Er viðtal í gangi?: Viðtal við Ingólf Eiríksson

Mynd: forlagid.is

Ég hitti Ingólf Eiríksson á Kaffi Vest, ég tel það vænlegast að vera ekkert að lokka hann út fyrir 107 þægindarammann, enda er Ingólfur fæddur og uppalinn Vesturbæingur. Hann er 27 ára bókmenntafræðingur sem kláraði nýlega meistaranám í ritlist og þegar ég hef pantað mér pönnukökur og sódavatn og við spjallað um daginn og veginn kveiki ég á upptökutækinu og hef samtalið sem ég er mætt til að eiga. Ingólfur hefur gefið út sína fyrstu skáldsögu, Stóru bókina um sjálfsvorkunn, mánuði fyrr, og ég ætla mér að komast að því hvernig ungskáldinu líður, þegar það hefur fengið nokkrar vikur til að hrista af sér nýjabrumið.

KMB: Þú varst að fá ansi góðan dóm í Fréttablaðinu um daginn, hefurðu fengið þá marga þennan mánuð síðan bókin kom út?

IE: Já, hann var bara allt í lagi. Ég er búinn að fá þrjá dóma og svo stendur til að dæma hana í Víðsjá. Það verður sennilega-

Í þeim töluðu orðum kemur þjónustustúlkan með pönnukökurnar mínar og býður Ara Eldjárn, grínista, sem situr á næsta borði.

KMB: Ég held ég hafi pantað þetta!

IE: Vá!

Þjónustustúlkan réttir mér diskinn. Pönnukökurnar eru mjög veglegar, löðrandi í súkkulaði og berjum.

KMB: Já, nú skil ég þennan tvöþúsundkall, þetta er ansi veglegt.

IE: Ekkert smá. Ég hefði bara sagst eiga þær, en sumir eru með betri siðferðiskennd en ég.

Ingólfur horfir á Ara.

IE: En þú ert auðvitað með barn með þér, þú verður að setja gott fordæmi.

AE: Já, ég vil helst bara borða eitthvað sem hún vill ekki. Eitthvað svona „savoury“. Þetta er enginn smá skammtur.

KMB: Ég veit ekki alveg hvernig ég á að borða þetta.

IE: Þetta er mjög skemmtilegt.

KMB: Já, vá. Já, þetta er æði. Þetta verður viðtal um pönnukökur.

IE: Já, algjörlega, það er í rauninni miklu betra, sko.

Ég hefst handa við að sigra pönnukökufjallið og við Ingólfur reynum að koma okkur aftur á strik í viðtalinu, sem á þrátt fyrir allt ekki að vera um pönnukökur.

KMB: En já, hvernig finnst þér þetta? Þegar fólk er að birta-

Ég sting upp í mig pönnukökubita.

IE: Skoðanir sínar á bókinni minni?

KMB: Já.

Dómar stækki ekki texta

IE: Sko, ég held að það verði miklu auðveldara með hverjum dóminum sem líður. Fyrst fær maður pínu hland fyrir hjartað, einhvern veginn. Og ég var alveg miður mín eftir fyrsta dóminn. Hann var ekki einu sinni vondur, hann var bara ekki það sem ég bjóst við. En síðan kemur kannski dómur viku síðar sem „contradictar“ kannski alveg það sem fyrri dómurinn sagði. Fyrri dómurinn segir kannski: „Þetta er gott og þetta er slæmt.“ Og næsti síðan akkúrat öfugt. Þá svona svolítið hættir maður að stressa sig, þetta er bara gangur lífsins og maður getur ekkert gert í þessu. Mér fannst samt dómurinn hans Þorvaldar [Sigurbjörns Helgasonar] mjög vandaður.

KMB: Nú ert þú að dæma dóminn hans.

IE: Nú er ég að dæma dóminn hans. Nei, ég meina, hann var hrifinn, en hann var ekkert að lofsyngja hana upp í skýin. En ég hlusta líka miklu meira á það sem lesendur mínir eru að segja við mig. Af því þau eru ekki með þessa fjarlægð sem dómararnir setja upp og mér finnst það alltaf vera svolítið vandinn við dóma. Ég er svolítið mótfallinn dómum, ég er miklu hrifnari af umfjöllunum. Af því að í umfjöllunum geturðu leyft þér að eiga meiri „díalóg“ við textann sjálfan. 

KMB: Ég skil það vel. Við búum líka í landi þar sem allir þekkja alla. Það er erfitt að dæma hlutlaust, það eru alltaf einhver tengsl. Er heiðarlegra að vera bara með umfjöllun?

