Að hefja nýtt líf á Íslandi og stunda nám við Háskóla Íslands sem alþjóðanemi
Þýðing: Anna María Björnsdóttir
Á milli Íslands og Úkraínu liggja 3.445 kílómetrar. Engin bein ferðaleið er á milli landanna tveggja og afar lítil saga sem tengir þau saman en það var fjarlægðin sem dró Igor Stax að Íslandi. Hann yfirgaf Úkraínu, heimaland sitt, við einstakar en óheppilegar aðstæður og ferðaðist til norrænu eyjunnar Íslands, í leit að hæli. Hann nýtti öll þau tækifæri sem honum gafst til að búa sér nýtt líf og stundar nú nám við Háskóla Íslands. Þetta er sagan hans.
Að alast upp í Úkraínu
Ég fæddist í Úkraínu, á svæði sem nefnist Chernihiv. Flestir telja að þeirra æska hafi verið sú besta. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur vegna þess að foreldrar þínir gera allt fyrir þig. Æska mín var áhugaverð, jafnvel fullkomin í mínum augum, en foreldrar mínir unnu í verksmiðjum og þénuðu aldrei það sem þau áttu skilið fyrir vinnu sína. Það var enginn peningur. Mamma mín vann í vefnaðarverksmiðju þar sem yfirmenn hennar buðu henni föt í stað tekna. Flestir sem búa í Úkraínu eru fátækir. Nú til dags lifa flestir á 20 þúsund krónum á mánuði. Ein og sér getur húsaleigan kostað þig 13 þúsund krónur. Mörg vandamálanna sem fólk glímir við eru vegna spillingar í landinu. Stjórnmálamenn hafa stolið gríðarlegum peningum af fólkinu sínu.
Vegurinn ruddur
Ég gekk í háskóla í Chernihiv og lauk námi í kennslufræði og stærðfræði. Mér þótti gaman að skrifa. Ég skrifaði ljóð. Ég skrifaði greinar. Ég bjó til bloggsíðu. Ég skrifaði um spillingu. Ég vildi sjá og hvetja til breytinga á mínu svæði. Mig langaði virkilega til að breyta einhverju. Blaðamaður hafði samband við mig, bauð mér að skrifa fyrir fréttablaðið sitt. Ég skrifaði fyrir það og nokkur önnur til viðbótar. Ætli ég hafi ekki orðið djarfari og fór að stunda rannsóknarblaðamennsku, ólíkt öðrum blaðamönnum í borginni minni. Fyrir mörgum blaðamönnum er sannleikurinn ekki jafn mikilvægur og samband þeirra við þessa spilltu stjórnmálamenn. Það er þessum blaðamönnum mikilvægara að sjá stjórnmálamennina brosa til þeirra, taka í hönd þeirra og bjóða þeim í kaffi. Það er velgengni fyrir þessa blaðamenn, að skapa falskar vináttur. Fyrir mér hafa þessir hlutir aldrei verið mikilvægir.
Rannsóknarblaðamennska
Síðustu 12 árin í Úkraínu starfaði ég sem blaðamaður og rannsakaði spillingu. Spilling er útbreidd í Úkraínu og mig langaði til að skilja hvers vegna. Ég starfaði fyrir fjölmiðil sem var nátengdur stjórnmálaflokki og sérstaklega einum stjórnmálamanni. Þessi stjórnmálamaður vildi fá mig til þess að rannsaka hvort annar stjórnmálamaður væri spilltur. Hann sagðist myndu fjármagna rannsókn mína svo ég samþykkti. Svo allt í einu komust flokkarnir tveir, sem áður höfðu verið andstæðir, að málamiðlun og mér var sagt að hætta verkefninu, að það væri ekki hægt að birta það. Ég missti vinnuna. Þannig að blaðamenn eru ráðnir og notaðir sem peð til þess að skoða spillta pólitíkusa en ef fyrrnefndur spilltur opinber aðili eignast vini, missir þá blaðamaðurinn vinnuna og rannsóknin tapar gildi? Já. Blaðamönnum er ekki sagt að búa til lygar, vegna þess að í raun og veru er svo mikil spilling að allar upplýsingarnar eru sannar, það er til nógu mikill skítur til þess að steypa þessu fólki af stóli. Ég skrifaði greinar, skrifaði Facebook-pistla og gerði Youtube-myndbönd um þetta efni.
