Ber er hver að baki nema sér fulltrúa eigi: Viðtal við Jóhönnu Ásgeirsdóttur

Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir

Í þessu blaði vorum við svo heppin að fá að ræða við Jóhönnu Ásgeirsdóttur, forseta Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS). Hún sagði okkur frá hlutverki sínu í samtökunum, verkefnum og markmiðum þeirra og hvernig samtökin hafa þróast í hennar starfstíð.

Mynd / Aðsend

Mynd / Aðsend

Í hverju felst starf þitt sem forseti LÍS? Hverjar eru helstu skyldur þínar?

Forseti LÍS er eins konar verkefnisstjóri samtakanna, ég sé um að við höldum réttri stefnu í öllum okkar verkefnum. Mitt hlutverk felst einnig í því að þekkja sögu samtakanna og vera með skýra sýn á næstu skref. Í stefnu samtakanna eru langtímamarkmið okkar sem við vinnum að með þeim verkefnum sem við tökumst á við, en oft fela þau í sér þrýsting á stjórnvöld, háskóla eða Menntasjóðinn. Ýmsar leiðir eru þó til þess að hafa áhrif og það gerum við m.a. með því að halda fyrirlestra eða vinnusmiðjur ætlaðar því að fræða og valdefla nemendur. Við reynum líka að virkja aðra hagsmunaaðila háskólastigsins, deila með þeim sýn stúdenta og mikilvægi þess að stúdentar taki þátt í umræðunni.


Hvernig geta stúdentar tekið meiri þátt í ákvarðanatöku?

Þau sem koma að ákvarðanatöku í háskólum þurfa að virkja stúdenta og leitast eftir því að rödd þeirra heyrist, því margar hindranir eru oft milli stúdenta og þeirra sem ráða. Í HÍ er mikil menning fyrir því að stúdentar taki virkan þátt, en aðrir minni og/eða yngri háskólar eiga oft erfitt með að virkja nemendur í nefndir, þar sem það er ólaunuð vinna sem þeim finnst ef til vill ekki koma þeim við. Samfella milli ára skiptir líka miklu máli en hvert ár koma inn nýir nemendur sem þarf að þjálfa og styðja við til þess að varðveita þá vitneskju og reynslu sem er þegar komin. Mér finnst að stúdentar sem eru í valdastöðum ættu að leita að, styrkja og búa til pláss fyrir samnemendur sína sem hafa ekki tíma, orku, né reynslu til þess að taka þátt. Einnig ættu þeir að krefjast þess að háskólar umbuni nemendum fyrir vinnuna. 



Stefnumál ykkar má nálgast á heimasíðu ykkar en þar eru þau einungis á íslensku. Myndirðu segja að LÍS fagni alþjóðavæðingu háskólastigsins? Hvaða skref eruð þið að taka til þess að tryggja að allir nemendur, af öllum upprunum, viti hvað LÍS stendur fyrir?

Við reynum að hafa megnið af því sem við gerum á ensku en skortir stundum samkvæmni. Samfélagsmiðlarnir okkar eru bæði á íslensku og ensku og við stefnum á að yfirfara og bæta ensku hlið heimasíðunnar. Undanfarið hafa fleiri alþjóðanemar sýnt áhuga á að taka þátt í starfi okkar; margar af nefndum samtakanna eru nú starfræktar bæði á íslensku og ensku. Við erum að vinna að nýju verklagi varðandi tungumálanotkun í samtökunum, lög samtakanna verða að vera á íslensku en við erum að reyna að gera allt eins aðgengilegt og hægt er. Tungumál virðist vera megin viðfangsefni alþjóðavæðingar á Íslandi, en við áttum okkur auðvitað á því að einnig búa margir aðrir þættir að baki. Mikið af því sem við gerum snýr að því að stuðla að alþjóðavæðingu á háskólastigi á Íslandi. Um daginn tókum við þátt í ráðstefnu á vegum Ráðgjafarnefndar Gæðaráðs þar sem meginefnið sneri að því hvernig alþjóðavæðing stuðlar að gæðum. Reynsla okkar af rekstri verkefnisins Student Refugees Iceland bendir til þess að margar hindranir séu í vegi þeirra sem koma frá öðrum löndum og þeirra sem tala ekki íslensku, varðandi það að nálgast æðri menntun á Íslandi. Við verðum að styðja við og búa til pláss fyrir alþjóðanema á Íslandi til þess að hrinda af stað mikilvægum breytingum.

Að lokum, hvaða hlið af LÍS mætti bæta að þínu mati? Og hvaða markmiðum hafa samtökin náð? 

LÍS hefur stækkað mikið síðustu þrjú ár frá því að ég byrjaði í samtökunum, og hefur með því vaxið upp úr fjárhagsáætlun sinni. Við berjumst fyrir velferð, góðu jafnvægi milli vinnu og einkalífs, og því að stúdentar fái greitt fyrir sín störf en á sama tíma eru flestir þeirra sem starfa fyrir LÍS sjálfboðaliðar. Ég myndi vilja sjá allt framtíðarstarfsfólk LÍS fá greitt fyrir sín störf. Bara það að LÍS sé til og sé með fjárráð er sigur út af fyrir sig en það eru einhver markmið sem LÍS hefur náð. Áður snérust markmið okkar að þróun samtakanna, að móta stefnur og verklag. Nú ganga hlutirnir mjög snurðulaust fyrir sig og við getum einbeitt okkur að því að bregðast við aðstæðum þegar þær koma upp, sem hefur verið raunveruleikinn í COVID. LÍS voru í virku samráði við stjórnvöld um stuðning við stúdenta í upphafi faraldursins, og þó að ekki öllum kröfum hafi verið mætt voru háskólar og Menntasjóðurinn að mestu sveigjanleg við námsmat, styrkir voru auknir og störf sköpuð. Annað uppfyllt markmið sem ber að nefna er að fyrrum meðlimir samtakanna tóku þátt í að móta nýjan lánasjóð, Menntasjóð íslenskra námsmanna. Stúdentar höfðu fyrir það lengi krafist nýs styrkjakerfis sem átti að byggja á kerfinu í Noregi. Og nú er það okkar! Stuttu eftir að núverandi menntamálaráðherra tók við lagði LÍS til að samin yrði sameiginleg stefna í menntamálum, við getum ekki eignað okkur heiðurinn af því að hafa skrifað hana en hún er nú á dagskrá hjá Alþingi. Sífellt fleiri stúdentar leita til okkar með persónuleg mál tengd þeirra deildum eða lánasjóðnum og við reynum eftir bestu getu að leysa þau. Þannig sjáum við að einhverjir vita af okkur en við getum örugglega gert betur í þeim málum og látið stúdenta vita að við séum hér til þess að berjast fyrir þá. Heyrið í okkur með ykkar baráttumál, við munum leggja okkur öll fram við að hjálpa!

Ef þú vilt læra meira um LÍS geturðu kíkt á heimasíðu þeirra:
https://studentar.is/

HáskólinnKevin Niezen