Innlit á Stúdentagarðana

Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir

 

Fyrir þetta tölublað, ákvað Stúdentablaðið að komin væri tími til að kíkja á hvernig stúdentar búa. Í þessari úttekt skoðuðum við paríbúð, stúdíó íbúð og herbergi með sameiginlegri aðstöðu. Kannski færðu innblástur til að innrétta lítið rými, uppgötvar góða staði til að versla á hagstæðu verði, eða þú veist, nýtur þess bara að fá innsýn í ´hið töfrandi líf’ stúdenta. Hittum nú viðmælendur okkar!

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Andrea Ósk Sigurbjörns og Sólveig Daðadóttir:

„Við sátum á strönd á Jamaica sumarið 2018, yfir okkur ástfangnar og spenntar fyrir framtíðinni, þegar við sendum inn umsókn fyrir stúdentagarðanna. Seint í nóvember sama ár, fengum við afhenta lykla að íbúð okkar á Eggertsgötu og höfum nú búið hér í meira en tvö ár,“ segir Andrea. Hún og Sólveig stunda báðar nám við Háskólann og búa í paríbúð. Sólveig er í framhaldsnámi í tölfræði og Andrea er í diplóma námi í kynjafræði. Uppáhaldsminning þeirra úr íbúðinni er „þegar við vorum með ‘piknik’ á svölunum, við sátum á teppi, borðuðum vegan pylsur og drukkum bjór“.

 Hvað hefur áhrif á stílinn ykkar?

„Við gerum okkar besta til að vera umhverfisvænar og sjálfbærar í okkar stíl. Það er mikilvægt fyrir okkur að gera heimilið að okkar, sérstaklega núna þegar COVID-19 geisar, þar sem við erum mikið meira heima. Við eigum meira en 30 plöntur, en yfir vetrarmánuðina þá elskum við að bæta kertum inná heimilið. Við notum svalirnar mikið þar sem við ræktum grænmeti í ræktunarkössum á sumrin, og við erum með bekk og ljós til að skapa kósí stemmingu. Hlutir sem minna okkur á ferðirnar okkar saman eru dreifðar um alla íbúðina. Þær hvetja okkur til að gera fleiri skemmtilega hluti í lífinu.“

 

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Hvað er besta ráðið ykkar til að nýta lítið rými sem best?

„Við notum lágt borð sem borðstofuborð og notum þessa kolla til að sitja á. Þeir eru einungis í kringum borðið þegar við erum að borða, annars stöflum við þeim upp. Við erum ekki með sjónvarp; það passar ekki stílnum okkar. Við erum með borð sem hægt er að leggja saman í stofurýminu og notum það bæði til að vinna og borða við. Þegar það er ekki í notkun leggjum við það saman en það gerir rýmið opnara. Við deilum fötum og þurfum því færri flíkur. Við elskum að hafa spegil í hverju rými því þannig virðast þau stærri. Með því að hafa hurðarnar alltaf opnar inn í öll herbergi, virðist íbúðin vera eins og eitt stórt rými frekar en þrjú lítil.“

Hvaðan fáið þið hlutina ykkar?
„Eina húsgagnið sem við höfum keypt er ódýr sýningasófi  úr umbúðarlausu deildinni í IKEA. Ömmur okkar og afar hafa gefið okkur mikið af húsgögnum, skrautmunum og plöntum. Einstakur stíll þeirra hefur mótað okkar stíl. Borðstofuborðið okkar var búið til að foreldrum Andreu og eldhúsborðið okkar hefur verið í eigu fjölskyldu Sólu í meira ein 15 ár og hefur ferðast til fjögurra landa. Við elskum að finna róttæka listmuni, á hátíðum og á óvenjulegum stöðum. Pólitísk afstaða okkar er mjög sjáanleg á veggjum íbúðarinnar.“

 

Eigið þið ykkur uppáhalds hlut sem þið getið ekki ímyndað ykkur að vera án?

„Rólan okkar er aðal hluturinn í stofunni. Hún er næstum 40 ára gömul og var fyrsta húsgagn mömmu Andreu þegar hún flutti að heiman. Hún hefur glatt margra gesti okkar og á eftir að gera það um ókomna tíð.“

Arnaldur Starri Stefánsson:

 

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Arnaldur er í framhaldsnámi í lögfræði og hefur búið á stúdentagörðunum síðan hann byrjaði í lögfræði fyrir fjórum árum. Hann býr núna í einstaklingsíbúð á Eggertsgötunni. Arnaldur er fæddur og uppalin úti á landi, á Þórisstöðum á Svalbarðaströnd. „Ég hef áhuga á nánast öllu – horfa á fótbolta, hlusta (líklega aðeins of mikið) á hlaðvörp. Ég hef töluverðan áhuga á ilmvötnum, og ég spila líka mikið af borðspilum.“ Hver hefur ekki gaman af góðu borðspili?