Blaðamennska í Úkraínu
Þetta er virkilega erfitt starf, fólk er hrætt við að vera blaðamenn vegna þess að fjölmiðlaeigendur þora ekki að birta greinar sem ögra ríkisstjórninni og spillingu. Það er ekki svo mikill hagnaður í fjölmiðlabransanum í Úkraínu, sem er að mestu notaður sem áróðurstæki til að efla hagsmuni ákveðinna flokka. Til dæmis gæti eigandi/ritstjóri málað ákveðinn stjórnmálamann í jákvæðu ljósi í skiptum fyrir að sá síðarnefndi veiti þeim fyrrnefnda fjárhagslega greiða. Hurðum hefur verið skellt framan í mig, mér hefur verið gefinn fingurinn og sagt að fara vegna þess að ég olli of miklum vandræðum fyrir þessa stjórnmálamenn. Mér var ólöglega neitaður aðgangur að opinberum byggingum og skrifstofum. Neitað um fundi. Ríkisstjórnin, saksóknarar og lögreglan eru nátengd og reka spillt tengslanet og er þetta ástæðan fyrir því að mikið af efnuðum og opinberum einstaklingum komast upp með að fremja glæpi. Lögreglan og saksóknarar líta undan. Það sem mig langaði til að gera fyrir Úkraínu færði mér fjöldan allann af vandamálum og engar breytingar. Ég vonaði að blaðamenn á mínu svæði yrðu innblásnir svo við gætum tekið höndum saman og orðið að afli sem kneri fram breytingar. Í staðinn var ég stimplaður brjálæðingur.
Dropinn sem fyllti mælinn
Alþingiskosningarnar voru í gangi á mínu svæði í Úkraínu og Öryggisþjónusta Úkraínu sakaði frambjóðanda um glæpsamlega starfsemi, sagði að hann hefði framið glæpi gegn þjóðinni. Ég var ráðinn til að rannsaka þennan ráðherra. Borgin sem ég var sendur til var glæpahöfuðborg umdæmisins þar sem hálfgerð mafía þrífst. Þarna þekkti mig enginn en mér bárust þó skilaboð á netinu og í gegnum SMS sem báðu mig um að fara varlega. Ég skipti reglulega um íbúðir. Eitt sinn kom upp að mér maður og sagði að mér yrði nauðgað ef ég yfirgæfi ekki borgina. Ég skrifaði bréf til lögreglunnar undir eins til að útskýra fyrir þeim þær hótanir sem mér hafði borist. Lögreglan gerði ekkert. Það var meira að segja alþingismaður sem sendi mér hótanir í gegnum Facebook. Mér leið eins og ég væri í spennumynd. Ég hætti þó ekki. Ég hélt rannsókn minni ótrauður áfram. Ég bjó til myndbandsskilaboð fyrir forseta Úkraínu sem fékk yfir 20.000 áhorf. Ég útskýrði stöðuna sem ég var í. Ég sagði: „Ég tala til þín vegna þess að undanfarin 20 ár hefur þetta fólk sem ráðið er af ríkisstjórninni ekki sinnt starfi sínu.“ Heimamenn gáfu mér miklar upplýsingar, sérstaklega þau sem höfðu verið beitt órétti. Það var ráðist á mig um hábjartan dag, ég var barinn. Ég fór upp á spítala með heilahristing og fékk nokkur spor. Samt sem áður skrifaði ég opið bréf til ríkisstjórnarinnar, ráðherra og saksóknara án frekari viðbragða. Fjöldi blaðamanna í Úkraínu hefur verið drepinn. Engum er refsað fyrir þessi morð. Sögur þeirra eru keimlíkar minni eigin. Fyrst senda þau hótanir, síðan berja þau þig og svo drepa þau þig. Landið mitt gaf mér ekki þá grundvallarahluti sem það hefði átt að gefa þegnum sínum, sem er að verja líf mitt. Ég bað um aðstoð frá forsetanum, innanríkisráðherranum, saksóknurum… þau sögðu öll að málið væri þeim óviðkomandi. Ég var meðlimur í Stéttarfélagi blaðamanna í Úkraínu, eftir að hafa verið barinn var ég rekinn úr félaginu vegna þess að formaður þess starfaði fyrir fólkið sem ég var að rannsaka. Það var dropinn sem fyllti mælinn.
