Horft yfir 2021: Hvað vitum við mikið um samfélagsmiðla?

Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir og Jóhannes Bjarki Bjarkason

Ég vil taka það fram að eins og við vitum öll stendur heimurinn í ljósum logum. Þú veist að einhvers staðar þarna úti er vírus og þó þú getir ekki beint skilið það til fulls veistu líka að téður vírus hefur ferðast meira síðasta árið en nokkurt okkar mun nokkurn tíma gera. Þú veist líka að það er bóluefni fyrir vírusnum, fjarlægt loforð um að á endanum sé hægt að snúa aftur í fyrra horf, sem virðist vera dreift á svipuðum hraða og daginn fer að lengja, hræðilega hægt. Þú veist líka, jafnvel þó það sé ekki alltaf augljóst að þú vitir það, að þarna úti er heimurinn stærri en Ísland. Og jafnvel þó þú vitir að Ísland stendur sig vel akkúrat núna veistu líka, þó þú þykist stundum ekki gera það, að allt sem gerist í þessum stóra heimi hefur áhrif á það sem gerist á Íslandi.

Og það leiðir mig að þessu: Veistu hvað er að gerast þarna úti? Auðvitað veistu það, vegna þess að í þessum alvitra heimi er ómögulegt að vera ótengdur, eins og þú þekkir vel. Og eins og allir aðrir sem eru fastir heima hjá sér veistu að allra besta leiðin til þess að halda tengingu er að gera það í gegnum samfélagsmiðla. En þú veist líka að um leið og þú hefur meðtekið eitthvað í fjölmiðlum (og þá gerum við ráð fyrir að samfélagsmiðlar spili ekki stórt hlutverk í því að láta þig vita af nýjustu framvindum í heimsmálunum) þarftu að koma frá þér þinni skoðun á málunum. Ég býst við því að þú vitir að besta leiðin til að fá því fram er að tjá þig á einum eða fleiri af þeim óteljandi samfélagsmiðlum sem eru í boði í dag.

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Ég ætla ekki að fara að telja upp jákvæð eða neikvæð áhrif samfélagsmiðla, þú þekkir þau jafn vel og ég. Ef ekki muntu gera það fyrr en seinna. En burtséð frá kostum og göllum hefur okkur yfirsést ein lykilhlið samfélagsins, hlið sem ég geri fastlega ráð fyrir að flest ykkar þekki, þótt þið vilduð helst ekki gera það. Þú veist að samfélagsmiðlar þrífast (sem er pen leið til að segja „græða“) á auglýsingum. Og þú veist að auglýsingar nærast (sem er pen leið til að segja „byggja tilvist sína“) á þátttöku notenda. Því meira sem þú tengist fólki í gegnum  vettvanginn þinn, þeim mun meiri áhuga munu auglýsendur hafa á þér. Þetta er áhugavert vegna þess að þetta viðskiptalíkan breytir undirstöðuatriðum þess sem samfélagsmiðlar eiga að tákna. Ef lokamarkmið samfélagsmiðils er að virkja þig (sem er pen leið til að segja „ráðskast með þig til að nota vettvanginn sinn“) þá er það ekki lengur verkfærið sem það segist vera. 

Verkfæri er hlutur, eins og þú veist, sem bíður eftir því að uppfylla notagildi sitt. En ef samfélagsmiðlar eru stöðugt að keppast um athygli þína þá hætta þeir að vera verkfæri. Við þekkjum skelfilegu sögurnar af algrími samfélagsmiðla, hverra tilgangur er að fá okkur til nota þá aftur á kostnað tilfinningalegrar, líkamlegrar og andlegrar velferðar. Tilgangur algrímsins er að skrásetja, taka saman og greina atferli okkar í gegnum fágaða gagnasöfnun. Með öðrum orðum þá lærir það á okkur þangað til það þekkir okkur betur en foreldrar okkar. Samfélagsmiðlafyrirtækin hagnast gríðarlega á þessum gögnum þar sem þau gera þeim kleift að velja efni sem er sérstaklega sniðið að okkur. Það leyfir þeim að ýta að okkur færslum og fréttum um heiminn, um vini okkar og í raun hvað sem er sem heldur okkur virkum. Með „að halda okkur virkum“ meina ég að „kasta öllu til þín svo þú haldir áfram að nota miðilinn.“ Í eyrum margra hljómar þetta eins og eitthvað sem við vitum nú þegar eða höfum þegar heyrt af. Ef sú er raunin veldur það meiri áhyggjum. Spyrjið ykkur: Ef þið vitið þetta nú þegar, hafið þið pælt í því hvað þetta raunverulega þýðir?

Ég veit að flestum finnast tillögur og auglýsingar samfélagsmiðla pirrandi og truflandi, þangað til þær eru það ekki. Stundum dulbúa þessar tillögur sig sem tilkynningar, stöðuuppfærslur um vini okkar og fjölskyldumeðlimi. Við erum öll vöktuð - hér notað sem gott, hlutlaust orð sem felur uggandi sannleika þess að gögnin okkar eru skoðuð, rannsökuð og skrásett - til þess að gögnin geti verið nýtt í útbúa notanda sem seinna er misnotaður í hagnaðarskyni. Þetta hljómar kannski ekki illa en þú veist að samfélagsmiðlar þjóna ekki alltaf hagsmunum okkar. Spyrjið ykkur: Hvað gerist þegar samfélagsmiðlar fara að minna ykkur á fólk sem þið viljið ekki heyra af, til dæmis fyrrverandi maka, eða á einkamál sem hafa áhrif á andlega velferð? Hvað ef fréttaveitan þín er stöðugt að ýta að þér einhæfum upplýsingum sem algrímið mat að hentaði þér, þinni skoðun og þinni notandasíðu? Þú veist að þetta getur skaðað tilfinningar og öfgavætt skoðanir og þú veist vel að þetta getur ollið sundrungu. Þú veist þetta, ég veit þetta, við vitum þetta öll. Af hverju tölum við þá ekki meira um þetta? Af hverju gerum við samfélagsmiðlafyrirtæki ekki ábyrg fyrir andlegum lægðum eða skoðunum sem verða svo róttækar að möguleikinn á skoðanaskiptum er horfinn? 

Þú hlýtur að vera hugsa, eins og ég, að já, heimurinn er orðinn fljótari að benda á ábyrgð samfélagsmiðlafyrirtækja á fjölmörgum samfélagslegum vandamálum. Samt sem áður held ég að við skiljum ekki enn hvernig samfélagsmiðlað eru og halda áfram að móta heiminn. Á þessum tímum útgöngubanna og heimsfaraldurs ættum við að hugsa um allt sem við vitum um samfélagsmiðla, sem er enn því miður ekki nóg.

LífstíllKevin Niezen