IE: Mér finnst það. Og skemmtilegra. Af því dómar, þeir stækka aldrei texta. Þeir meta bara það sem fyrir er. Þeir gefa ímyndunaraflinu ekki lausan tauminn. Mér finnst alltaf smá skrítið að dæma list, stór hluti af henni er það hvernig þú tekur við henni sem manneskja, ekki hvað þér finnst. Hvort bókin er góð eða ekki, heldur hvernig þú á persónulegu „leveli“ „interactar“ við hugmyndirnar sem eru í henni og skapar eitthvað stærra úr henni. Ég til dæmis myndi aldrei vilja skrifa ritdóm. Enginn hefur boðið mér það en mér finnst það ekki gaman, sem „konsept“, ég vil miklu frekar halda með höfundi en meta hann. Af því svo stór hluti af lestri er tenging við hugsanahátt annarrar manneskju, tenging við aðra manneskju. Þú getur ekki tengst annarri manneskju ef þú ert alltaf að dæma hana. Þetta er bara eitthvað sem við þekkjum úr okkar persónulega lífi, ef ég væri alltaf að segja: Oh, mamma er alltaf svona, þá myndi ég aldrei ná sömu tengslum við hana. Þannig maður þarf að taka bókinni fyrir því sem hún er, á hennar forsendum. 

Meistaraverkefni í ritlist

KMB: Hvað var þetta eiginlega langt ferli hjá þér? Hvenær fæddist hugmyndin að bókinni sjálfri og hvenær byrjaðiru að skrifa?

IE: Sko, ég held að hún hafi fæðst sumarið 2019, þá byrjaði ég svona að gera, mjög svona óljóst- er ég að segja mjög „stupid“ hluti?

KMB: Alls ekki.

IE: Af því, já- sko, hugmyndin að bókinni kannski fæddist svona sumarið 2019, þá byrjaði ég að skrifa niður nokkrar senur og senuyfirlit í rauninni. Ég sá fyrir mér mjög óljósan grunn, ég vissi svona nokkurn veginn hvar ég myndi enda og hvar ég myndi byrja en ég vissi ekki leiðina að því. Og ég skrifaði í raun ekki senuyfirlit frá A til B, heldur meira senur sem ég vissi að ég myndi vilja hafa og fór hægt og bítandi að skrifa þær inn og út frá þeim fæddust nýjar og nýjar senur.

KMB: Þannig smá eins og púsluspil? Því þú flakkar svolítið á milli tíma í bókinni sjálfri.

IE: Já, hún gerir það. Jú, þetta er ekki þannig að ég sest niður og byrja á A og skrifa mig til B. Ég hef reynt að gera það en fyrir mig persónulega virkar það ekki. 

KMB: Að sjá ekki fyrir endann einhvern veginn?

IE: Já, og þú ert alltaf svona: „Já ég á eftir að koma þessu og þessu inn“ En með þeirri aðferð er hægt að vinna í stökum senum, og síðan ef þú ert ekki alveg viss um hvernig þú ætlar að halda áfram með það geturðu fært þig annað og leyft því að malla í undirmeðvitundinni. Af því undirmeðvitundin er svo stór hluti af þessu. En ég notaði öll verkefnin í Innritun til að skrifa mig áfram.

KMB: Já, áfangann í ritlistarnáminu?

IE: Já, þá voru vikuleg verkefni og það var nokkuð frjálst þannig ég notaði bara öll verkefnin í að skrifa inn í bókina. Þannig að eftir svona hálft ár var ég komin með einhver 20 þúsund orð. En síðan um áramótin, áður en ég hitti leiðbeinandann minn fyrir lokaverkefnið í ritlistinni, Ragnar Helga Ólafsson, þá henti ég 10 þúsund orðum af þessu. Það var ekki alveg í takt við söguna. Sýndi honum það og við áttum smá díalóg um það, ég hafði verið að gera þetta meðfram öllum áföngunum í ritlist. En þarna í janúar 2020 þá byrjaði ég að skrifa bara þetta og skrifaði í raun bara allan daginn í fjóra mánuði, fyrsta „draft“. Sem ég var mjög sáttur með. Ég hugsaði að ég þyrfti nú ekki að endurskrifa þetta mikið. Þetta væri bara ansi flott hjá mér. En síðan fór Ragnar Helgi yfir þetta og sagði: Þetta er nú kannski ekki fullbúið.

KMB: Þannig þetta var meistaraverkefnið þitt í ritlistinni? Og þú í rauninn fékkst ritstjórn í bæði frá leiðbeinanda, og svo þegar þú komst með þetta inn á Forlagið?

IE: Já.


