Útgáfustörf á nýjum tímum

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Með framtíðina að leiðarljósi í þessu blaði er tilvalið að líta til bókaútgáfunnar þar sem landslagið er síbreytilegt. Blaðamaður Stúdentablaðsins settist því niður með Guðrúnu Vilmundardóttur, stofnanda og útgáfustjóra bókaútgáfunnar Benedikts, til að ræða bókmenntir nýrra tíma og hvað framtíðin gæti borið í skauti sér. 

Guðrún stofnaði Benedikt bókaútgáfu árið 2016 en forlagið setti sér það markmið að gefa út fjölbreyttar og vandaðar bækur þar sem rík áhersla er lögð á sambandið á milli útgefenda og höfunda. 


Hinn íslenski bókamarkaður 

Bókmenntaflóran hér á landi hefur tekið breytingum undanfarin ár, þá kannski sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla, fleiri forlaga og aukinni áherslu á vandaðar þýðingar. Aðspurð segist Guðrún fagna þeirri stefnu að erlendar bókmenntir eigi greiðari leið að íslenskum lesendum: ,,Það er rosalega flott fyrir markaðinn okkar að geta boðið upp á mikið og gott úrval af þýðingum, maður óttast stundum að þær eigi á brattann að sækja en mörg af þessum ný forlög leggja ríka áherslu á flottar þýðingar.“ Nefnir hún þar á meðal bókaseríu Angústúru þar sem athygli er beint að kvenkynshöfundum frá fjarlægum löndum. Þá segist Guðrún hafa tekið eftir aukinni áherslu á ,,narrative nonfiction“, sem eru í raun eins konar fræðibækur sem lesast eins og skáldsögur, og nefnir til að mynda Álabókina eftir Patrik Svensson. Segir hún einnig ,,kósýkrimma“ vera vinsælan stíl nú á dögum meðal útgefenda frá hinum ýmsu stöðum í heiminum. ,,Eitthvað svona létt og þægilegt, virkar eins og spennandi glæpasaga en er ekki of óhugguleg eða erfið – það er nóg af því í heiminum þessa dagana.“ Guðrún segir bókina hafa átt í síaukinni samkeppni um frítíma fólks á síðustu árum en undanfarið hefur bóksala færst í aukana á ný. ,,Fólk hefur meiri tíma og vill komast frá raunveruleikanum með því að lesa og horfa – auðga andann.“ 

Sama ár og Guðrún stofnaði Benedikt, birtust fleiri ný forlög á sjónarsviðinu. ,,Forlagið og Bjartur & Veröld voru langstærstu útgáfufyrirtækin og tilfinningin var að markaðurinn væri orðinn mettur, það væri kominn tími á að opna gluggann.“ Hún segir það að ólíkir aðilar hafi fengið þessa sömu hugmynd á sama tíma sýni að pláss hafi verið fyrir eitthvað nýtt, fleiri valkosti, í útgáfuheiminn. ,,Það eru kostir og gallar við að vera stórveldi, og sömuleiðis við að hafa allt á einni hendi,“ segir Guðrún. ,,Maður verður bara að passa að taka ekki of mikið að sér þegar fyrirtækið er ekki stærri maskína en þetta. En það eru ótvíræðir kostir við að hafa alla þræði í hendi sér.“ Hún segir það skemmtilegt að vera í svo fjölbreyttu starfi: ,,Það er ekki hægt að lesa af fullri einbeitingu allan daginn eða ritstýra af viti, þá er gott að geta vippað sér yfir í að vera markaðsdeildin, nú eða setja bókaklúbbsbækur í umslög, og rölta jafnvel með netsölubók, ef það er í göngufæri,“ segir Guðrún og talar um að ,,hvíla jörðina.“

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Áhrif smærri forlaga

Guðrún segir fjölgun smærri bókaútgáfa hafa jákvæð áhrif á framboð og fjölbreytni fyrir markaðinn. ,,Örforlög eru stórkostleg,“ segir Guðrún. ,,Þeim mun fleiri útgefendur sem standa höfundum til boða því betra.“ 

