Að lifa af íslenska veturinn

Mynd: Hildur Örlygsdóttir

Kæru samnemendur, nú er veturinn skollinn á. Dagarnir verða æ styttri, rigning verður að slabbi og lokaprófin færast sífellt nær. Skammdegisþunglyndið er áþreifanlegt fyrir mörg okkar, og til þess að takast á við þær krefjandi aðstæður sem einkenna litla skerið okkar að vetrarlagi, og huga að geðheilsunni í gegnum prófatíðina, geta viss atriði skipt sköpum. Hér að neðan eru nokkur ráð til þess að lifa af veturinn: 

LAGSKIPTUR FATNAÐUR

Ef þú átt ekki föðurland, þarf það að breytast. Grunnlag úr ull einangrar hita og skiptir sköpum yfir vetrartímann. Ofan á það er gott að vera í ytra lagi sem er vatnshelt og vindhelt. Vetur á Íslandi er ekki sá kaldasti í gráðum talið, en vegna áreksturs ískaldra heimsskautsvinda og hlýrri Atlantshafsvinda einkennast veturnir okkar af ófyrirsjáanlegu veðri, endalausum vindi og svo gott sem láréttri snjókomu, sem gerir veturinn erfiðari en ella. Góð vetraryfirhöfn getur kostað sitt, en það er hægt að finna fínar yfirhafnir í hringrásarverslunum eins og Hringekjunni og Extra-loppunni.

NÝTTU ÞÉR SUNDLAUGARNAR

Að fara í sund er íslenska útgáfan af því að flatmaga á sólarströnd. Hlýtt knús frá jarðvarmavatni er mikill gleðigjafi sem mun fleyta þér rakleiðis í gegnum veturinn. Gufuböð og sauna eru frábær leið til þess að slaka á og auka svefngæði, og til þess að heiðra finnskar hefðir mæli ég með að dýfa sér beint í kalda pottinn eftir á. Að halda á sér hita með því að dýfa sér í kalt vatn gæti virkað eins og þversögn, en það er bæði hressandi og hjálpar líkamanum að hita sig sjálfur upp, svo lengi sem kaldi potturinn er um 6°- 10°C Celsíus og ekki er dvalið of lengi í pottinum. Ég mæli með að byrja á nokkrum sekúndum í kalda pottinum, með hendurnar upp úr vatninu, og að ganga svo um eða setjast niður til að leyfa líkamanum að hita sig upp náttúrulega (í stað þess að fara beint aftur í heita pottinn). Það er hægt að byggja upp þol gegn kuldanum, en ekki er mælt með því að vera lengur en 5 mínútur í ísköldu vatni. 

LIFÐU Í LJÓSINU OG MUNDU EFTIR D-VÍTAMÍNINU

Skortur á náttúrulegri birtu að vetrarlagi er einn helsti valdur skammdegisþunglyndis á Íslandi. Við eyðum gjarnan fágætum klukkustundum vetrarbirtunnar innandyra, og vegna skorts á sólarljósi þjáumst við mörg af D-vítamínskorti. Lýsi á morgnana eða D-vítamíntöflur stuðla að jafnvægi í líkamanum og bæta líðan. Þar að auki getur dagsbirtulampi sem líkir eftir náttúrulegri birtu skipt sköpum við að skríða fram úr á dimmum morgnum. Ef þú tímir ekki að fjárfesta í einum slíkum, mæli ég eindregið með að nota dagsbirtulampana í klefum Vesturbæjarlaugar (ekki aðalbúningsklefunum heldur minni sauna-klefunum). 

SÆKTU ÞÉR MENNINGU

Tónlistarsenan í Reykjavík vermir inn að beini allt árið um kring. Kíktu á lifandi jazztónleika Skuggabaldurs eða farðu á tónleika á KEX, Mál og menningu og Húrra. Ef þig langar ekki á tónleika gætirðu gripið þér hljóðfæri og nýtt myrku vetrarmánuðina til að skapa þína eigin tónlist. Ef þig vantar furðulegt hljóðfæri mæli ég með að heimsækja Sangitamiyu á Grettisgötu. 

FINNDU BESTA KAFFIBOLLANN Í BÆNUM

Heyrst hefur að besta kaffibollann á háskólasvæðinu megi finna í Odda. Þar fyrir utan er miðbær Reykjavíkur sneisafullur af kaffihúsum þar sem gott er að læra og panta sér heita drykki. Ég mæli með Reykjavík Roasters, sérstaklega í Ásmundarsal - oftar en ekki er listasýning í gangi sem hægt er að hafa gaman að í leiðinni.

HREYFÐU ÞIG

Nýja World Class stöðin í Grósku sem er staðsett aðeins örfáum mínútur frá háskólanum býður upp á nemaafslátt. Þar er að finna saunu, bæði hefðbundna og infrarauða, og heitan og kaldan pott. Ef þú vilt spara er einnig mjög ódýrt að kaupa áskrift að Háskólaræktinni. 

NJÓTTU ÁRSTÍÐARINNAR 

Íslenskir vetur er fullir af fegurð, sérstaklega á þeim dögum þar sem vindurinn víkur fyrir örlítilli stillu. Það jafnast fátt á við að dást að litríkum vetrarhimni á meðal snæviþakinna trjáa í Öskjuhlíð eða fara í göngutúr um Vesturbæinn (ég mæli með ísbúð Vesturbæjar um hávetur). Ekki missa af skautasvellinu á Ingólfstorgi sem Reykjavíkurborg heldur úti á hverju ári - heyrst hefur að fjórtándi jólasveinninn, Grímusníkir, verði á svæðinu.