Að drepa dúllurnar sínar

KMB: Og hvernig var það, voru þau sammála Ragnari eða þurftirðu að breyta öllu til baka?

IE: Nei, nei, nei. En eftir fyrsta uppkastið kom Ragnar Helgi með rosalega marga punkta og sagði bara: Í núverandi mynd eru bara stór vandamál við þetta handrit. Sagði mér svo sem ekki hvernig ég ætti að leysa þau en benti mér á vandamálin. Og þá henti ég út stórum hluta handritsins, einhverjum 10 þúsund orðum, og tók síðan júní-ágúst í að umbreyta handritinu alveg svakalega og bestu þættirnir í þessu handriti eru í rauninni úr þessu öðru uppkasti.

KMB: Eftir hreinsunina hans Ragnars?

IE: Já, bókin lengdist alveg um þriðjung og hún þéttist miklu meira. Það sem mér fannst áhugavert, var hvað þetta varð miklu þéttara, þá hafði ég yfirsýn yfir handritið og þegar þetta var komið á blað var auðveldara að koma auga á gallana.

KMB: En það er ekkert gefið að maður geti fengið fyrstu skáldsöguna sína útgefna. Hafðirðu reynt áður að senda inn verk? Og hvernig fór þetta fram, sendirðu inn, tókstu þátt í einhverri keppni, eða?

IE: Nei, sko. Ég náttúrulega gaf út Klón hjá Forlaginu, ég var komin með samning að henni sem var bara í ferli hjá Sigþrúði, ritstjóranum mínum.

KMB: En hvernig byrjaði þá það ferli? Svo við förum ennþá lengra aftur.

IE: Já, já. Umm, sko það var í miðju covid og það var algjör gúrkutíð hjá Forlaginu, held ég. Og ég var búinn að senda handritið á tvö forlög sem höfnuðu því, sem sagt ekki Forlagið. Ég hugsaði bara: „Forlagið mun ekkert gefa þessu séns“ en ég prófaði samt að senda á útgáfustjórann og ég fékk svar á þremur dögum- sem ég held að sé óvenju skammur tími, eftir að ég sendi handritið inn. Og hún bara: „Heyrðu, þetta er mjög spennandi, við viljum gefa þetta út“. Ég fór á skrifstofuna til hennar vikuna eftir og við gerðum útgáfusamning.

KMB: Og þá ertu í rauninni kominn inn, þá er auðveldara fyrir þig að segja bara: „Heyrðu ég er hérna líka með þetta meistaraverkefni sem er skáldsaga, viljiði gefa hana út líka?“

IE: Já, ég spurði ritstjórann minn strax á fyrsta fundi: „Ég er er hérna með skáldsagnahandrit sem verður tilbúið í sumarlok, væntanlega, má ég senda það á þig þá?“ og hún tók því vel. Og síðan erum við í þessu ferli og þegar ég hafði endurskrifað handritið mjög mikið þá sendi ég það á Sigþrúði, þegar jólabókaflóðið var búið. Og hún var fljót að lesa þetta og sagðist vera mjög hrifin af þessu handriti og vildi gefa það út. Þannig að nei, ég þurfti ekki að senda inn í gáttina eða í samkeppni, ég bara talaði við minn ritstjóra.

KMB: Nú fékkstu náttúrulega ritstjórn frá leiðbeinandanum þínum. Hvernig var þá að fá svo ritstjórn á svona stóru og virtu forlagi?

IE: Sigþrúður ritstýrði þessari bók mjög vel. Hún var náttúrulega búin að fara í gegnum rosalega „intensíft“ ferli þá og þegar. En handritið breyttist samt töluvert frá því sem ég sendi á hana. Ég gæti ekki verið sáttari við hana. Mér finnst hún æðisleg. Við eigum virkilega gott samband - mér þykir ofboðslega vænt um hana og hún er frábær ritstjóri.

Samdauna umhverfinu

KMB: Svo er eitt sem ég er svolítið forvitin um, núna þegar ég er búin að lesa svolítið í bókinni: Þú lærðir úti í Bretlandi, er þetta eitthvað byggt á þinni eigin reynslu af því? Fékkstu einhvern innblástur þaðan til að sviðsetja hluta bókarinnar þar?

IE: Frá staðháttum?

KMB: Já, bara frá þinni veru þarna úti. Hugsaðiru: „Já, það væri gaman að skrifa bók um einhvern sem er í svona svipaðri stöðu og ég“?