Ísland
Ísland var eitt af þeim löndum sem ég gat komið til á Úkranísku vegabréfi. Það var mér einnig mikilvægt að landið er fjarri Úkraínu og að það eru engin bein flug milli landanna. Það var mér einnig mikilvægt að Ísland er með bestu löndunum hvað málfrelsi varðar og besta landið fyrir blaðamenn. Ég þurfti að lýsa yfir að ég þyrfti á vernd að halda, athvarf. Að koma til Íslands var eins og ferskur andblær. Þegar ég var í Úkraínu gat ég ekki treyst neinum. Ég gat ekki trúað neinum. Fátækt fólk getur gert hvað sem er fyrir peninga svo ég gat aldrei bara talað við hvern sem var. Á Íslandi get ég gengið um göturnar án þess að þurfa að líta um öxl. Fyrstu umsókn minni um vernd var hafnað vegna þess að Útlendingastofnun taldi að Youtube-rásin mín hafði ekki nógu mörg áhorf. Sú skýring kom mér mjög á óvart. Ég sótti um aftur. Eftir eitt ár sótti ég um hæli. Á þessu eina ári naut ég stuðnings frá ríkinu, ég fékk pening fyrir mat og hafði þak yfir höfuðið. Það gaf mér einmitt það sem ég þurfti. Mér hlaust tækifæri til að læra íslensku sem ég vildi gjarnan gera því ég hef gaman að námi. Mig langar til að tala máli fólksins. Það var einnig góð leið til að leiða hugann hjá Úkraínu og halda mér frá því að falla í þunglyndi. Ég hélt uppteknum hætti. Fór í ræktina, synti og hélt áfram að læra íslensku. Ég vildi halda líkamanum örmagna, en huganum virkum. Ef ég hefði ekki haft þessa hluti hefði ég einungis hugsað um að þau myndu drepa mig. Að ég fengi ekki hæli og yrði fluttur úr landi. Ég hefði sturlast.
Háskóli Íslands
Ég get því miður ekki talað íslensku eins vel og mig langar til, en ég sat námskeið og hef aldrei hætt að læra. Ég hélt tungumálanámskeiðunum áfram, öðlaðist nógu mikla þekkingu til að geta tekið prófið fyrir „íslensku sem annað tungumál“ í Háskóla Íslands. Ég vil þakka ríkisstjórninni. Sem flóttamaður geturðu fengið námslán. Ég kom hingað með tóma vasa svo lánið reyndist verulega gagnlegt. Ég á erfitt með að eignast vini í háskólanum vegna þess að ég get ekki treyst fólki auðveldlega. Slæm reynsla mín í fortíðinni hefur skilið eftir sig djúp sár. En ég vil halda vel að verki. Flestum dögum ver ég í íslenskunámið. Mitt helsta vandamál er að ég hef ekki marga til þess að tala íslensku við og æfa það sem ég læri. Hvert nýtt skref færir þig samt nær því að geta talað betur. Mig langar til þess að stunda blaðamennsku hérna líka. Lífið er hægt og rólega að verða betra. Ég syndi í sjónum. Ég hleyp og fer í ræktina. Ég læri og legg hart að mér. Ég er að kynnast fólki sem deilir sömu áhugamálum og ég, sérstaklega þeim vinahóp sem fer með mér í sjósund. Ég er vongóður um að geta lifað lífinu eins og mér þóknast.