Frá síðasta manninum að framtíðar manninum: Harðkjarna vísindamenn hefja leitina að litríkri framtíð

Þýðing: Stefán Ingvar Vigfússon

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Þegar Zarathustra, söguhetja bókarinnar Svo mælti Zarathustra eftir Friedrich Nietzsche, tilkynnti um dauða Guðs lýsti hann því yfir að mannkynið væri eitthvað til sigrast á og spáði jafnframt fyrir um eina af ógæfum samtímans: tilkomu síðasta mannsins. 

„Ég segi ykkur það: til þess að fæða dansandi stjörnu þarftu enn að búa yfir stjórnleysi innra með þér. Ég segi ykkur það: þið búið enn yfir stjórnleysi.

Vei! Það mun koma sá tími að mannkynið getur ekki lengur fætt stjörnu. Vei! Tími andstyggilegasta mannsins mun renna upp, þess sem getur ekki lengur fyrirlitið sjálfan sig.

Sjá! Ég sýni ykkur Síðasta manninn!

„Hvað er ást? Hvað er sköpun? Hvað er þrá? Hvað er stjarna?“ -- svo spyr Síðasti maðurinn og blikkar. Jörðin er orðin lítil og á henni skoppar Síðasti maðurinn, sem gerir allt smátt. Tegund hans óupprætanleg eins og fló; Síðasti maðurinn lifir lengst.

  • Friederich Nietzsche, Svo mælti Zarathustra (1883)

Þó samtímamenn Nietzsche hafi ekki haft skilninginn til þess að átta sig á afleiðingum guðslaus heims skildi hann sjálfur að dauði Guðs er viðburður á alheimsskala sem gæti hugsanlega útrýmt mannkyninu, með því að sökkva því í níhilískt ástand. Í aldanna rás hefur fólk verið drifið áfram með því að sækja gildi og markmið í tilveru guðdómlegrar veru. Við verðum að verða þess megnug að drepa Guð, ef ekki, hvernig höldum áfram án hans?

„Alheimurinn (og þær breytur sem eru honum til grundvallar) verður að vera slíkur að pláss sé fyrir tilvist áhorfenda á einhverju stigi. Til þess að umorða Descarte, cogito ergo mundus talis est.“

Meginregla mannfræðinnar (SAP) (Brandon Carter) 

Eins og Erich Fromm sagði: „Vandamál nítjándu aldar var dauði Guðs. Vandamál tuttugusta aldara er dauði mannkynsins.“ Síðasti maðurinn er flokkur níhilískrar mannfræði. Í ljósi þess að Guð er dauður draga þau þá ályktun að eftir standi engin gildi, væntingar eða markmið til þess að eltast við og því vilja þau bara vera hamingjusöm og heilbrigð. Í aldanna rás hefur loforð um eilíft líf veitt mannkyninu huggun harmi gegn. Aftur á móti hefur fólk lengi leitað meðala til þess að lengja lífið. Fyrir 2200 árum skipaði Qin Shi Huang, fyrsti keisari kína, fólki sínu að leita meðals sem myndi veita honum eilíft líf [1]. Talsverðum fjárhæðum er varið í að rannsaka eilíft líf og hugmyndin um það gengur manna á milli Kísildal, þar sem rannsakendur eru að þróa ýmsar aðferðir til þess að sigrast á dauðanum. Verða vísindi hið nýja trúarbragð sem fólk mun fylgja í leitinni að eilífu lífi?

Í bók sinni, Homo deus: Stutt yfirferð um framtíðina, hristir Yuval Noah Harari upp í lesendum sínum með því að spá því fyrir að mannkynið muni, í krafti vísindalegra framfara, ekki einungis eltast við eilíft líf, hamingju og heilagleika, heldur stíga næsta skrefið í þróunarsögunni, frá „Homo sapiens“ yfir í „Homo deus.“ Harari sér fyrir sér að mannkynið muni reyna að verða sér úti um guðlega eiginlega á þessari öld. Lífkennaskannar (e. biometric scanners), heilatölvu-viðmót (e. brain-computer interfaces), líftækni og gervigreind eiga eftir að renna meira saman og við verðum enn tengdari vélum en við erum í dag.