 

Hvað hefur áhrif á stílinn þinn?

„Ekkert sérstakt, aðallega hlutir sem ég sé á netinu. Ég hneigist til að hafa mínimalískan og einfaldan stíl, en jafnframt stíl sem endurspeglar persónuleika minn. Mikilvægast er þó að reyna að láta íbúðina líta ekki út eins og elliheimili (því miður get ég ekki breytt gólfefnunum).“

 

Hvað er besta ráðið þitt til að nýta lítið rými sem best?

Lykillinn er fjölnota og færanleg húsgögn. Í svona lítilli íbúð er líklegt að það þurfi að færa til húsgögn í hvert skipti sem þú færð gesti. Ég á auka stóla og jafnvel aukaborð í geymslu sem ég tek fram þegar ég á von á fólki í mat eða partý. Hvað varðar list á veggina, þá mæli ég með því að skoða ARTOTEK, lánsafnið í Norræna húsinu þar sem hægt er að fá lánuð listaverk í þrjá mánuði í senn. – frábær leið til að skreyta veggina mjög ódýrt.“

 

Hvaðan færð þú hlutina þina?

„Aðallega frá IKEA, en líka frá Søstrene Grene. Góði hirðirinn er líka frábær staður til að finna hluti.“

 

Áttu uppáhalds hlut sem þú getur ekki ímyndað þér að vera án?

„Borðstofu/barborðið er frábært. Vegna sérkennilegrar legu íbúðarinnar nýtist það vel og ég get borðað kvöldmat gegnt glugganum, sem er frábært eftir að hafa borðað kvöldmat gegnt veggnum í heilt ár eftir að ég flutti í þessa íbúð.“

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Helgi James Price Þórarinsson

Helgi er í grunnámi í lögfræði við Háskólann. Hann býr í herbergi með aðgangi að sameiginlegri aðstöðu á Gamla Garði. „Ég er vanur því að búa í svona umhverfi, þar sem ég bjó á heimavist þegar ég var í framhaldsskóla. Fyrir mér er það að búa á heimavist hin fullkomna háskólareynsla. Mér líkar að búa á stað þar sem ég get verið útaf fyrir mig, en hef líka tækifæri til að hitta fólk frá öllum heimshornum,“ segir Helgi. Hann bætir við að, „helsti munurinn á að búa hér miðað við aðrar íbúðir er leigutíminn, þar sem ég leigi aðeins í níu mánuði á ári. Ég get farið heim yfir sumartímann og unnið, grætt smá pening og sparað leiguna.“ Sveigjanleiki er lykillinn!

 

Hvað er besta ráðið þitt til að nýta lítið rými sem best?

„Þegar maður býr í rými þar sem maður deilir eldhúsi/baðherbergi þá getur það verið áskorun að finna jafnvægi milli þess að fara út og læra. Það er mikilvægt að minna sig á að fara og hitta annað fólk, það er ekki gott að vera einn, innilokaður, nýttu vini þína sem mest, finndu fólk til að læra með og gerðu hluti sem vekja áhuga þinn.“

Hvað hefur áhrif á stílinn þinn?

 „Það er mikilvægt að gera sem mest úr rýminu því að herbergin eru frekar lítil. Mitt  persónulega álit er að maður eigi ekki að vera með of mikið af hlutum í kringum sig, bara nóg til að gera heimilislegt; mínimalískt en samt persónulegt, t.d. ljós í gluggum, mottu, nokkra púða, eða eitthvað í líkinu við það. Stundum detta mér í hug hlutir sem gætu gert hebergið hlýlegra, en ég hef ekki lagt mig fram við að bæta neinu við ennþá og ég mun eflaust ekki gera það á þessu ári. En hver veit hvað ég kem með á næstu önn!“

 

Hvaðan færð þú hlutina þína?

„Ég átti flesta hlutina og kom með þá með mér. Ísskápinn til dæmis, átti ég frá því ég var á heimavist í framhaldsskóla og afgangurinn af dótinu er að mestu föt, bækur og þess háttar.“

 

Áttu uppáhalds hlut sem þú getur ekki ímyndað þér að vera án?

„Nei, ekki sérstaklega, en þó er einn hlutur sem hefur reynst mér vel á dimmum vetrarmánuðum og það er vekjaraklukkan mín. Hún er með ljósi sem líkir eftir sólarupprás. Það hjálpar mikið til við að vakna, á þessum dimmustu mánuðum ársins.“