VHS situr fyrir svörum

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Uppistandshópurinn VHS hefur vakið mikla athygli á síðustu árum. Hópurinn samanstendur af Vilhelm Neto, Stefáni Ingvari Vigfússyni, Hákoni Erni Helgasyni og Vigdísi Hafliðadóttur.

Fyrsti vísirinn að hópnum varð þegar Vilhelm og Stefán fluttu sýninguna Endurmenntun árið 2019. Sýningin varð til í kjölfar samstarfs uppistandshópsins Fyndnustu Mínar við Vilhelm og Stefán. Fyndnustu Mínar samanstendur af Lóu Björk Björnsdóttur, Rebecca Scott Lord, Heklu Elísabetu Aðalsteinsdóttur og Sölku Gullbrá Þórarinsdóttur.  

„Hákon kynnti þá sýningu og var með tvö fimm mínútna löng sett,“ segir Stefán.

„Af hverju heyrðuð þið í mér?“ spyr Hákon.

„Við hugsuðum að þú værir ódýr og hlýðinn,“ svarar Stefán.

Vinsældir sýningarinnar jukust og skömmu seinna voru þeir þrír á leiðinni norður til Akureyrar. Sýningin var flutt á Akureyri og einnig í Frystiklefanum á Rifi. Í bílferðinni norður slógu þeir til og stofnuðu formlegan hóp.

„Síðan gerðum við sýninguna VHS biðst forláts, sumarið 2020. Þá er Vigdís nýbúin að vinna Fyndnasta Háskólanemann,“ segir Stefán.

„Um leið og hún gekk af sviðinu ákváðum við að bjóða henni að vera með,“ bætir Hákon við.

 

Heimspekilegt grín

Grínistarnir fjórir hafa allir svipaðan bakgrunn. Stefán og Hákon hafa numið sviðshöfundanám í LHÍ, Vilhelm menntaður í leiklist og Vigdís hefur reynslu af leiklist og tónlist, ásamt því að hafa nýverið lokið BA gráðu í heimspeki. Einnig eiga þau það sameiginlegt að hafa öll verið virk í sviðslistum í menntaskóla. 

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

„[Heimspekin] veitir mikinn innblástur. Ég er með ýmsa brandara um heimspeki til dæmis. Þetta er mjög skapandi nám. Mér finnst eins og þetta sé listnám hugvísindanna að einhverju leyti,“ segir Vigdís.

„Það er líka svo mikil heimspeki í gríni. Það er hægt að velta sér svo mikið upp úr alls konar pælingum,“ svarar Vilhelm.

„Ég er búinn að temja mér það viðhorf að mér finnst grín, uppistand sérstaklega, vera rökræður við áhorfendur. Maður kemur inn með einhverja hugmynd og það gengur út á að sannfæra áhorfendur um að þessi hugmynd sé fyndin,“ segir Stefán.

„Ég held að þegar Aristóteles og Plató hafi verið að spjalla þá hafi allir verið að deyja úr hlátri,“ segir Hákon.

 

„Uppistand er hræðileg tilhugsun“

Íslenska uppistandssenan hefur verið sterk síðustu ár. En hvernig ætli sú hugmynd komi upp að demba sér í uppistandsgeirann?

 „Fyrir mér sprettur þetta upp úr gömlum draumi að komast inn í þetta. Fyndnustu Mínar voru innblástur í því. Þær byrja 2018 og eru fljótar að stimpla sig inn sem eitthvað afl. Jakob Birgisson líka að einhverju leyti. Maður sá að það var hægt að koma sér inn í þetta,“ segir Stefán.

„Ég man eftir því að það var keppni í MH sem hét Fyndnasti MH-ingurinn sem ég ætlaði alltaf að taka þátt í. En ég þorði því ekki. Svo buðu strákarnir mér að kynna sýninguna sína og þá fann ég að það var komið að því og ákvað að slá til,“ segir Hákon. 

Vigdís skýtur inn í: „Uppistand er svo hræðileg tilhugsun“

„Eftir leiklistarnámið þá hefur erfiðasta reynslan uppi á sviði ekki verið að leika Shakespeare eða flytja erfiðan mónólog að mínu mati. Uppistandið er erfiðast. Sem lætur mig bera svo mikla virðingu fyrir starfsgreininni. Þegar maður fattar að uppistand sé það sem stressar mann mest þegar maður fer upp á svið, þá hugsar maður að það hljóti að vera eitthvað mjög sterkt þarna, listrænt séð,“ segir Vilhelm og bætir við:

„Þetta er líka bara tafarlaus endurgjöf! Í uppistandi þá ferðu upp á svið, segir brandarann og ef þú færð ekki hláturinn strax, þá virkar hann ekki.“ 

„Og svo þarftu bara að halda áfram!“ Svarar Vigdís.

Stefán heldur þræðinum áfram: „Fyrir mér er settið bara fyrstu þrjátíu sekúndurnar. Ef ég kem inn og fæ ekki hlátur á fyrsta brandarann þá er ég kominn í holu. Svo er ég næstu tuttugu mínúturnar að reyna að komast upp úr þessari holu. Maður labbar inn á svið og það eru 200 manns að horfa á mann og ég þarf að sannfæra þau strax um að ég sé fyndinn. Sem er eftirsóknarverðasti eiginleiki einstaklinga. Það vilja allir vera fyndnir.“

Mynd / Sædís Harpa Stefándóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefándóttir

Grínið er óútreiknanlegt

Hvernig vinnið þið að sýningunum ykkar?

„Við settum okkur reglu strax að um leið og sýning er búin, eins og t.d. VHS biðst forláts, þá hættum við að segja þá brandara á sýningum. Við notum þá við önnur tilefni, eins og einkapartý,“ segir Stefán mér.

„Það er alltaf krafist að maður skrifi nýja brandara. Þetta er ekki eins og gott lag sem maður skrifar, sem er alltaf gott. Það er einn galli grínsins. Brandari er bara fyndinn í ákveðinn langan tíma,“ segir Vilhelm og bætir við: „Margir af mínum bestu bröndurum koma 30 sekúndum áður en ég fer á svið. Ég er búinn að skrifa 50% af nýja settinu mínu á ganginum baksviðs á tilraunasýningum. Og það eru brandarar sem virka best.“

 „Þetta er eitthvað tært og lifandi. Ég reyni allavega alltaf að hafa svolítið flæði. Að þetta sé sett en ekki ég að segja nokkra brandara. Ég er með ákveðinn frásagnarstíl og sæki innblástur aðallega úr mínu eigin lífi. Persónuleika minn og bresti. Sé húmorinn í því. Við erum mjög ólík innan þessa hóps. Það er mjög gaman,“ segir Vigdís.

„Á fyrstu þremur sýningunum mínum skrifaði ég mjög langt sett. Ég fékk fínn hlátur á það og hugsaði að þetta væri besta settið mitt hingað til. Svo prófaði ég brandara sem mér datt í hug sama dag og hann var miklu fyndnara en efnið sem ég hafði eytt klukkutímum í að pæla í. Það er svo fyndið hvað maður getur ekki reiknað þetta út. Þetta er ekki Excel skjal,” segir Hákon.


VHS heldur tilraunasýningar á nýju efni 2. og 5. apríl næstkomandi í Tjarnarbíó. Ný sýning VHS verður frumsýnd í haust.