar geta nemendur fengið aðstoð við þau verkefni sem þeir vinna að hverju sinni. Jafningaráðgjafar geta aðstoðað við atriði á borð við uppbyggingu verkefna, flæði í texta, algengar málvillur og skráningu heimilda.
Þjónusta við nemendur með erlent móðurmál
Árið 2017 framkvæmdi Ritver Menntavísindasviðs könnun meðal nemenda við Háskóla Íslands sem hafa annað móðurmál en íslensku. Þátttakendur höfðu dvalið mjög mislengi á Íslandi; frá tveimur árum og upp í 30 ár, en meðaldvalartími var tíu ár. Sumir höfðu gengið í íslenska grunnskóla en aðrir kynntust íslensku menntakerfi fyrst í Háskóla Íslands. Hópurinn er því afar fjölbreyttur. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að 88% nemenda af erlendum uppruna töldu sig þurfa meiri stuðning við skrif á fræðilegri íslensku.
Aðrar rannsóknir hafa einnig leitt það í ljós að nemendur af erlendum uppruna standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í námi sem tengjast atriðum á borð við upplýsingagjöf, samskiptavandamál og tungumálaörðugleika (Artëm Ingmar Benediktsson, Anna Katarzyna Wozniczka, Kriselle Lou Suson Jónsdóttir og Hanna Ragnarsdóttir, 2018). Það var því ljóst að hér væri tækifæri fyrir ritverið til að bæta þjónustu sína við nemendur Háskóla Íslands og jafna möguleika til náms.
Úr varð að þáverandi ritver Menntavísindasviðs tók að bjóða upp á einstaklingsráðgjöf sem var ætlað að aðstoða þennan hóp við fræðileg skrif á íslensku, bæði við gerð námskeiðsritgerða og lokaverkefna. Á vordögum 2019 fékk Ritverið styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála til að vinna verkefni sem miðar að því að styðja við nemendur með erlend móðurmál við gerð skriflegra verkefna, hvort heldur sem er lokaverkefna eða námskeiðsritgerða. Vonir standa til þess að með þjónustu Ritvers við þennan nemendahóp verði staða nemenda með erlendan bakgrunn jöfnuð þegar kemur að háskólanámi á íslensku.
Stuðningshópar
Haustið 2019 fór af stað stuðningshópur fyrir nemendur með erlend móðurmál sem skrifa á íslensku. Ákveðið var að bjóða upp á stuðning í hópi þar sem nemendum gafst tækifæri til að hitta aðra nemendur í sömu stöðu, vinna saman verkefni og fá aðstoð eftir því sem þörf var talin á. Í hópnum var meðal annars hægt að fá aðstoð við að lesa námskeiðslýsingar, fá leiðbeiningar um stafsetningu og málfar, ræða saman um fræðilega ritun og nálgast upplýsingar um hjálpargögn á borð við orðabækur á netinu, villuleitarforrit og annað slíkt.
Þessi hópur varð fyrir barðinu á Covid-19 og einstaklingsráðgjöf féll einnig niður um tíma. Hópurinn hefur þó lifað á Facebook í hópi sem nefnist Ritunaraðstoð fyrir erlenda nemendur í HÍ, en það er vettvangur þar sem nemendur geta spjallað saman og sótt stuðning hver af öðrum og frá starfsfólki ritvers sem heldur utan um hópinn.
Þetta kemur þó ekki í stað funda þar sem fólk hittist augliti til auglitis og því verða fundir stuðningshópsins endurvaktir á þessu misseri. Stuðningshópurinn hittist nú annan hvern miðvikudag klukkan 10:00-12:00. Fundirnir verða á Teams þar til aðstæður í samfélaginu leyfa fundi í eigin persónu.
Tímar í einstaklingsráðgjöf eru bókaðir í gegnum vefsíðu ritvers; ritver.hi.is. Fyrir nemendur sem hafa erlent móðurmál en skrifa á íslensku er hægt að velja Aðstoð við verkefni á íslensku og þá veit ráðgjafinn að viðkomandi hefur ekki íslensku að móðurmáli.
Við hjá Ritverinu hvetjum alla nemendur sem telja sig geta haft gagn og gaman af því að taka þátt í slíkum hópi til að slást í för með okkur, taka þátt í vinnustofum sem við bjóðum upp á og panta tíma í einstaklingsráðgjöf í ritverinu.