Gulleggið: Stökkpallur fyrir frumkvöðla

Mynd: gulleggid.is

Gulleggið er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin hefur verið af Icelandic Startups síðan 2008. Gulleggið er stærsta keppni sinnar tegundar á landinu og eru árlega sendar inn yfir 200 viðskiptahugmyndir. Gulleggið hefur nú verið flutt af hausti og fram í janúar og samhliða því verða talsverðar breytingar gerðar á keppninni. 

Áfram verður lögð rík áhersla á að þetta sé hugmyndakeppni og keppendur mega ekki hafa tekið inn fjármagn umfram 2 milljónir króna. Þeir mega heldur ekki hafa tekjur af hugmyndinni nú þegar. Auk þess hefur verið fallið frá kröfu um tengsl við háskólana og því er Gulleggið opið öllum í fyrsta sinn.

Frítt er að senda hugmynd í keppnina og að skrá teymi til þátttöku og það er opið fyrir skráningu út 13. janúar. Vinnusmiðjur fyrir alla þátttakendur fara svo fram helgina 15.-16. janúar.  Fjöldi reyndra frumkvöðla og sérfræðinga munu taka þátt í vinnusmiðjunum og þar munu keppendur læra að móta hugmyndina og búa til svokallað „pitch deck“ eða stutta glærukynningu sem tekur á öllum þáttum hugmyndarinnar. 

Í kjölfarið senda keppendur kynningar sínar inn og fjölskipuð dómefnd mun velja 10 bestu kynningarnar. Þeim hópi verður síðan boðið aftur í kraftmikla vinnuhelgi sem fer fram helgina 29.-30. janúar og eftir hana eiga keppendur að vera tilbúnir til að standa uppi á sviði og kynna hugmyndina af öryggi. Lokakeppnin verður opin öllum og fer fram í Grósku þann 4. febrúar. Til mikils er að vinna, Landsbankinn veitir aðalverðlaunin sem eru 1 milljón króna, utan fjölda aukaverðlauna.  

Gulleggið hefur verið haldið frá árinu 2008 og hafa borist yfir 3000 hugmyndir í keppnina síðan þá. Af þeim hafa 140 hugmyndir komist í topp 10 og keppt í úrslitum. Gulleggið veitir frumkvöðlum aðstoð við mótun hugmynda sinna og hefur keppnin það hlutverk að koma hugmyndunum í framkvæmd. Einnig er hægt að sækja um þátttöku í Gullegginu án hugmyndar, en þá er þeim sem senda inn hugmynd í Gulleggið fenginn listi yfir skráða einstaklinga án hugmyndar, og eiga teymin því kost á því að tengjast saman í fyrstu vinnusmiðju keppninnar.

Árlega skipar verkefnastjórn Gulleggsins um tólf háskólanemendur í hóp eitt ár í senn. Nemendurnir sem skipaðir eru í hópinn eru meðlimir nýsköpunar- og frumkvöðlanefnda Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Hópurinn tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum Icelandic Startups út skólaárið og sér að miklu leyti um framkvæmd keppninnar undir handleiðslu verkefnastjóra Icelandic Startups. 

Margar hugmyndir hafa þróast mikið síðan þær tóku þátt í Gullegginu og má þar nefna Meniga, Controlant, Videntifier og GeoSilica sem nokkur dæmi um slíkt.

Vinningshafar Gulleggsins árið 2020 var HEIMA app. HEIMA er skipulagsforrit heimilisins sem sér um verkaskiptingu og hugræna byrði heimilisins þar sem að notendur appsins geta skipt með sér heimilis- og húsverkum á auðveldan hátt. HEIMA smáforritið er enn í vinnslu og er væntanlegt bráðlega. Í öðru sæti var Hemp Pack sem er sprotafyrirtæki sem framleiðir niðurbrjótanlega trjákvoðu (resin) sem kemur í stað plasts. Í þriðja sæti var Frosti Skyr sem er frostþurrkað og laktósafrítt skyr. Þá er skyrflögum blandað út í vatn og hrært saman. Þannig fæst sama áferð og áður en Frosti Skyr geymist mun lengur en hefðbundið skyr og er að auki án nokkurra rotvarnarefna. Öll þessi verkefni hafa haldið þróun sinni áfram á einn eða annan hátt, HEIMA app tók þátt í Pinc Capital í Malmö í október en Pinc Capital er norrænn fjárfestingafundur kvenna. Hemp Pack kynnti sitt verkefni á fjárfestadegi Hringiðu fyrr á árinu, þar sem 7 sprotafyrirtæki á sviði hringrásarhagkerfisins kynntu verkefni sín. Frosti Skyr fer á markað í Evrópu á næsta ári og hófu stofnendur Frosta Skyr nýlega samstarf við Nestlé við vöruþróun skyrsins.