Hafðu það notalegt í vetur - Bestu sætindi í Reykjavík
Þýðing: Þórunn Halldórsdóttir
Hver sagði að Íslendingar væru ekki með matarmenningu? Kannski er menningarlegi maturinn ekki beint sá girnilegasti, en borgin býður upp á margbreytilegan matarvettvang. Það er staður fyrir hvern smekk, frá ramen til taco, amerískum rifjum til grænkeramöguleika.
Þegar daginn fer að stytta, göturnar verða ísilagðar og kertaljósadýrð kemst aftur í tísku, er ekkert betra en að fara í miðbæinn og dekra við sig með sætindum og heitum drykk.
Mig langar að deila með ykkur nokkrum stöðum þar sem þið getið slakað á, hangið og meðtekið notalegheitin með nokkrum af bestu sætindunum sem þú finnur í Reykjavík.
DEIG - Kleinuhringir
Ég hafði aldrei verið aðdáandi kleinuhringja fyrr en ég smakkaði kleinuhringina frá Deig. Þeir eru svo bragðgóðir og huggandi, besta leiðin til að byrja, halda áfram með eða enda daginn. Fullkomnir hvenær sem er. Þeir eru í ýmsum formum, úr mismunandi deigi með mismunandi brögðum. Persónulega eru mínar uppáhalds tegundir kanilkrulla, úr frönsku vatnsdeigi, og hin mikilfenglega crème brulée bolla, sem er fyllt með (glás af) rjómakremi og ristuð á toppnum.
Aleppo Café - Mið-Austurlenskar Kræsingar
Þetta er án efa eitt af bestu kaffihúsunum í bænum, með öðruvísi ívafi. Eigendurnir eru frá Sýrlandi svo þarna er mikið framboð af alls kyns mið-austurlenskum sætindum og bakkelsi, auk hefðbundinna evrópskra bakkelsa. Auk þess bjóða þau upp á sýrlenskt kaffi, sem er nokkuð sterkt (kryddað) og svo bragðmikið. Uppáhaldið mitt þar eru pistasíu- eða sítrónubolla.
Luna Flórens & Lóla Flórens – Baunin Grænkerakökur
Ef þú ert að leita að sætu grænkera góðgæti í einni sneið þá þarftu að kíkja á Luna Flórens og nýlegri viðbót þess sem opnaði í haust, Lóla Flórens. Hér eru sköpunarverk Baunin, sem er grænkera listbakari, seld til svangra viðskiptavina. Kökur Baunin eru ekki aðeins ótrúlega bragðgóðar, með upprunalegum og árstíðarbundnum bragðsamsetningum, heldur eru þær einnig alvöru listaverk þar sem þær eru meistaralega skreyttar. Ef ein eða tvær sneiðar frá þessum kaffihúsum eru ekki nóg til að seðja hungrið geturðu sett þig í beint samband við Baunin og pantað heila köku eða bollakökur fyrir hvaða tilefni sem er, jafnvel að tilefnislausu. Ég meina, hver er ég að dæma (get ekki kastað steinum úr glerhúsi!).
Sandholt - Franskt bakkelsi
Ef þú hefur komið til Frakklands, eða sértu þaðan, hefurðu ábyggilega verslað við bestu frönsku bakaríin og síðan þá kvartað yfir því að croissant og pain au chocolat annars staðar séu ekki eins góð (hneykslanlegt alveg!). Sem manneskja sem bjó í Frakklandi á meðan hún tók bachelorinn finnst mér ég eiga rétt á og geta af sjálfsöryggi sagt að bakkelsið og brauðið frá Sandholti er mjög nálægt upphaflega hugtakinu. Það er kannski ekki ódýrasta kaffihús Reykjavíkur, en ef þig grípur þrá í sætmeti með frönsku ívafi er þetta staðurinn.
Apótek - Fínt bakkelsi
Í aðeins fínni aðstæðum getur þú fundið yndislegt úrval af fínu bakkelsi á Apótek Restaurant. Ef þú vilt upplifa þitt innra munaðarfulla sjálf verðuru að smakka einn af ómótstæðilegu eftirréttunum þeirra. Ég mæli með súkkulaðirósinni, en þeir líta allir óaðfinnanlega út og eru ótrúlega ljúffengir. Þeir eru þeir dýrustu á þessum lista, en ég myndi segja að þeir séu þess virði, sérstaklega ef þú nýtur fínna úrvals af sætindum.
Þessi listi endurspeglar minn persónulega smekk, sem er ástæðan fyrir því að mér yfirsáust algerlega ísbúðir. En ef þú elskar litla kúlu af rjóma í mínusgráðum mæli ég með ítölsku ísbúðinni Gaeta Gelato.