Uppskriftahornið: Lúsíukettir

Jólin nálgast óðum og þá leitar hugurinn oft heim til fjölskyldu og vina. Jólahefðir á borð við bakstur og skreytingar geta oft fært okkur nær þeim ástvinum sem erum okkur fjarri og geta þar að auki reynst okkur góð leið til að kynnast nýrri matarmenningu og nýjum hefðum. 

Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti norska skiptinemann Ingvild Reed og fékk að spjalla við hana um norskar jólahefðir og matarmenningu. Ingvild deildi með okkur uppáhaldsjólauppskriftinni sinni og sagði okkur aðeins frá sögunni á bak við hana.

Lúsíuhefðin er líklega stærst í Svíþjóð en hefur breiðst út til fleiri Norðurlanda, til að mynda Noregs. Lúsíudagurinn er haldinn 13. desember ár hvert og í Noregi er honum fyrst og fremst fagnað í leikskólum og skólum en einnig á sumum vinnustöðum. Á Lúsíudeginum er jafnan farið í skrúðgöngu og Lúsíusöngurinn sunginn, öll klæðast hvítum kyrtlum eða kjólum og lúsíuköttum, sérstöku bakkelsi sem tilheyrir Lúsíuhefðinni, er útdeilt.

Samkvæmt gamalli hefð innihalda Lúsíukettir saffran sem er, eins og margur veit, heimsins dýrasta krydd og oft einungis fáanlegt í sérvörubúðum. Í seinni tíð er þó orðið algengara að bregða út af hefðinni og nota túrmerik í staðin fyrir saffran, sem einnig gefur fallegan gulan lit. Guli liturinn á að boða bæði sól og ljós og form lúsíukattanna er einnig mótað eftir fornum táknum sem stóðu fyrir sól og líf. Lúsíukettirnir eru aðallega bakaðir fyrir Lúsíudaginn sjálfan en þeirra má einnig njóta alla aðventuna.

Lúsíukettir

Miðlungs erfiðleikastig • tekur u.þ.b. 90 mín að baka

Fyrir u.þ.b. 20 stykki

Innihaldsefni

150 gr smjörlíki eða vegan smjör

5 dl nýmjólk, haframjólk eða önnur plöntumjólk

50 g ger

1 g saffran-krydd (eða ½ tsk túrmerik)

150 g sykur

1⁄2 tsk salt 

2 tsk kardimommudropar

13 dl hveiti 


Fyrir penslun og til skrauts:

1 stk pískað egg, haframjólk eða önnur plöntumjólk

1 dl rúsínur


1. Bræðið smjörið og bætið mjólkinni saman við. Bætið þar næst saffraninu eða túrmerikinu við blönduna og leggið til hliðar. Myljið ger í skál og hrærið örlítið af volgu mjólkurblöndunni saman við. Hellið að lokum afgangnum af vökvanum hægt saman við á meðan þið blandið vel.

2. Hrærið hveiti, kardimommudropum, salti og sykri saman við. Látið deigið hefast undir viskustykki við stofuhita í um það bil 30 mínútur eða þangað til það hefur tvöfaldað sig.

3. Stráið smá hveiti á borðið og hnoðið deigið vandlega. Skiptið deiginu þar næst í bita og rúllið þá út í lengjur, sirka 2 cm að þykkt. Skiptið lengjunum síðan í 20 bita. Mótið lúsíuketti eins og þið viljið hafa þá, látið ímyndunaraflið ráða för!

4. Leggið mótaða lúsíuketti á bökunarplötu og látið þá hefast undir viskastykki í að minnsta kosti 15 mínútur. Stillið ofninn á 250°C.

5. Penslið lúsíukettina með pískuðu eggi eða plöntumjólk að eigin vali og skreytið með rúsínum. Bakið í miðjum ofni í 5-8 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Leyfið þeim síðan að kólna örlítið áður en þið berið þá fram. Lúsíukettirnir eru bestir þegar þeir eru bornir fram volgir.