Ískaldur sjór stundum betri en þunglyndislyf: Viðtal við Tanit Karolys

Spánverjinn Tanit Karolys lærir íslensku við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, en hún kemur nánar tiltekið frá Kanaríeyjum. Hún hefur stundað sjósund á Íslandi í 4 ár og segir frá því hvernig kuldameðferð hefur endurreist líf hennar, kennt henni að takast á við streitu og kulnun og hjálpað henni að njóta þess sem er að gerast í kringum hana.

Myndir: Tanit Karolys

Á bikiníinu í snjó

Líkt og öll vita er Ísland eyja. Þegar við heyrum venjulega um eyju í sjónum ímyndum við okkur pálmatré, heita sól og hlýjan sjó. Ekki stórt ísstykki, vindblásið árið um kring, þar sem snjóar og rignir allan sólarhringinn, en þannig getur Ísland birst þeim sem ekki búa þar.

Köld vötn Íslands henta vel til sunds, og hundruðir einstaklinga stunda sjósund hér á landi reglulega. Það er líka mjög hollt þó svo að í fyrstu virðist sem bara brjálað fólk geti synt í sjónum á Íslandi.

„Það var í Nauthólsvík á köldum vetrardegi,“ rifjar Tanit Karolys upp um fyrstu upplifun sína af köldu baði. „Ég var bara á bikiníinu mínu. Ég var að ganga meðfram sandinum til sjávar og hélt í raun að þetta fólk, sem stundaði kuldameðferð, væri brjálað eða notaði einhvers konar fíkniefni.“

Slakaðu á í ísköldu vatni

Áður en Tanit kom til Íslands fyrir níu árum bjó hún á Kanaríeyjum og í Barselóna. Það er rétt hægt að ímynda sér hve erfitt það var fyrir konu sem var vön heitu loftslagi að mæta á bikiníi í Nauthólsvík að vetri til. Af hverju gerði hún það?

„Ég upplifði kulnun og leitaði leiða til að endurheimta orkuna mína. Ég prófaði mörg mismunandi námskeið og smiðjur...,“ segir Tanit um örvæntingu sína á þessum tíma. „Og svo einn daginn sögðu nokkrir vinir mínir mér frá aðferð Wim Hof* (kuldameðferð) ​​og íslenskum manni að nafni Andri sem æfði alltaf í Nauthólsvík. Ég ákvað að prófa þetta og skella mér í Nauthólsvík á mjög köldum degi.“

Að sögn Tanit leiddi Andri hana út í sjóinn, kenndi henni að anda í köldu vatni og útskýrði hvernig taugakerfið virkar og hvernig á að leyfa líkamanum að aðlagast og treysta.

„Svo small þetta allt í einu, mér fannst vatnið ekki vera kalt lengur og ég fann svo mikinn frið!“ minnist Tanit þessara tilfinninga sinna með ánægju. „Það var mjög kraftmikil stund. Að átta sig á því að ég gæti stjórnað streituviðbrögðum mínum, verið algjörlega afslöppuð og ekki fundið fyrir kuldanum í ísköldum sjónum.“

Kuldameðferð eins og lyf

Tanit byrjaði að stunda kuldameðferð reglulega, ekki bara í Nauthólsvík, heldur alls staðar á Íslandi; á Seltjarnarnesi, í Kleifarvatni o.s.frv., í rigningu, snjó, eða bara logni, á sumrin og á veturna. Með tímanum áttaði hún sig á því að sjálfstjórnin sem hún upplifir í ísköldu vatninu hjálpar henni í daglegu lífi. Heimurinn í kringum hana tók að breytast til hins betra.

„Það urðu þáttaskil í kulnunarvandanum mínum,“ útskýrir Tanit. „Ég lærði að róa streituviðbrögð mín hvar sem er annars staðar í lífinu. Kuldinn er öflugur kennari til þess. Ef ég get verið fullkomlega slök í ísköldu vatni, þá, þegar eitthvað annað gerist og einhver segir til dæmis eitthvað við mig eða aðstæður fara á hliðina, dreg ég djúpt andann og slaka á á sama hátt og í köldu vatninu. Þannig er hugurinn hreinn og ég get brugðist við öllum aðstæðum í rólegheitum, með fullri meðvitund en ekki vegna streituviðbragða.“

Tanit telur að kalt hafið hafi einnig hjálpað henni að aðlagast íslensku loftslagi, sem er ekki alveg venjulegt fyrir íbúa Kanaríeyjar.

„Ég veit að flest sem koma til Íslands úr hlýrri veðráttu eru ekki eins og ég,“ lýsir Tanit viðbrögðum hitaelskandi útlendinga við íslensku loftslagi. „Ég held að ískaldur sjórinn hafi kennt mér að taka veður Íslands í sátt og elska það allt eins því ég læt veðrið ekki hafa áhrif á mig.“

En kuldameðferðin hjálpar ekki aðeins gegn streitueinkennum og kulnun: „Við höfum gögn sem segja að kuldameðferð hjálpi þunglyndi, kvíða, kulnun, en einnig sjálfsofnæmissjúkdómum, liðagigt, vefjagigt, psoriasis o.s.frv.“ 

Vísindaleg rök

Staðfestingu á þessum orðum Tanit má finna í niðurstöðum Bjarnar Rúnars Lúðvíkssonar prófessors í ónæmisfræði, sem skrifaðigrein á Vísi.is fyrir nokkrum árum. Þar sagði hann að kuldameðferð hafi „jákvæð áhrif á andlega heilsu þeirra sem stunda köld böð og sér í lagi [á] verki.“

Þjálfari Tanit, Vilhjálmur Andri Einarsson, upplifði það einmitt að losna við verki með kuldameðferð. Eftir meiðsli í æsku þjáðist hann af miklum bakverkjum í 30 ár og engir læknar eða lyf hjálpuðu. Ískaldur sjórinn og ískaldir pottar léttu loks sársauka hans.

Tanit hefur einnig upplifað aðra kosti við kuldameðferð. Til dæmis að stofna fjölskyldu.

„Við Andri urðum mjög góðir vinir, urðum bæði löggiltir Wim Hof Method leiðbeinendur og stofnuðum fyrirtækið Andri Iceland þar sem við byrjuðum að kenna þetta á Íslandi. Og hann er maðurinn minn í dag og faðir Sólar dóttur okkar.“

Ef þið hafið áhuga á að synda í sjónum en vitið ekki hvernig á að byrja getið þið gengið í Facebook-hópa áhugafólks um sjósund, til dæmis „Andri Iceland“, sem er hópur Tanit, pólska hópinn „Zumnolubni Islandia“ eða stóra hópinn „Sjósund“.

Eða komið í Nauthólsvík og synt sjálf.

*Wim Hof ​​(fæddur 20. apríl 1959), einnig þekktur sem Ísmaðurinn, er hollenskur hvatningarræðumaður og jaðaríþróttamaður þekktur fyrir getu sína til að standast frost. Hann hefur sett Guinness heimsmet í sundi undir ís og langvarandi snertingu alls líkamans við ís og átti áður metið í hálfmaraþoni berfættra á ís og snjó. Hann rekur þessi afrek til Wim Hof ​​aðferðar sinnar (WHM á ensku), sem er sambland af tíðum kulda, öndunartækni, jóga og hugleiðslu.

LífstíllIgor Stax