Úkraínsk jól: Hrekkjavaka rétttrúnaðar

Á landsvæðinu þar sem landið Úkraína er nú, hóf fólk að halda upp á jólin mun fyrr en sá siður var tekinn upp á Íslandi.


Sonur sólguðsins

Austur-Slavar, forfeður Úkraínumanna, héldu jól í Kænugarði um miðbik fyrsta árþúsundsins. Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaðurinn á Íslandi, kom til Íslands 400 árum síðar.

Jólin voru aðalhátíð Austur-Slava og þeir héldu 25. desember hátíðlegan eins og mörg lönd gera nú. Það er þó eitt sem greinir Austur-Slava frá öðrum: þeirra hátíðahöld snerust um að halda upp á afmæli sonar sólarguðsins, þeirra æðsta guðs.

Trúarbrögð Austur-Slava voru heiðin, en samkvæmt þeim var birtingarmynd skammdegisins gríðarstóri drekinn Korotun, sem át sólina í aðdraganda vetrarsólstaða. Þannig útskýrðu trúarbrögðin þessa þrjá dimmustu daga eftir vetrarsólstöður, þá skemmstu í árinu.

Goðsögnin greinir einnig frá því hvernig Kolyada, eiginkona sólarguðsins, varð ófrísk af syni sólarguðsins, hinni nýju sól. Til þess að vernda eiginkonu sína og ófætt barn breytti sólguðinn Kolyödu í geit og faldi hana í helli, og kom þannig  í veg fyrir að drekinn æti hana. Í öryggi hellisins fæddi Kolyada soninn og eftir það urðu dagarnir aftur lengri og bjartari.


Jólalög

Á okkar dögum eru úkraínsk jólalög tileinkuð fæðingu Jesú Krists kölluð kolyadkum (nf. et. – kolyadka). Menn sem syngja kolyadkur eru kölluð kolyadúvalnikar (nf. et. – kolyadúvalnik).

Flestir núverandi kolyadúvalnikar vegsama ekki Jesú. Þeir fara heim til fólks, syngja kolyadkur og biðja um peninga. Þetta er frægasta kolyadkan:

Kolyad, kolyad, kolyadnisía

Brauð með hunangi er mjög gott.

Brauð er ekki jafn gott án hunangs.

Gefðu mér herra pjatak*.

Pjatak er ekki nóg,

Gefðu mér pappírsrúblu*.

En rúblan er með þrjár holur

Gefðu mér fimm rúblur. 

*- talmálsnöfn sumra mynta og seðla

Þessi siður kolyadúvalnikanna virðist kannski eins og “grikk eða gott” en þeir eru í raun að biðja um peninga. Þeir hafa ekki áhuga á brauði með hunangi. Einnig biðja kolyadúvalnikar oft um vodka í lögunum sínum. Til heiðurs fæðingu Jesú fara menn heim til fólks og að biðja um peninga eða vodka, eða hvort tveggja. Það er ekta úkraínskt.

Menningarhneigðari kolyadúvalnikar, þó þeir séu ekki margir, biðja hvorki um vodka né peninga. Söngvar þeirra einkennast af hefðbundnum boðskap til eigenda húsanna um fæðingu Jesú. Ein svoleiðis kolyadka hefst á eftirfarandi orðum:

Gott kvöld til þín, húsbóndi!

Fagnaðu! Fagnaðu, heimur! Sonur Guðs fæddist!

Það kann að virðast einkennilegt, en heiðin lög sem vegsama son sólarguðsins eru einnig kölluð kolyadkur. Heitið kemur frá nafni Kolyödu, eiginkonu sólguðsins; kolyadka er lag sem vegsamar Kolyödu og son hennar. Rökrétt, er það ekki?

Kristnir menn áttu hins vegar enga Kolyödu. Þess vegna syngja þeir fyrir kristinn Guð lögin, sem voru samin til að vegsama heiðinn guð, einn helsta óvin hins kristna Guðs, og kalla þau nafni heiðna guðsins. Dálítið eins og að kalla sálma „Ave Satana“.


Barnabarn Ragnars Loðbrókar.

Fyrstu tengsl Úkraínu og Íslands birtast í sögu sem hófst um fyrir þúsund árum, þegar herskár víkingur, Oleg eða Helgi að nafni, lagði undir sig flesta austurslavnesku ættbálkana og stofnaði hið víðfeðma ríki Rús-Kænugarð (e. Rus-Kyjiv) með höfuðborg í Kænugarði, sem nú er höfuðborg Úkraínu.

Höfuðbardagi Olegs og vendipunktur í sögu hans var hernám Kænugarðs og morðið á Askold, þáverandi konungi Kænugarðs, árið 882. Askold var líka víkingur en Olof von Dalin, sænskur sagnfræðingur sem var uppi á 18. öld, taldi víst að Askold væri Asleik Björnson, barnabarn Ragnars Loðbrókar.

