Fútúriskar myndir

Þýðing: Högna Sól Þorkelsdóttir

Ég gekk inn í geymsluna/skrifstofuna mína, settist niður við ódýra IKEA skrifborðið mitt og starði út um gluggann á íslenska veðrið. Á einum tímapunkti var orðið svo dimmt að það var eins og það væri nú þegar komin nótt. Skyndilega byrjaði að snjóa og áður en ég vissi af var haglél farið að dynja niður. Einungis nokkrum sekúndum seinna dró úr storminum og sólin var farin að gægjast í gegnum skýin. Veður getur verið svo ófyrirsjáanlegt. Þá hugsaði ég með mér: „hvað annað er ófyrirsjáanlegt?“ Ó já, framtíðin.

Þar sem framtíðin er þema þessa tölublaðs Stúdentablaðsins datt mér í hug að setja saman lista af myndum um framtíðina. Ég meina, það er alltaf gaman að velta framtíðinni fyrir sér eða minnast gömlu góðu daganna. Þannig hví ekki að kíkja á gamla gullmola vísindaskáldskaparins!

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Allar þessar myndir gætu talist klassískar í dag, nema kannski Blade Runner 2049. Sumar söguhetjur ferðast fram í tímann, t.d í Back to the Future Part II (1989) ferðast Marty og Doc alla leið til 21. október 2015. Sýn myndarinnar á framtíðina minnir ekkert á raunveruleikann, nema að ég hafi misst af fljúgandi bílunum og heilmyndunum alls staðar. Terminator (1984) er hinsvegar um prógrammeraðan hermann sem ferðast aftur í tímann til að bjarga heiminum. Terminator, leikinn af Arnold Schwarzenegger, fer frá árinu 2029 aftur til 1984 til að drepa konu sem ber undir belti dularfullt barn. En drungalegt! The Matrix (1999) þarf líklegast ekki að kynna, en við ætlum samt að gera það. Matrix er eftirlíking raunveruleikans ætluð manneskjum og búin til af fútúriskum vélmennum sem vilja fækka íbúafjölda manna. Myndin inniheldur alls kyns tilvitnanir, allt frá trúarbrögðum yfir í Lísu í Undralandi. Jafnvel þeir sem hafa ekki séð The Matrix hafa séð hina frægu senu þar sem Neo víkur sér undan skotum – algjört meistaraverk! Aliens (1986) er móðir allra geimverumynda. Aliens er um geimskip sem finnst eftir að hafa verið týnt í geimnum í 57 ár. Í geimskipinu er ein eftirlifandi manneskja, ásamt nokkrum öðrum eftirlifendum. Blade Runner 2049 er framhald af Blade Runner (1982). Í henni leika Ryan Gosling, Harrison Ford og margir aðrir góðir leikarar. Í Blade Runner 2049 má finna virkilega hugmyndaríka framtíðarsýn sem inniheldur lífefnabreyttar manneskjur, fljúgandi bíla, heilmyndaðar kærustur og allskonar fleira!

Þannig fáið ykkur popp, kaldan drykk og skemmtið ykkur yfir þessum fimm taumlausu og einstöku fútúrisku myndum!

Back to the Future Part II (1989)

The Terminator (1984)

The Matrix (1999)

Aliens (1986)

Blade Runner 2049 (2017)