Á opnunarhátíð heimsmeistaramótsins í fótbolta árið 2014 átti sér stað ákveðið kraftaverk, þegar ungur þverlamaður maður framkvæmdi opnunarsparkið með stoðgrind sem hann stýrði með huganum [2]. Það var afrakstur margra ára samstarfs á milli teymis Gordon Chengs, við háskólann í Munich, og teymis Miguel Nocolelis, við taugaverkfræðideild Duke University. Vísindamennirnir eru meðlimir í samtökunum Walk Again Project. Langflestir vísindamenn og læknar líta á dauðann sem tæknilegan vanda, kerfisbilun vegna ýmissa minniháttar galla sem þau eru viss um að megi finna tæknilega lausn á. Til dæmis trúir Ray Kurzweil, yfirverkfræðingur Google, því að mannkynið muni hefja vegferð sína að ódauðleika árið 2029 [3]. Í kjölfarið munu læknavísindi lengja líf okkar um eitt ár á hverju ári. Stærsta skrefið verður tilkoma örvélmenna (e. nanobots) sem sett verða í líkama okkar til þess að berjast við sjúkdóma. Annað stórt skref verður að tengja líkama okkar við skýið. Samkvæmt Kurzweil verður þetta stærsta þróunarskref mannkynsins frá því að forfeður okkar þróuðu með sér fremri heilabörkinn fyrir tveimur milljónum ára.

Í síðasta hluta bókarinnar virðist Harari, líkt og Nietzche, búa yfir spádómsgjöf. Hann hefur áhyggjur af þeirri ógn sem mannkyninu mun stafa af gervigreind. Mannkynið verður gagnslaust. Hvað gerum við þegar algóriþmar geta unnið þjónustustörf betur en manneskjur? Það á ekki eftir að vera nóg að manneskjan búi yfir einstökum eiginleikum sem algóriþmar gera ekki. Ójöfnuður verður meiri þar sem einungis örfáir einstaklingar verða uppfærðir í Homo deus, þeir sem búa þegar yfir miklum forréttindum. Aftur á móti verður enginn frjáls undan ógn níhilísmans, ekki einu sinni þeir sem hafa gert sig að guðum. Martin Heidegger skrifaði að „Nietzsche talaði um níhilísma sem óhugnanlegasta gestinn, vegna þess að hann ýtir undir heimilisleysi og hefur lengi ráfað um ganga hússins óséður.“

Harari segir frjálslyndið sem við búum við byggja á því að við búum yfir frjálsum vilja, en heldur því svo óvænt fram að „frjáls vilji“ sé mýta sem eigi rætur sínar að rekja til kristinnar trúar, en sé ekki vísindaleg staðreynd. Hann heldur því fram að hugsanir okkar séu afleiðingar líffræðilegra algóriþma og að það komi sá tími að mannkynið geri sér grein fyrir því að frjáls vilji sé ekki til í raun og veru og að einhver geti ráðskast algjörlega með hugsanir okkar. Hver er þá tilgangurinn með stjórnmálum? Ógnin við frjálslyndi er ekki alræði, heldur vísindalegar framfarir og uppfærslan í Homo deus. Hvert sækir mannfólk þá gildi sín og tilgang? Hvað gera þau, sem öðlast guðlega eiginleika og eilíft líf, við endalausu ár lífs síns þegar búið er að uppgötva allt?

Harari leggur fram þrjár spurningar í lok bókar sinnar:

  1. Eru lífverur í raun og veru bara algóriþmar og lífið bara úrvinnsla gagna?

  2. Hvort skiptir meira máli - greind eða meðvitund? 

  3. Hvernig fer fyrir samfélaginu, stjórnmálum og daglegu lífi þegar ómeðvitaðir en ofurgreindir algóriþmar þekkja okkur betur en við þekkjum okkur sjálf?


Tilvísanir

  1. Megan Gannon. (27. desember 2017) „China’s First Emperor Ordered Official Search for Immortality Elixir.“ LiveScience.

  2. Alejandra Martins and Paul Rincon. (12. júní 2014) „Paraplegic in robotic suit kicks off World Cup.“ BBC

  3.  Sean Martin. (20. mars 2017) „Secret of ETERNAL LIFE? We will know what it is by 2029, says Google chief.“ Express