Aðspurð hvort höfundar finni jákvæðan mun á því að vinna með minni forlögum segist Guðrún vona það: ,,Mér finnst það vera fúttið í þessu, það er það skemmtilegasta við starfið: Sambandið við höfund og vinna við ný verk. Svo auðvitað leggur maður mestu áhersluna á þann hátt starfsins. Það er það sem maður vill hafa upp á að bjóða.“ Margt fylgir því að gefa út verk, allt frá yfirlestri og ritstjórn til markaðssetningar, og er því mikilvægt að gott samkomulag myndist á milli útgefanda og höfundar. 

Erlendar þýðingar

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Þegar Guðrún er spurð hvernig verklagið sé þegar kemur að því að velja hvaða bækur þau vilji þýða segir hún það vera ,,frjálst flæði.“ En Benedikt stendur fyrir bókaklúbbnum Sólinni þar sem áskrifendur fá vandaðar þýðingar sendar beint heim að dyrum. ,,Við einfaldlega veljum í klúbbinn bækur sem heilla okkur upp úr skónum og okkur langar að kynna fyrir lesendum. Það er engin ein stefna í gangi.“ Guðrún segist vera áskrifandi að fjölda tímarita og í sambandi við ótal útgefendur og umboðsmenn og lesa mikið, ,,en rosalega oft kannski bara fyrstu 50 síðurnar til að sjá hvort þetta henti okkur eða ekki.“ Hún fylgist með erlendum útgáfum, ,,maður á sín uppáhöld; ef


við erum með fleiri en einn sameiginlegan höfund þá er líklegt að þeir gætu verið enn fleiri, að við séum á sömu bylgjulengd. Þannig höfum við stundum upp á nýjum höfundum til að þýða á íslensku.“



Samfélagsmiðlar og bókaútgáfa

Guðrún segir sjálfsútgáfu auðveldari þessa dagana og að með tilkomu samfélagsmiðla sé fólk að ná til sinna hringja sem gott sé fyrir smærri upplög. Aðspurð um hvort að samfélagsmiðlar hafi áhrif á markaðssetningu svarar hún játandi en segist enn notast við hefðbundnari auglýsingamiðla. ,,Sú var tíð að hægt var að birta heilsíðuauglýsingu í dagblaði og vera þokkalega viss um að öll þjóðin sæi hana.“ Í dag er þetta hins vegar aðeins flóknara, ,,til að ná til stærri hópa notum við bæði auglýsingar á samfélagsmiðlum og svo meira gamaldags auglýsingaleiðir.“

Markaðssetning bóka á alþjóðlegum vettvangi hefur iðulega farið fram á bókamessum sem haldnar eru tvisvar á ári, annars vegar í London á vorin og hins vegar á haustin í Frankfurt. Þar kynna umboðsmenn bækur fyrir útgefendum. ,,En svo er það þetta með að hitta bara á hlaupum fólk sem maður þekkir – þar fær maður  fréttirnar. Ef tveir eða þrír aðilar nefna sömu bókina við þig einn daginn þá er það absalút eitthvað til að skoða.“ En í ljósi heimsfaraldurs er spurning hvað verður um slíkar messur og hvernig samskiptin munu breytast. 

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Að lokum er Guðrún spurð hvað sé á döfinni hjá Benedikt og segir hún þau vera að undirbúa sig fyrir aðsend verk: ,,Við fáum mikið inn af nýjum handritum á þessum árstíma,“ segir Guðrún bætir við að það sé ákveðin vika í febrúar þegar daginn er tekið að lengja almennilega, sem flest handrit streymi inn til þeirra. ,,Þannig að við erum eiginlega bara í startholunum núna að undirbúa okkur fyrir þetta.“ Það er því margt að hlakka til í heimi bókaútgáfunnar.