Kvenleiðtogar í heiminum í dag
Þýðing: Lilja Ragnheiður Einarsdóttir
Eflingu kvenna hefur farið rísandi síðan að konur börðust fyrir kosningarétti sínum en á síðasta áratugnum hefur hún stigmagnast sem aldrei fyrr. Konur hafa skapað sér meiri og traustari sess í stjórnmálum og hafa sumar náð því endanlega markmiði að verða leiðtogar sinna þjóða. Í stað þess að einbeita mér að konum sem hafa gegnt embættum áður fyrr langaði mig að beina athyglinni að núverandi embættiskonum. Rannsóknir mínar hafa leitt mig í ýmsar áttir en ég komst einnig að nokkrum niðurstöðum sem ég greini frá hér að neðan.
Angela Merkel
Sem Þjóðverji vissi ég nákvæmlega hverja ég ætlaði að fjalla um fyrst. Angela Merkel er fyrsta konan til að genga embættinu kanslara í Þýskalandi og hefur gert það síðan árið 2005. Hún ákvað að bjóða sig ekki fram í fimmta sinn í kosningunum 2021 með því að segja af sér sem flokksformaður en miðað við hvern man spyr þá er annað hvort hughreystandi eða frekar skelfilegt að hugsa sér það. Hún varð áberandi í Þýskum stjórnmálum eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989 þegar hún kvaddi líf fræðanna. Hvernig skoðum sem man kann að hafa á henni hefur Angela Merkel brotið margar staðalímyndir og rutt veginn fyrir konur í stjórnmálum. Hún helgaði sig starfi þvert á menntun sína í skammtaefnafræði og varð stjórnmálamaður. Hún fóstraði heila þjóð og valdi að eignast ekki börn í þágu starfsins. Við segjum oft að til þess að njóta virðingar verði man að sýna virðingu og mér finnst að hún sé ein fárra leiðtoga í heiminum sem hafi notið virðingar með því að sýna þjóð sinni virðingu.
Konur í Austur-Evrópu ryðja veginn
Í Austur-Evrópu hafa kvenleiðtogar verið heldur að aukast og eru að minnsta kosti tíu konur annað hvort forsetar eða forsetisráðherrar sinna ríkja. Margar þessara kvenna eru fyrstu konur í þessum embættum í sínum löndum. Til dæmis eru fyrstu konur til að sitja á forsetastóli: Kersti Kaljulaid í Eistlandi, Maia Sandu í Moldóvu, Katerina Sakellaropoulou í Grikklandi, Zuzana Čaputová í Slóvakíu, Salome Zourabichvili í Georgíu og Vjosa Osmani í Kósóvó. Fyrstu konur til að gegna embætti forsætisráðherra eru Kaja Kallas í Eistlandi og Ana Branbić í Serbíu. Ég tók strax eftir því að þessar konur eru tilbúnar til þess að leiða þjóðir sínar áfram á rétta braut. Þær eru tilbúnar til þess að færa sig undan skugga og áhrifum Rússlands. Þessar konur hafa risið gegn lamandi spillingu sem hefur heltekið löndin þeirra og skilið eftir sig bágt ástand þjóða þeirra. Þær eru ekki aðeins að tryggja sér völd heldur endurreisa þær þjóðir sínar á tímum heimsfaraldurs. Sumar hafa meira að segja mölbrotið glerþök líkt og Ana Branbić fyrsta kona en einnig fyrsta opinberlega samkynhneigða manneskjan í embætti forsætisráðherra, eða Kaja Kallas sem rak öfga-hægri flokk úr ríkisstjórn sinni. Þessar konur eiga margt ógert en hingað til virðast störf þeirra bera merki um góðan árangur.
Norðurlöndin
Annar hópur þjóða hefur áhugavert samband við kvenleiðtoga. Norðurlöndin eru alltaf ofarlega á lista yfir friðsælustu lönd heims samkvæmt Global Peace Index og eru talin vera þau lönd þar sem hvað mesta kynjajafnrétti ríkir. Í augnablikinu skipa Mette Frederiksen í Danmörku, Sanna Marin í Finnlandi, og Katrín Jakobsdóttir á Íslandi embætti forsætisráðherra í sínum ríkjum. Samkvæmt samantekt Global Gender Gap Index árið 2020 eru efstu fjögur löndin Ísland, Noregur, Finnland og Svíþjóð vegna þess að þar fjölgar konum í áhrifa- og valdastöðum. Ég held að kvenleiðtogar á Norðurlöndum séu að mynda staðal í stað þess að brjóta glerþök. Þær eru dæmi þess að lönd og þjóðir detti ekki í sundur ef kona er við stjórnvölinn. Það er einmitt til marks um að kynjajafnrétti sé af hinu góða fyrir samfélagið.
Litaðar konur
Í ýmsum löndum eru fyrstu kvenleiðtogar að líta dagsins ljós og eru þetta konur sem eru svartar eða litaðar. Forseti Singapore, Halimah Binte Yacob er til dæmis fyrsta múslimska konan til að leiða þjóðina. Að sama skapi er Samia Suluhu fyrsta múslimska svarta konan til að gegna embætti forseta Tanzaníu. Báðar konur standa fyrir bætt réttindi kvenna og á móti öfgastefnum og kúgun kvenna. Rétt eins og í Tanzaníu eru nú fyrstu kvenleiðtogar í þremur öðrum ríkjum Afríku. Rose Raponda í Gabon, Sahle-Work Zewde í Eþíópíu og Victoire Dogbé í Togo hafa risið til metorða og leiða nú ríki sín út úr kreppuárum eftir fall nýlendanna og inn í betri framtíð. Eftir að Black Lives Matter hreyfingin hrundi af stað opinni umræðu um jaðarsetta stöðu litaðra kvenna í samfélaginu, eru fréttir af lituðum konum í hvers kyns valdastöðum mikill léttir að mínu mati.
Með góðu skal illt út reka
Að lokum langaði mig að fjalla um Jacindu Ardern sem er forsætisráðherra í Nýja Sjálandi. Hún er alltaf fyrsta manneskjan sem ég hugsa til þegar talað er um konur sem heimsleiðtoga. Þegar árásirnar í Christchurch áttu sér stað brást hún við eins og ég hefði búist við af konu við völd. Hún sýndi að hún væri mannleg. Hún sýndi fram á það að kærleikur og samstaða gera Nýja Sjáland að sterkari þjóð. Mér finnst hennar viðbrögð við aðstæðunum vera til fyrirmyndar og eiga lof skilið.
Karllægur heimur
Í nútímanum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að konur séu leiðtogar sinna þjóða. Það er til skammar að það hafi þurft margra áratuga langa baráttu til að veita öllum kynjum sömu grundvallarmannréttindi. Enn óhugnanlegri er sú hugmynd að körlum sé betur treystandi fyrir stjórnmálum og stjórnum sinna landa. Við þurfum fleiri kvenfyrirmyndir í leiðtoga embættum.