Alþjóðlegi jafnréttisskólinn: Viðtal við Kalevera Imungu
Alþjóðlegi jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Skólinn býður upp á þverfaglegt nám sem stuðlar að jafnrétti kynjanna og samfélagslegu réttlæti á átakasvæðum sem og svæðum þar sem þörf er á að koma á stöðugu ástandi í kjölfar átaka. Skólinn er hluti af GRÓ – þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, en undir GRÓ falla einnig Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn. Nám við Alþjóðlega jafnréttisskólann er sex mánaða diplómanám á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum, og skólinn veitir einnig styrki til doktorsnáms. Alls hafa 152 nemendur frá 25 löndum útskrifast frá skólanum síðan hann var stofnaður fyrir 12 árum.
Hefur alltaf haft áhuga á kvenréttindum og jafnréttismálum
Kalevera Imungu er ein þeirra sem stunda nám við Alþjóðlega jafnréttisskólann. Hún er með gráðu í lífefnafræði frá Kenyatta háskóla en segist alltaf hafa haft áhuga á kvenréttindum og jafnréttismálum, og hefur starfað í málefnum kvenréttinda eftir útskrift. Hún hóf störf hjá Akili Dada sem stuðlar að leiðtogahæfni ungra afrískra kvenna. Seinna vann hún hjá Femnet, sam-afrískum samtökum sem vann á þeim tíma fyrst og fremst að efnahagslegu jafnrétti, ásamt mörgum fleiri mikilvægum málefnum s.s. fjármögnun femínískra verkefna og aðgengi að öruggum fóstureyðingum. Femnet tók fyrir mál heimsálfunnar allrar og viðfangsefnin voru því æði mörg frá sjónarhorni kvenréttinda.
Mikilvægt að skoða fríverslunarsamning Afríkubandalagsins út frá öllum sjónarhornum
Lokaverkefni Kalevera við Alþjóðlega jafnréttisskólann mun fjalla ítarlega um fríverslunarsamning Afríkubandalagsins (AfCFTA). Hún mun skoða hvernig stefnan geti betur tekið tillit til sjónarmiða kvenna, aðallega í Kenía, sem eiga viðskipti þvert á landamæri. Hún segir að skoða þurfi betur öryggi kvenna í aðstæðum sem þessum og passa upp á lítil fyrirtæki og smásala. Á landamærum geti myndast aðstæður þar sem spilling og kynferðisleg misnotkun á sér stað. Þá er stefnan lituð af sjónarmiðum nýfrjálshyggju sem er í grunninn andfemínísk og gengur á móti grunnstoðum femínisma. Þá segir Kalevera að líta þurfti til allra þeirra sem komi að viðskiptastefnunni, ekki einungis sjónarmiða stórra býla og verksmiðja heldur einnig kvenna sem einstaklinga. Henni finnst mikilvægt að vinna að efnahagslegu jafnrétti og segir að þeir sem hafa þær valdastöður séu oft menn sem byggja vinnu sína á þeim misskilningi að þeir séu þeir einu sem hafi þekkingu á efnahagslegri stefnumótun. Sá hópur sé langt því frá sá eini sem hafi getu til þess, hver sá sem hefur áhuga á efnahagslegu jafnrétti og stefnumótun geti frætt sig frekar, skrifað um það og haft áhrif á stefnumótunina. Kalevera hefur hugsað sér að útkoma lokaverkefnisins verði eins konar leiðarvísir sem borgaraleg samfélög geti haft innan handar við stefnumótun og gerð áætlana og leiðbeininga um efnahagslegt jafnrétti. Það myndi auka skilning á hvað gengur vel, hvað má bæta, og hvernig núverandi verslunar- og viðskiptasamningur hefur áhrif á konur sem eiga viðskipti þvert á landamæri.
Góður andi í skólanum
Kalevera er sátt með kennslu og störf Alþjóðlega jafnréttisskólans en myndi vilja sjá fleiri nemendur hefja nám við skólann á komandi misserum. Einnig stingur hún upp á því að hægt væri að bjóða upp á sama nám sem mastersgráðu þannig að nemendur hafi val um hvort þeir vilji taka diplóma eða master. Hún segist vera mjög ánægð með kennara við skólann, þeir séu á heimsmælikvarða í sínu fagi. Að sögn Kalevera er góður andi innan Alþjóðlega jafnréttisskólans og þá sérstaklega meðal nemenda sem hafa myndað sterk og samheldin tengsl sín á milli. Nemendurnir koma frá mörgum mismunandi löndum og kynnast þar af leiðandi kynjatengslum innan hvers lands fyrir sig og mismunandi menningum í gegnum samnemendur sína. Hún segir mörg löndin glíma við sömu áskorarnir, bara í mismunandi samhengi.
Má bæta gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags
Kalevera segist njóta þess að búa á Íslandi en það megi bæta gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags, þá sérstaklega þegar kemur að tungumálinu, bæði innan stofnana og um landið allt. Þá segir Kalevera að þar sem fleira og fleira fólk flytjist til Íslands með ári hverju og kjósi að búa hér mættu yfirvöld íhuga það hvernig auðvelda megi gagnkvæma aðlögun. Finna þurfi leiðir til að auðvelda innflytjendum að skapa sér tengsl og festa rætur á Íslandi, og svo hvernig megi undirbúa Íslendinga fyrir því að taka á móti fólki af erlendu bergi brotið með opnum hug.