Íslenska jólabókaflóðið er einstakt: Viðtal við Pál Valsson
Íslendingar hafa margir hverjir þann sérstaka og góða sið að gefa bók í jólagjöf, sið sem lengi vel hefur haldið lífinu í íslenskri bókaútgáfu. Höfundar fara að birtast á skjánum níu nóttum fyrir jól með gilda bók í hendi og nú er sú tíðin gengin í garð. Því er tilvalið að fá að forvitnast um þessa hefð okkar Íslendinga út frá sjónarhorni útgefenda.
Páll Valsson á langan feril að baki við bókaútgáfustörf og hefur verið útgáfustjóri hjá Bjarti & Veröld frá árinu 2016. Hann segir íslenska jólabókaútgáfu vera alveg einstaka í alþjóðlegu samhengi. „Það er engin önnur þjóð sem getur mátað sig við okkur hvað þetta tímabil varðar, að hjá svona fámennri þjóð komi út svona margir titlar á okkar eigin tungu,“ segir hann í samtali við blaðamann Stúdentablaðsins. „Þetta er án hliðstæðu.“
„Það er betra að lifa en að deyja“
Þetta árlega tímabil í bókaútgáfu er gjarnan kallað jólabókaflóð en Páll segist ekki vera hrifinn af því orði. „Þegar við tölum um flóð, þá er það eitthvað neikvætt. En hvað er neikvætt við það að út streymi fjöldi titla af öllu tagi?“ Að hans mati sé eini neikvæði þátturinn kannski að titlarnir séu of margir. „Þetta flóð er ekki skemmtileg líking, við þurfum að finna eitthvað annað.“
Páll segir að svo lengi sem hinn góði jólasiður, að gefa bók í jólagjöf, sé við lýði muni íslensk bókaútgáfa lifa og því hugsi hann ávallt mjög jákvætt til jólatarnarinnar. „Við bókaútgefendur höfum þó lengi reynt að komast út úr þessu,“ segir Páll, því fylgi mikið stress að leggja allt undir á jólamarkaðinum. Þó svo að sala á kiljum og bókum fyrir ferðamenn hafi aukist og sé allt árið um kring séu jólin engu að síður algjör kjölfesta í bókaútgáfu. „Jólin halda okkur á floti. Það er stressandi en það er betra að lifa en að deyja,“ segir Páll. Þrátt fyrir að þessi árstíð sé kvíðavaldandi fyrir útgefendur sé hún alltaf ákaflega skemmtileg og uppskeran ríkuleg. „Það er svo gaman að gefa út bækur, við erum alltaf í smá vímu á þessum árstíma. Og það heldur okkur við efnið, þetta er rosalega gefandi og skapandi vinna.“
Verið viðbúin, þetta er slagur
En hvers konar bækur fá að taka þátt í þessu merka fyrirbæri? Páll segir það fara bæði eftir höfundi og eðli bókarinnar. „Þetta er mjög íhaldssamur markaður,“ segir hann. Kiljur ná til dæmis ekki inn í jólapakkana og ekki þýðingar heldur. Íslendingar gefa íslenskar bækur. „Það er mjög mikilvægt fyrir forlög að vera með fjölbreytta útgáfu,“ segir Páll og leggur áherslu á að vera með bækur í öllum deildum. „En við gerum gæðakröfur,“ bætir hann við. „Þetta þarf að vera gott.“ Páll segir að ef verk hreyfi við honum eða hans lesurum séu miklar líkur á það hreyfi við einhverjum öðrum. „Það er sá mælikvarði sem við höfum. En ég get ekki bara hugsað um minn prívatsmekk, það virkar ekki.“ Þau sem ætla að vera í almennri bókaútgáfu verði að gefa út bækur sem nái til almennings.
Nýir höfundar eiga erfiðara uppdráttar en hinir þekktari en Páll segir að mál hafi þróast þannig að fólk þurfi nánast að hafa skrifað nokkrar bækur til þess að geta haslað sér völl í flóðinu. „En líka á hinn bóginn, þetta er sá árstími sem fólk er að hugsa um bækur og kaupa bækur og þá er ofboðslega leiðinlegt að hugsa: Má þessi ekki vera með líka?“ Þess vegna reyni útgefendur að undirbúa nýja höfunda fyrir að þetta sé slagur og stilla væntingum þeirra í hóf.
Ekki á vísan að róa
Að gefa út bók getur verið langt og strangt ferli og stundum gerist það að fresta þurfi útgáfu verka um ár og jafnvel lengur. Páll segir höfunda taka misjafnlega vel í það og suma þurfi að sannfæra að bókin hafi gott af því að bíða. „En oftast tekst þetta því okkar sameiginlega markmið er að bókin verði eins góð og hún getur orðið.“ Vandamálið er þó auðvitað fjárhagslegt, því þá sé höfundur að horfa fram á að þær tekjur sem hann hefði hugsanlega haft komi ekki fyrr en eftir ár. Annar möguleiki sé að gefa bókina út í kilju að vori en það á mest við um glæpasögur eða sumarfrísbækur.
„Það sem hefur breyst í þessum bransa á síðustu tíu árum er að það er miklu meiri agi í skilum,“ segir Páll. „Hér áður fyrr voru menn að skrifa alveg fram í október, það er eiginlega alveg búið.“ Nú reyni höfundar að vera sæmilega klárir með handrit að vori og oft miklu fyrr. „Draumastaðan er sú að á vorin sé búið að ná samstöðu um að bókin sé nokkurn veginn komin.“ Þá hafi ritstjórar allt sumarið til þess að snurfusa og laga, velta vöngum yfir einstaka setningum, en að verkið sé í stórum dráttum klárt. „Það er líka bara skemmtilegra, þá er hægt að gefa sér meiri tíma í að fægja og slípa, sem er það sem mér og fleirum þykir einna skemmtilegast í þessum bransa.“
Fagnaðarefni þegar einhver annar gefur út góða bók
Með tilkomu smærri forlaga eykst fjöldi titla í jólabókaflóðinu og Páll gleðst yfir góðum bókum frá öðrum útgefendum, enda fara gæði innsendra handrita hækkandi. „Ég tengi þá þróun kannski meðal annars við ritlistina, við erum að fá miklu fleiri góð handrit. Það var einfaldara áður fyrr að flokka handritin í þau sem þú hafnaðir og hin sem þú vildir skoða betur. Nú verður síðari flokkurinn sífellt stærri – sem er auðvitað frábært en skapar á móti þann vanda að við getum ekki gefið út nema lítið brot af innsendum handritum, því miður.“ Það sé því eðlileg þróun að minni forlög komi fram á sjónarsviðið og telur Páll það vera hið besta mál. „Þau eru að gefa út margar mjög fínar bækur, til dæmis Una og Lesstofan,“ og það sé mjög nauðsynlegt í þessa flóru.