Samkvæmt þessari útgáfu var Oleg Helgi, sonur íslenska landnámsmannsins Ketils Þorkelssonar, sem er betur þekktur sem Ketill Hængur. Sonur Ketils Hængs á þannig að hafa drepið barnabarn Ragnars Loðbrókar til að verða konungur í Kænugarði. 

Oleg var heiðinn og söng ef til vill kolyadka-söngva á afmælisdegi sonar sólarguðsins. 


Heilagur nauðgari

100 árum eftir valdatíð Olegs myrti Volodymyr, hinn heiðni konungur Rús-Kænugarðs, þúsundir samlanda sinna til þess að breyta þjóðartrúnni úr heiðni í kristni. Kirkjuyfirvöld landsins tóku hann síðar í dýrlingatölu vegna þessa. Það var þó ekkert heilagt við líf Volodymyrs.

Fyrir utan blóðuga innreið kristninnar, drap hann eldri bróður sinn á viðurstyggilegan hátt til að stela hásæti Kænugarðs frá honum. Einnig nauðgaði hann þungaðri eiginkonu bróður síns og Rognedu, prinsessu Palteskju (Polotsk), og neyddi foreldra hennar og bræður til að fylgjast með áður en hann tók þau svo af lífi.

Heiðni hafði verið til staðar svo lengi að fólk, jafnvel þó að það ætti á hættu að verða drepið, hélt áfram að fylgja sínum heiðnu helgisiðum. Kirkjuyfirvöld sáu að ómögulegt væri að losna við heiðnu siðina að fullu og beittu því lymskubrögðum til þess að fá sínu framgengt. Þau byrjuðu meðal annars að halda upp á kristna helgidaga á sömu dögum og heiðnar hátíðir. Þannig kom fæðing Jesú í stað afmælis sonar sólarguðsins og þess vegna hefur söngur heiðinna kolyadka um jólin lifað fram til okkar daga.

Matur fyrir látna

Sú hefð að elda heiðinn hátíðarrétt um jólin, kútíu, hefur einnig varðveist. Kútía er soðið hveitikorn með hunangi og valmúafræjum. Í dag er kútía talin hefðbundinn, kristinn hátíðarréttur um jólin.

Heiðingjarnir trúðu því að látnir ættingjar vitjuðu þeirra á aðfaranótt jóladags og skildu eftir kútíu og skeiðar áður en farið væri í háttinn, svo að hinir framliðnu gestir gætu borðað. Kristnir trúa því ekki að látnir ættingjar komi í heimsókn um jólin en jafnvel 1000 árum eftir að Úkraína varð kristið land halda Úkraínumenn enn í þann sið að fæða hina látnu og heiðra heiðnar hefðir.

Það helsta sem hefur glatast með kristnitöku er hinn eiginlegi dagur hátíðarinnar. Flestir Úkraínumenn halda nefnilega jól 7. janúar en ekki 25. desember. 

Tvenn jól

Þrátt fyrir að austur-slavnesk kristni hafi átt uppruna sinn á þessum stöðum við Kænugarð fyrir meira en 1000 árum síðan, hafa íbúar Úkraínu verið hernumdir af Moskvulandi, rússneska heimsveldinu og sovéskum kommúnistum síðustu 500 árin. Þess vegna var (þar til nýlega) hin opinbera ríkistrú Úkraínu rússneska rétttrúnaðarkirkjan (RRK). Allar úkraínskar kirkjur voru undir stjórn Moskvu.

RRK starfar enn samkvæmt júlíanska tímatalinu, en notkun þess var hætt fyrir 300-400 árum síðan af flestum löndum heimsins vegna ófullkomleika þess. 25. desember í júlíönsku tímatali er 7. janúar í því gregoríska, en eftir því lifir stór hluti mannkynsins. Flestir Úkraínumenn vita ekki af þessum blæbrigðum og skilja ekki hvers vegna útlendingar halda jól 25. desember. Þeir skilja ekki að þeir halda líka jól 25. desember, bara samkvæmt júlíanska tímatalinu. 

Hin nýja úkraínska rétttrúnaðarkirkja, sem hafði verið óformlega virk síðustu þrjá áratugi en var formlega viðurkennd árið 2018, hefur ekki sett það á oddinn að taka upp gregóríska tímatalið í stað þess júlíanska en meðal breytinganna sem það hefði í skauti sér væri að jólahald færðist til 25. desember. 

Líkt og uppi var á teningnum þegar heiðingar tóku upp kristni fyrir um þúsund árum síðan, gæti reynst erfitt að fá fólk til að taka upp nýja siði. Sú “litla” breyting að færa jólin til gæti tekið áratugi og á þeim tíma, og jafnvel lengur ef illa gengur, munu sóknargjöld renna til RRK. Flestar úkraínskar kirkjur eru enn í eigu hennar og því er uppi sú staða að ef Úkraínumenn geta ekki sótt jólamessu í úkraínskum kirkjum, sækja þeir rússneskar kirkjur og styðja þær um leið með fjármagni og aðsókn. Jól eru, og skulu haldin, 7. janúar í Úkraínu.

MenningIgor Stax