Það eru ekki allir með allt sitt á hreinu, og það er allt í lagi
Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir
Þegar ég gúglaði „tilvitnanir um að plana framtíðina“, þá voru meðal þeirra tveggja fyrstu sem komu upp „Lífið er það sem hendir þig meðan þú planar annað“ og „Takmark án plans er bara ósk“. Það er allt gott og blessað, en hvað ef þú veist ekki hvernig plön þig langar til að gera? Hvernig getur þú planað framtíðina ef þú veist ekki hvað þú vilt? Það er gerð krafa um að þú vitir hvað þú vilt verða þegar þú ert barn, ákveða hvað þú vilt læra, að þú farir í háskóla eða út á vinnumarkaðinn, og þegar þú finnur þér starfsferil, þá heldur þú þig við hann, finnur húsnæði, stofnar fjölskyldu og kemur þér fyrir og svo framvegis. En er það virkilega það sem fólk vill? Þarf ég að vilja þetta?
Og þó ég viti hvað ég vil og plani og plani og plani, þá getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis. Eitthvað eins og, ó, ég veit ekki... alþjóðlegur faraldur kannski? Að plana langt inn í framtíðina eru líka forréttindi sem fáir hafa efni á, sérstaklega í ljósi einhvers eins og COVID-19. Þótt að þú verjir tíma, peningum og fyrirhöfn í framtíð þína og plön, þá gæti allur þessi undirbúningur verið til einskis. Ég sá eitthvað á Instagram um það hvernig þú ert aldrei tveimur launaseðlum frá því að verða milljónamæringur, en flestir eru alltaf tveimur launaseðlum frá því að lenda í miklum fjárhagslegum vandræðum. Í COVID-19 snerust plönin minna um stóra drauma en því meira um að sanka að sér klósettpappír. Það sama er að gerast með Brexit - ég veit að það á við fáa sem eru að lesa þessa grein, en að búa við það óöryggi sem 2020 færði okkur fær mig til að hugsa hvort það sé nokkur tilgangur í að plana nokkuð yfir höfuð.
Ég skrifa þetta í upphafi nýs árs, þegar allir eru að gera plön og hugsa um framtíðina, en hvað eru margir sem munu halda sig við þessi plön. Stóru áformin um að missa nokkur kíló, ferðast meira, vera félagslyndari eða að finna sér maka? Kannski þurfum við að endurhugsa hverskonar plön við gerum og í stað þess að plana langt inn í framtíðina þá tökum við bara lífinu eins og það kemur. Sérstaklega ef þú ert eins og ég og veist ekki hvað þú vilt gera í lífinu. Ef það koma upp tækifæri sem ég gæti haft gaman af, þá já, ég mun grípa þau og sjá hvert þau leiða mig, en ég veit ekki hvaða mynd þau taka eða hvert þau gætu leitt mig – og það er bara allt í lagi. Og ég held að sem samfélag þurfum við að venjast hugmyndinni um að hætta við. Ef eitthvað sem þú hélst þú hefðir gaman af er ekki að virka, ef þú ert ekki að fá það sem þú vilt eða þarft út úr því (hvort sem það eru peningar, persónulegur vöxtur eða frekari tækifæri), þá held ég að besti kosturinn gæti verið að hætta við og byrja uppá nýtt. Þetta á ekki við um alla eða allar aðstæður. Þú ættir ekki að gera eitthvað sem þú hefur ekki gaman af eða eitthvað sem lætur þér líða illa ef þú þarft þess ekki. Ég er ekki að segja að allir ættu að gefast upp við fyrstu hindrun eða að allir séu í þeirri stöðu að geta hætt við, en ég vil að fólk geti sagt nei við að taka á sig meiri ábyrgð í skóla/vinnu/persónulega lífinu án þess að þurfa að skammast sín fyrir og að það sé í lagi að viðurkenna að þeir hafi tekið of mikið að sér og þurfi að sleppa einhverju.
Að lokum held ég að fólk þurfi ekki að vita nákvæmlega hvað það vill gera í lífinu. Fólk breytist og þroskast á hverjum degi, og það sem þér líkar í dag getur breyst á morgun. Ef þú átt þér stóran draum og mikil plön fyrir lífið, þá áttu að sjálfsögðu að elta það, en ef þú ert ekki með slíkt, slappaðu bara af – ég held hreinskilnislega að enginn viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera, alveg sama hversu fullkomið fólk virðist vera. Plön geta virkað sem öryggisnet; ef við gerum ráð fyrir því versta, þá getur það dregið úr afleiðingunum þegar eitthvað óvænt kemur uppá. En geturðu í raun planað að vera á einhverjum ákveðnum stað eftir fimm ár eða þar um bil? Eiginlega ekki. Þannig að ef þú ert virkilega eins og ég og veist ekki hvar þú vilt vera, eða ef þú veist hvað þú vilt en veist ekki hvernig þú átt að nálgast það, hættu þá að hafa áhyggjur af öllu fólkinu sem virðist vera með allt sitt á hreinu, því það er örugglega ekki raunin. En ef svo er, þá er ég viss um að þau hafi fengið mikla hjálp og verið mjög heppin að komast á þann stað sem þau eru og það var ekki bara mikil vinnusemi og dugnaður sem komu þeim þangað. Þannig að ef þú ert ekki með allt þitt á hreinu, þá geturðu verið viss um að þú ert örugglega ekki eina manneskjan í þeirri stöðu. Að vita ekki hvert þú ert að fara er ekki eins yfirþyrmandi og hræðilegt eins og sumir vilja láta vera.