IE: Já, og ég held líka bara að óumflýjanlega allur skáldskapur endurspegli manns eigin upplifun af raunveruleikanum. Og sérstaklega með fyrstu skáldsögur, ég held að maður eigi bara nóg með þetta „konsept“ að skrifa 200 blaðsíðna bók. Ég dáist svo að fólki eins og Zadie Smith sem skrifaði White Teeth tuttugu og þriggja ára, sem er 500 blaðsíðna bók um fólk af allskonar uppruna og með allskonar upplifanir af veruleikanum, og gerir það stórkostlega. Ég er engin Zadie Smith. Þannig það er kannski svona málið. En jú, það er þessi tilfinning líka sem maður upplifir að fara til útlanda og hafa ekki þetta öryggisnet, sem er áhugaverð.

KMB: Og margir upplifa. Fólk er alltaf að fara út í nám og ganga í gegnum nákvæmlega þetta.

IE: Og þegar þú elst upp á sama blettinum í 20 ár og ferð síðan eitthvað annað, þú ert orðinn svo samdauna umhverfinu þínu að þú verður ofurnæmur fyrir öllu nýju umhverfi og þetta er rosalega skrítin tilfinning því þú þarft að hugsa í rauninni um hvert einasta skref. Þú getur ekki gert neitt ómeðvitað. Allar ákvarðanir sem þú tekur eru meðvitaðar. Og það sem mér fannst líka áhugavert að skoða var sko hvað gerist ef þú tekur það svo einu skrefi lengra og verður bara allt of meðvitaður og getur ekki gert greinarmun á neinu áreiti, í rauninni.

Að gagnrýna gagnrýnendur

Þetta finnst mér mikil speki og við sitjum augnablik og hugsum það sem við vorum að ræða. Ari Eldjárn, sem situr enn á næsta borði og ég hafði ósjálfrátt gjóað augunum öðru hvoru til á meðan viðtalinu stóð, snýr sér nú brosandi að okkur.

AE: Afsakið, ég var að liggja á hleri en ég heyrði bara að þú varst rétt áðan að tala um gagnrýni og bækur, varstu að gefa út bók?

IE: Já, umm… Skáldsögu.

AE: Ég ætla að lesa þessa bók.

IE: Takk fyrir!

AE: Ég hef aldrei gefið út bók. Ég er ekki búinn að því. En þegar ég fór til Edinborgar á uppistandshátíð, þar eru sýningar bara dæmdar eins og bækur.

IE: Já, er það? Á Fringe [Festival]?

AE: Já. Þar er stór stétt gagnrýnenda. Og þar var haldið úti síðu sem heitir Fringe Pig þar sem gagnrýnendurnir voru dæmdir, þeim gefnar stjörnur og miskunnarlaust greindir. Hvaða orðfæri þeir nota, hvaða „bias“ þeir hafa, þetta var algjör upplifun. Þegar maður fékk slæman dóm var algjör huggun að fara þarna inn á. „Já, þessi, hann er náttúrulega algjör, gefur alltaf bara eina og hálfa stjörnu“.

KMB: Svona „Rate My Professor“ dæmi. „Ah, ég féll. Já, hann fellir alla.“

IE: Ég var einmitt í námi úti í Edinborg og var að skoða Rate My Professor fyrir Edinborgar-háskóla og þar var stundum svona: „Já, þessi var menntaður í Trinity, allir sem hafa kennt í Trinity hata mig af einhverjum ástæðum“.

AE: Svona eins og Trip Advisor.

IE: Sem er ógeðslega fyndið.

KMB: En það mætti alveg gera þetta á Íslandi, finnst mér. Af því þetta er bara svo mikið vandamál.

IE: En það eru auðvitað fordæmi fyrir þessu. Hallgrímur Helgason skrifaði mjög eftirminnilega gagnrýni um gagnrýni Jóns Viðars á Makbeð. Hann var bara: „Er þetta gagnrýni?“

AE: Maður fær alveg oft gagnrýni sem manni finnst bara „blatantly“ ósanngjörn. Og svo er maður alveg tilbúinn að éta upp mjög lélega dóma ef maður fær 5 stjörnur. 


Þetta fer ekki í viðtalið

IE: Það sem mér finnst líka- og þetta fer ekki í viðtalið-

Ari grípur fyrir munninn.

AE: Ó er viðtal í gangi?

IE: Já, þetta væri annars kannski svolítið einhliða samtal.

AE: „Ari Eldjárn treður sér inn, lætur allt snúast um sig. Fer að tala um Edinborg.“

Á þessum tímapunkti slekk ég á upptökunni og við Ingólfur eyðum dágóðum tíma í að spjalla við Ara á meðan ég klára pönnukökurnar. Og þó samtalið okkar hafi svolítið farið á annan veg en áætlað var er eitt víst að leikslokum. Allir listamenn þurfa að eiga við misgóða gagnrýnendur.